Rúmlega 80 milljónir söfnuðust í Reykjavíkurmaraþoninu

birt 30. september 2015

Viðurkenningahafar ásamt Maraþonmæðgum.Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2015 fór fram í dag. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum á Kirkjusandi. Í ár söfnuðu hlauparar 80.088.516 krónum til 167 góðgerðafélaga. Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin yfir 450 milljónir.Á uppskeruhátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is.

114 félög fá meira en 100 þúsund - 22 félög fá meira en milljón
Þau félög sem safnaðist mest fyrir í ár voru Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna 5,7 milljónir, Krabbameinsfélag Íslands 3,6 milljónir og MND félagið á Íslandi 2,8 milljónir. 114 af þeim 173 félögum sem tóku þátt í söfnuninni fengu meira en 100.000 krónur í sinn hlut, 22 félög fengu meira en milljón.

Þeir hlauparar og boðhlaupslið sem söfnuðu mest fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í dag. Þá voru einnig veitt verðlaun til góðgerðafélaga sem voru með hvatningarstöð á hlaupaleiðinni, um var að ræða útdráttarverðlaun að upphæð 50 þúsund krónur sem komu í hlut UNICEF á Íslandi og Minningarsjóðs Ölla. Fanný Kristín Heimisdóttir sem hljóp fyrir Birtu - Landssamtök safnaði mest allra hlaupara, 1.270.000 krónur. Steingrímur Sævarr Ólafsson safnaði næst mest, 1.191.000 krónur fyrir Styrktarsjóðinn Vináttu, en hann fékk jafnframt flest áheit, 226 talsins. Í þriðja sæti áheitasöfnunarinnar var Kjartan Þór Kjartansson sem safnaði fyrir Hollvini Grensásdeildar. Boðhlaupsliðið sem safnaði mestu voru Reykjadals Dóretturnar en liðið safnaði 188.500 krónur fyrir Reykjadal.

Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur sem sér um framkvæmd Reykjavíkurmaraþons, stjórnaði stuttri dagskrá uppskeruhátíðarinnar. Til máls tóku einnig Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Maraþonmæðgurnar Steiney Skúladóttir og Halldóra Geirharðsdóttir.

Í lok uppskeruhátíðarinnar fengu fulltrúar góðgerðafélaganna upplýsingar um þær fjárhæðir sem til þeirra söfnuðust. Áheitin verða greidd inn á reikninga góðgerðafélaganna þegar safnað fé hefur skilað sér frá síma- og kortafyrirtækjum, væntanlega í byrjun nóvember. Smellið hér til að skoða lista yfir öll góðgerðafélögin sem upphæðir söfnuðust til og hér til að skoða helstu tölfræði söfnunarinnar á hlaupastyrkur.is.