Stefán Guðmundsson með Íslandsmet í flokki 45-49 ára í hálfmaraþoni

birt 17. september 2015

Stefán Guðmundsson, setti Íslandsmet í hálfmaraþoni í flokki 45-49 ára í Kaupmannahöfn um helgina. Tími Stefáns var 1:14:16 en um var að ræða hið opinbera hálfmaraþon Kaupmannahafnarborgar þar sem keppendur voru hvorki fleiri né færri en 24 þúsund.Í samtali við fulltrúa hlaup.is sagðist Stefán hafa fundið sig einkar vel í hlaupinu sem fór fram við bestu aðstæður, bætingin gæfi jafnframt góðar vonir fyrir Berlínarmaraþonið sem fram fer 27. september næstkomandi.Stefán sem hefur verið búsettur í Kaupmannahöfn um árabil segist  ætla að freista þess að bæta sinn fyrri árangur í maraþoni (2:34:17) í Berlín eftir rúma tíu daga. Aðspurður um áherslur á árinu segist Stefán hafa unnið meira í hraðanum og m.a. náð sínum besta tíma í 10 km hlaupi (34:19) í Kaupmannahöfn 10.maí síðastliðinn.

Ekki er langt síðan Stefán fór að vekja athygli í íslenska hlaupaheiminum fyrir athyglisverðan árangur en undanfarin tvö ár hefur hann verið á lista þeirra sem koma til greina sem Langhlaupari ársins á hlaup.is. Á síðasta ári tók hlaup.is ítarlegt viðtal við Stefán sem má nálgast hér.