Skíðagöngufélagið Ullur með æfingabúðir 6-9 febrúar

birt 29. janúar 2014

Skíðagöngufélagið Ullur stendur fyrir æfingabúðum í Bláfjöllum helgina 6.-9. Febrúar næstkomandi. Æfingabúðirnar eru ætlaðar öllum sem vilja bæta kunnáttu sína og tækni í skíðagöngu. Í tilkynningu segir að námskeiðið henti jafnt þeim sem stefni á að taka þátt í sinni fyrstu Íslandsgöngu eða þeim sem stefni í lengri og erfiðari göngur, hér heima eða erlendis.

Skíðaganga þykir úrvals mótvægi við hlaup og margir hlauparar ganga reglulega á skíðum. Þarna gefst því úrvals tækifæri fyrir hlaupara til að fá kærkomna fjölbreytni í æfingaveturinn, sem getur verið ansi þungur og erfiður í svartasta skammdeginu.

Dagskárin hefst með kynningar- og kennslufundi í Reykjavík á fimmtudagskvöldinu. Kennsla og æfingar fara fram á föstudegi til sunnudags. Þátttökugjald er 9.000 kr. Skráningin fer fram á heimasíðu skíðagöngufélagsins og þar má finna frekari upplýsingar um námskeiðið og starfsemi félagsins.