Sigurjón vel dúðaður í vetrarkuldanum í Spartan Race.Sigurjón Ernir Sturluson, hlaupari, hafnaði í þriðja sæti og varð jafnframt efsti Íslendingurinn í hindrunarhlaupinu Iceland Spartan Ultra World Championship sem fram fór í Hveragerði þann 8. desember síðastliðinn. Hann náði tíu hringjum og 250 hindrunum í hlaupinu, en samtals hljóp hann 115,5 kílómetra með 5,5 kílómetra hækkun, á tímanum 21:20:47. Hann hljóp í elítuflokki ásamt 82 öðrum hlaupurum hvaðanæva úr heiminum, en það var Bandaríkjamaðurinn Ryan Atkins sem hafnaði í fyrsta sæti í hlaupinu. Tveir aðrir Íslendingar kepptu í elítuflokki, þau Katrín Sigrún Tómasdóttir og Magni Hafsteinsson. Þau náðu að hlaupa sjö hringi.Svakaleg þrekraun„Brautin samanstóð af 10.6 km hlaupi með 25 hindrunum og ca. 555m hækkun. Við byrjuðum á að hlaupa upp krefjandi fjall (ca. 250-300m hækkun), næst hlupum við ca. 2-3 km á fjallinu og fórum svo niður fjallið í fljúgandi hálku. Þegar niður var komið tók við röð af hindrunum..", segir Sigurjón í færslu á Facebooksíðu sinni um brautina sem keppendur í elítuflokki þurftu að glíma við.Í samtali við mbl.is er Sigurjón spurður út ástæður þess að hann leggi á sig slíka þolraun. „Að sýna sjálfum þér og öðrum hversu megnugur þú ert, sem tengist reyndar inn í starfið mitt sem fjarþjálfari. Ég er alltaf að læra það betur og betur að þú veist ekki hversu gott þú hefur það, fyrr en þú ert kominn í það ástand að þú gætir aldrei haft það verra. Á fjórða og fimmta hring í hlaupinu var ég gjörsamlega bugaður og búinn á því. Þá áttaði ég mig á því hversu gott maður hefur það í rauninni dagsdaglega."Þess má geta að þrír Íslendingar til viðbótar tóku þátt í opnum flokki. Það voru þau Ágúst Guðmundsson, Sveinn Atli Árnason og Róbert Traustason.Lesa má ítarlega frásögn Sigurjóns af keppninni á Facebooksíðu hans.
birt 17. desember 2018