Sjálfboðaliðar óskast til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október

birt 02. október 2008

Á laugardaginn þarf Rauði krossinn að minnsta kosti 2.500 sjálfboðaliða til að Ganga til góðs svo að hægt sé að ná til allra heimila á landinu. Við viljum hvetja fólk til að sameinast í hressandi göngu og stuðningi við gott málefni. Aðeins er gert er ráð fyrir að hver gangi í um 1-2 klukkustundir eða þann tíma sem hentar hverjum og einum.
 
Söfnunarféð rennur óskert til verkefnis Rauða krossins um sameiningu fjölskyldna í Kongó.  Það er því sérlega vel til þess fallið að Íslendingar noti tækifærið til að sameinast um að ganga til góðs og leggja sitt af mörkum til að sameina fjölskyldur á átakasvæðum. Við viljum benda ykkur á að skoða myndband en Kompásþáttinn sem fjallaði um þetta efni má einnig sjá í fullri lengd á www.visir.is.

Æskilegt er að sem flestir skrái sig fyrirfram á  www.raudikrossinn.is, þar eru upplýsingar um söfnunarstöðvar á landsvísu. Nánari upplýsingar eru einnig veittar í síma 570 4000. Það er samt alls ekki nauðsynlegt að skrá sig til að vera með heldur er hægt að mæta á söfnunarstöðvarnar á laugardaginn. Þeir sem ekki sjá sér fært að ganga eru beðnir að taka vel á móti sjálfboðaliðum Rauða krossins og vera með reiðufé tilbúið til að setja í baukinn.

Það er von okkar að þú sjáir þér fært að ganga til góðs með okkur laugardaginn 4. október.
VEÐURSPÁIN ER GÓÐ! - SAMEINUMST NÚ - HVÍLUM OKKUR Á NEIKVÆÐUM FJÖLMIÐLUM OG GÖNGUM TIL GÓÐS!