Þúsundþjalasmiðurinn, Snorri Björnsson fór nýlega af stað með hlaðvarpsþætti (podcast) þar sem hann ræðir við áhugaverða íþróttamenn. Í síðasta þætti ræddi Snorri við Arnar Sigurðsson, Crossfit kappa sem á maraþon á undir þremur tímum. Í kjölfarið ætlar Snorri að gera tvo þætti til viðbótar um langhlaup. Það er því full ástæða til að benda íslenska hlaupasamfélaginu á þessa áhugaverðu hlaðvarpsþætti Snorra. Þáttinn má sjá hér að neðan. Einnig má nálgast þættina á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir nafninu, The Snorri Björns Podcast Show.
"Ég hitti Arnar í hádegismat fyrir nokkrum vikum og hann sagði mér söguna af því þegar hann hljóp maraþon undir þremur klukkutímum, sama ár og hann tók 200kg í réttstöðulyftu. Sagan af þessu afreki hreyfði mikið við mér og kveikti undir miklum hlaupaáhuga hjá mér. Svo miklum að ég ákvað að búa til þrjá sérstaka hlaupaþætti á podcastinu. Arnar er toppmaður, lögfræðimenntaður með konu og börn og eitt stykki járnhaus sem hann notar til að takast á við áskoranir sem mig hryllir við að hugsa um. Þó stefnan sé ekki að hlaupa í sumar eða í þessu lífi þá veistu alveg að þú getur bætt þig á ýmsum vígvöllum lífsins og dæmisögurnar hans Arnars eru kjörið spark í rassinn,"segir Snorri um fyrsta þáttinn.