birt 11. júlí 2008

Barðsneshlaup fer venju samkvæmt fram á laugardegi um verslunarmannahelgi. Hver einasti langhlaupari með vott af sjálfsvirðingu lætur ekki hjá líða í sínu lífshlaupi að taka a.m.k. einu sinni þátt í hinu fjörlega 27 km fjöru- og fjallahlaupi sem byrjar úti á miðju Barðsnesi, liggur um þrjá firði og endar inni í miðjum bæ Neskaupstaðar. Fæstir láta eitt hlaup nægja! Á þessum síðustu og verstu samdráttartímum er líka boðið upp á hálft Barðsnes, s.k. Hellisfjarðarhlaup sem telst vera 13 km.

Barðsneshlaupið er óvenju fjölbreytt og skemmtilegt hlaup sem breiður hópur fólks á öllum aldri getur tekið þátt í, því þú getur hlaupið eins og þú eigir lífið að leysa eða bara gengið og skokkað á víxl; hvort tveggja skilar þér örugglega í mark samdægurs (óþarfi að taka tjaldið með!).

Barðsnes- og Hellisfjarðarhlaup fara fram að morgni laugardagsins 2. ágúst n.k. Mæting á Bæjarbryggjuna í Neskaupstað. Allar nánari upplýsingar og vefskráning á http://www.islandia.is/bardsneshlaup.

Vertu til þegar Barðsnesið kallar á þig 2. ágúst 2008!