Stórhlauparinn Wilson Kipketer er á leiðinni til Íslands og mun halda námskeið í hlaupaþjálfun á Grand Hótel í Reykjavík 18. nóvember n.k. Wilson Kipketer er fæddur í Kenía en gerðist síðar danskur ríkisborgari og keppti fyrir Danmörku sem millivegalengdahlaupari við góðan orðstír. Heimsmet hans utanhúss í 800m hlaupi (1:41.11mín) stóð í 13 ár en var fyrst slegið nú í sumar af David Rudisha á Ólympíuleikunum í London. Wilson á hins vegar enn heimsmetin innanhúss í 800m og 1000m. Wilson var heimsmeistari þrisvar sinnum í röð árin 1995, 1997 og 1999. Samanlagt náði hann í 10 verðlaunapeninga á stórmótum eins og Ólympíuleikum, Heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum. Wilson var kosinn íþróttamður ársins í karlaflokki í Evrópu árið 1997 og frjálsíþróttamaður ársins í karlaflokki í heiminum árið 1997. Það er því enginn smá kappi sem kemur til landsins innan tíðar til þess að miðla íþróttamönnum, þjálfurum og öðrum áhugamönnum um hlaupaþjálfun af reynslu sinni. |
Við bjóðum Wilson Kipketer velkominn til Íslands.
Skráning og nánari upplýsingar á www.vesteinn.com eða hafið samband við Fríðu Rún Þórðardóttur í síma 898-8798 eða í gegnum tölvupóst fridaruner@hotmail.com
Vésteinn Hafsteinsson og Fríða Rún Þórðardóttir