Félag 100 km hlaupara á Íslandi er fjögurra ára um þessar mundir. Í félaginu eru Íslendingar sem lokið hafa þátttöku í viðurkenndu, opinberu 100 km keppnishlaupi, eða lengra hlaupi. Nú í september eru 10 ár liðin síðan fyrsti íslendingurinn (Ágúst Kvaran) hljóp 100 km keppnishlaup, en það var 12. september 1998 í Winschoten í Hollandi.
Síðan þá hefur verið jöfn aukning í þátttöku íslendinga í ofurmaraþonhlaupum, 100 km eða lengri. Í ár hafa bæst við 11 félagsmenn þannig að félagar í dag eru samtals 26. Munar þar mest um þátttakendur í 100 km hlaupi sem félagið stóð fyrir í júní síðastliðnum. Í vikunni voru nýir félagar teknir inn í félagið með formlegum hætti (sjá mynd frá félagsfundi meðfylgjandi). Föstudaginn 26. september hefja tveir félagsmenn, þeir Gunnlaugur Júlíusson og Höskuldur Kristvinsson þátttöku í einu lengsta ofurmaraþonhlaupi sem sögur fara af, Spartalon08 í Grikklandi, þar sem hlaupið er frá Aþenu til Spörtu, um 246 km vegalengd. Ljúka verður hlaupinu á innan við einum og hálfum sólarhring.
Unnt er að fylgjast með hlaupinu á vefsíðunni http://www.spartathlon.gr/.
Fylgst er með Gunnlaugi og Höskuldi í Spartalon á vefsíðu félags 100 km hlaupara á vefsíðu Ágústs Kvaran og hjá Berki Árnasyni: http://barky.blogcentral.is/.