Yfir 300 hlauparar tóku þátt í Stjörnuhlaupinu í Garðabæ sem fram fór nú fyrir skömmu. Hlaupahópur Stjörnunnar stóð fyrir hlaupinu sem haldið var í fyrsta skipti. Öll umgjörð og skipulagnding var fyrsta flokks og óhætt að segja að Stjörnumenn hafi stimplað sig inn sem hlaupahaldarar í hæsta klassa.
Í aðdraganda hlaupsins birtu Stjörnumenn glæsilegt kynningarmyndband, þar sem hlaupaleiðirnar voru kynntar úr lofti með aðstoð dróna. Garðbæingarnir létu ekki við staðar numið heldur voru með tökuvélina að vopni í lofti sem og á láði á hlaupadag en afraksturinn má sjá hér að ofan. Glæsilegt hlaup í alla staði og glæsileg viðbót í hina ört vaxandi íslensku hlaupasenu. Full ástæða er til að hvetja Garðbæinga til að endurtaka leikinn að ári og gera hlaupið að árlegum viðburði. Að lokum eru hlaupahaldarar hvattir til að deila álíka myndböndum með hlaupurum hér á hlaup.is.