Skráning hafin í Laugavegsnámskeið hlaup.is og Sigga P. - Skráning í Laugavegshlaupið hefst á kl. 12 á föstudag

birt 09. janúar 2019

Þrekraun í náttúrufegurð.Skráning á Laugavegsnámskeið Hlaup.is og Sigurðar P. Sigmundssonar er hafin. Um er að ræða fjögurra mánaða undirbúningsnámskeið (4.mars-13.júlí) fyrir Laugavegshlaupið.Laugavegsnámskeið Sigga P. og hlaup.is er nú haldið í ellefta skipti en hundruð hlaupara hafa tekið þátt í námskeiðunum gegnum árin. Árlegur fjöldi hingað til hefur verið á bilinu 30-50 manns og hafa þátttakendur lokið hlaupinu á bilinu 5:00 klst til 9:00 klst. Námskeiðið hentar því fólki á öllum aldri og af mismunandi getustigum. Tekið er mið í persónulegum áætlunum af getu hvers og eins og áætlanir sniðnar að markmiðum hvers hlaupara.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningarform má finna á hlaup.is.

Áhugasamir eru beðnir um að hafa í huga að skráning í sjálft Laugavegshlaupið hefst föstudaginn 11. janúar kl. 12.00. Jafnan komast færri að en vilja og því um að gera að tryggja skráningu sem fyrst. Skráning í hlaupið fer fram á heimasíðu hlaupahaldara.

Ummæli nokkurra þeirra sem hafa sótt námskeiðið:

Í byrjun árs 2016 var öll fjölskyldan skráð á Laugavegsnámskeiðið hjá Sigga P. og Torfa. Eiginmaðurinn og dóttirin höfðu áður hlaupið Laugaveginn, en fullkomna skyldi gjörninginn með því að koma mömmu gömlu með. Skeptísk og tortryggin mætti ég á æfingu og átti von á því að vera hætt innan viku. Ég hætti þó fljótlega við það þegar ég áttaði mig á því að hver og einn fékk einstaklingsmiðaða æfingaáætlun, sem hentaði þörfum hvers og eins. Það kom sér vel fyrir mig, enda ekki hlaupið að gagni í mörg ár. Árangurinn skilaði sér heldur betur, en undirrituð komst alla leið innan tímamarka og eiginmaðurinn og dóttirin bættu sig verulega frá fyrri tímum.

Hlaupanámskeiðið hentar hlaupurum af mismunandi getu og vel er fylgst með hvernig gengur. Markmið einstaklinga verða alltaf misjöfn og þeir félagar hafa einstakt lag á að láta missprettharða einstaklinga hlaupa saman á æfingu. Að hlaupa Laugaveginn er háleitt markmið, en algjörlega yfirstíganlegt með réttri leiðsögn. Sjálf hefði ég aldrei lagt af stað, nema undir handleiðslu Sigga og Torfa. Svei mér þá, ef ég fer ekki bara aftur í ár!
Kristín Heimisdóttir (Bjarni Elvar Pjetursson, Gréta Rut Bjarnadóttir), Laugavegshlaupið 2016

"Ég hef tvisvar hlaupið Laugaveginn og undirbjó mig í bæði skiptin með því að fara á Laugavegsnámskeið hjá Sigurði og Torfa.

Námskeiðið er mjög vel útfært og frábært að fá æfingaáætlun sem sniðin er að þörfum hvers og eins. Félagsskapurinn og andlegi stuðningurinn á undirbúningstímanum var mjög góður og gerði það að verkum að árangurinn í hlaupinu og upplifunin var enn ánægjulegri en ella.  Einnig var frábært að fá tímasetta áætlunin fyrir hlaupið sjálft.  Ég mun fara á námskeiðið í þriðja sinn í ár til að undirbúa mig fyrir Laugaveginn."
Hinrik Pálsson, Laugavegur 2013 og 2014.

"Ég skráði mig á Laugavegsnámskeiðið 2013 hjá Sigga og Torfa því mig langaði að undirbúa mig vel, líkamlega og andlega, fyrir fyrsta Laugavegshlaupið mitt. Námskeiðið reyndist framar öllum vonum, ég fékk einstaklings prógramm, samæfingar, frábæra leiðsögn og síðast en ekki síst frábæran félgasskap. Í hópnum voru einstaklingar með mismunandi markmið og væntingar en allir gátu samt sem áður fundið einhvern til að vera "samferða" á æfingum og í keppnum. Mér líkaði námskeiðið svo vel að ég skráði mig aftur 2014 og dró þá manninn minn með og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við ætlum að bæði að skrá okkur aftur 2015 :)
Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, Laugavegur 2013 og 2014.