Skráning í Hengill Ultra hefst á fimmtudag - fleiri vegalengdir en áður

birt 14. maí 2017

Lengsta Ultra maraþon hlaup ársins á Íslandi, Hengill Ultra, verður haldið í sjötta sinn í ár, laugardaginn 2. september nk. Hlaupið verður með örlítið breyttu sniði í ár en fleiri vegalengdir verða í boði en áður, stærsta breytingin er að nú verður í fyrsta sinn boðið uppá 100 km vegalengd. Auk þess verður 80 km hlaupaleið í boði en þær tvær vegalengdir gefa fjóra UTMB punkta, 50 km gefa 2 UTMB punkta, einnig er boðið upp á léttari utanvegahlaup sem er 24 kílómetrar. Að lokum verður í fyrsta sinn boðið uppá fjölskylduvænt utanvegahlaup annarsvegar 10 km og hinsvegar  5 km.


Það er svo sannarlega mikilfenglegt landslag sem þátttakendur í Hengill Ultra hlaupa í.

Upphaf hlaupsins og mótstjórn verður í hjarta Hveragerðis í lystigarði bæjarbúa og verður öllum vegalengdum hlaupsins startað þaðan. Hlaupið er upp Reykjadalinn, upp á Hellisheiði, inn að Hengli og uppá hann. Útsýnið þaðan er algjörlega einstakt á góðum degi og hlaupaleiðin er einhver sú alfallegasta sem hægt er að finna á Íslandi.

Keppendum verður boðið upp á heita máltíð og hressingu eftir keppni og allir sem hlaupa má gjafabréf í sund. Verðlaunaafhending og grillveisla fyrir keppendur og aðstandendur verður kl. 17:00. Tímatökubúnaður verður notaður og allir hlauparar nema í 5 og 10 km hlaupa með tímatökuflögur en tímatakan verður undir stjórn fagmanna frá ÞRÍKÓ sem sérhæfa sig í tímatökum í hlaupum sem þessum.

Skipuleggjendur hlaupsins í ár eru sömu aðilar og staðið hafa að KIA Gullhringum, stærstu og vinsælustu hjólreiðakeppni landsins sem haldin er á Laugarvatni ár hvert. Sú keppni er annáluð fyrir veglega umgjörð og áherslu á öryggi og velferð keppenda. Hengill Ultra verður síðasta stóra hlaup sumarsins og má því segja að þetta verði sannkölluð uppskeruhátíð íslenskra hlaupara.

Heilmikið verður í boði fyrir fjölskyldur hlaupara og þá sem fylgja hlaupurunum í Hveragerði þennan dag. Má segja að blásið verði til sannkallaðrar fjölskylduveislu með tónlist og leiktækjum og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Sögugöngur, grænmetis- og blómamarkaður eru bara brot af því sem boðið verður uppá.

Slagorð hlaupsins er „Allir hlaupa, allir vinna og allir velkomnir"

Þátttaka í 50, 80 og 100 kílómetra vegalengdunum í Hengill Ultra tryggir keppendum þáttökupunkta í hinum heimsfrægu Mont Blanc hlaupum og fjöldi hlaupara kemur að erlendis frá til að taka þátt í Hengill Ultra því slík punktagjöf býðst ekki hvar sem er í heiminum. Hengill Ultra, Mount Esja Ultra og Laugavegshlaup ÍBR eru einu hlaupin á Íslandi sem státa af samstarfi við hin heimsfrægu hlaup í Mont Blanc.  http://utmbmontblanc.com/en/

Aukin áhersla verður lögð á öryggisgæslu í ár. Björgunarveitir munu sjá um öryggisgæslu í brautinni en hlaupið er um torfær svæði og á mörgum stöðum eru fjórhjól og háfjallajeppar einu tækin sem komast auðveldlega að til að geta  sótt slasaða hlaupara úr brautinni. Læknir verður á vakt við mótstjórn allan daginn og sjúkrabifreið til taks til komi upp alvarlega atvik á keppnisstað.

ALLAR NÁNARI UPPLÝSINGAR Á wwww.hengillultra.is     

SKRÁNING HEFST Á FIMMTUDAG KL 09:00 á wwww.hengillultra.is