uppfært 25. ágúst 2020

Þrír íslenskir hlauparar, þeir Gunnar Júlíusson, Birgir Sævarsson og Stefán Bragi Bjarnason tóku þátt í Tor Des Geants, 330 km utanvegahlaupi með 24.000m hækkun sem hófst í síðustu viku!

Þrímenningarnir sem lögðu í þessa allt að ómannlegu áskorun þurftu að kljást við ýmsar aðstæður á leiðinni en þeir héldu af stað sunnudaginn 8. september. Skemmst er að segja frá því að Birgir og Stefán Bragi náðu að ljúka hlaupinu en Gunnar Júlíusson þurfti frá að hverfa eftir um 178 km. Birgir hafnaði í 155. sæti en Stefán Bragi í 562. sæti en þess má geta að 941 hlaupari tók þátt í hlaupinu

Birgir lauk hlaupinu á rétt rúmlega fimm sólarhringum. Stefán Bragi kom í mark eftir sex sólarhringa og tæpum sex klukkustundum betur. Það eitt að láta sér detta í hug að leggja í þessa tröllaáskorun er ákveðið afrek. En hitt að leggja alla 330 km að velli svo ekki sé talað um alla hækkunin, það er eitthvað orð ná vart utan um.

Ágúst Kvaran, utanvegafrömuður fylgdist vel með þrímenningunum og veitti hlaup.is uppllýsingar um gang mála. Hlaup.is þakkar Ágústi veitta aðstoð.