Síðastliðið haust stóð hlaup.is fyrir áheitasöfnun fyrir Kára Stein Karlsson vegna markmiðs hans um að komast á Ólympíuleikana í London 2012 og keppa þar í maraþonhlaupi. Heitið var á Kára Stein að slá þáverandi Íslandsmet Sigurðar P. Sigmundssonar í maraþoni 2:19:46. Eins og flestum er kunnugt um sló Kári Steinn Íslandsmetið á glæsilegan hátt í Berlínarmarþoni og hljóp á 2:17:12.
Hlaup.is afhenti Kára Steini og Gunnari Páli þjálfara hans söfnunarféð formlega í desember, en endanleg söfnunarupphæð var 1.042.704 krónur. Markmiðið var að safna að minnsta kosti 1 milljón og náðist það markmið. Söfnunarféð hefur nýst þeim félögum bæði vegna kostnaðar við Berlínarmaraþonið og æfingabúðirnar í Suður-Afríku (sjá hér fyrir neðan). Á myndinni hér fyrir neðan afhendir Torfi H. Leifsson Kára Steini og Gunnari Páli söfnunarféð.
Í viðtali hlaup.is við Gunnar Pál Jóakimsson þjálfara Kára Steins, sagði hann að söfnunin og söfnunarféð hefði styrkt stöðu Kára geysilega strax í upphafi og vitandi af þeim peningum hefði verið hægt að byrja strax að skipuleggja æfingabúðir og keppni eins og vilji stóð til. Í kjölfarið hafa ýmis fyrirtæki styrkt Kára Stein og undirbúning hans fyrir Ólympíuleikana. Dæmi um þetta er matsölustaðurinn Saffran sem greiðir Kára Steini 100 kr fyrir hvern seldan "Kára Steins" rétt. Hlaup.is hvetur hlaupara til að borða á Saffran og styrkja Kára Stein í leiðinni.
Gunnar Páll sagði líka að æfingar Kára Steins hefðu gengið vel fyrir áramót. Fyrstu 3 vikurnar eftir maraþonið í Berlín voru mjög rólegar en síðan fór Kári hægt og rólega að auka álagið á ný og fór magnið yfir 140 km í fjórum æfingavikum í nóvember og desember.
Á þeim tíma voru gæðaæfingar 3 í viku. Tvær á hlaupabraut innanhúss og ein á hlaupabretti. Í desember byrjaði Kári að taka eina langa gæðaæfingu í viku, yfir 30 km, mjög krefjandi æfingar. Í janúar fór Kári Steinn í æfingabúðir í Suður-Afríku með dönskum hlaupurum og þar fór æfingamagnið í um 200 km á viku í lengstu vikunni þar.
Í framhaldi af æfingabúðunum í Suður-Afríku hófst undirbúningur fyrir æfingamaraþon í Treviso á Ítalíu þann 4. mars en Kári var einmitt að ljúka því þegar þetta er skrifað á tímanum 2:18:52 og lenti í 3ja sæti.
Gunnar Páll sagði síðan að um páskana muni Kári Steinn aftur fara í æfingabúðir, þá væntanlega til Spánar og síðan í þriðju æfingabúðirnar í maí, mjög líklega til Boulder í Bandaríkjunum.
Torfi H. Leifsson afhendir Kára Steini og Gunnari Páli söfnunarféð.