Stjörnuhlaupið verður einnig Meistaramót Íslands í 10 km hlaupi

birt 07. apríl 2016

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) óskaði eftir umsóknum frá hlaupahöldurum um framkvæmd Meistaramóts Íslands í 10 km götuhlaupi karla og kvenna. Nokkrar umsóknir bárust og var niðurstaða FRÍ að veita Hlaupahópi Stjörnunnar í Garðabæ framkvæmd hlaupsins árið 2016.

Stjörnuhlaup VHE fer fram í Garðabæ laugardaginn  21. maí. Boðið er upp á tvær vegalengdir, 5 km og 10 km Íslandsmeistaramót og hefst hlaupið kl. 11:00 frá Garðatorgi í báðum vegalengdum.

Keppt verður í aldursflokkum og boðið verður upp á sveitakeppni í 10 km vegalengdinni sem hentar skokkhópum, fyrirtækjum og öðrum hópum. Veitt verða verðlaun fyrir Íslandsmeistaratitil í einstaklingskeppni, aldursflokkum og sveitakeppni í karla og kvenna. Athygli er vakin á því að einungis hlaupahópar innan íþróttahreyfingarinnar (ÍSÍ og UMFÍ)  geta orðið Íslandsmeistarar í sveitakeppninni. Á móti geta sveitir af öllum uppruna tekið þátt þó þær uppfylli ekki áðurnefnt skilyrði.

Verðlaun í 10km Íslandsmeistaramóti:

  • Einstaklingskeppni. Veitt verða verðlaun fyrir 1.-3. sæti karla og kvenna í Íslandsmeistarahlaupi.
  • Aldursflokkar. Veitt verða verðlaun í 1.-3. sæti karla og kvenna í Íslandsmeistarahlaupi öldunga, 40-49 og 50 ára og eldri.
  • Íslandsmeistaramót í sveitakeppni. Veitt verða verðlaun fyrir 1. sæti í sveitakeppnum karla og kvenna

Upplýsingar um Stjörnuhlaupið má finna á hlaup.is