Þorbergur setur brautarmet á Laugaveginum 2015Þorbergur Ingi Jónson er í 79. sæti á lista yfir fremstu utanvegahlaupara heims. Mbl.is greindi frá þessu á vef sínum á miðvikudag. Þorbergur hafnaði sjötta sæti í CCC utanvegahlaupinu í Mt. Blanc fyrr í september en þess utan hefur hann látið að sér kveða í fleiri alþjóðlegum utanvegahlaupum undanfarin ár.Í viðtali við Mbl.is er Þorbergur hvergi banginn og stefnir enn hærra. „Ég held að ég eigi talsvert meira inni. Stóra markmiðið á næsta ári er heimsmeistaramót á Spáni í maí, 84 kílómetra hlaup með einhverri 5000 metra hækkun. Nú þarf ég bara ná mér almennilega og svo ætla ég að reyna að keyra hraðann aðeins upp, ég hef ekki getað hlaupið neitt hratt,"segir Þorbergur við blaðamann mbl.is.
Árangur Þorbergs í CCC hlaupinu er einmitt einkar athyglisverður með hliðsjón af því að hann fór í aðgerð í apríl sem hafði sín áhrif á undirbúninginn. Það er því kristaltært að Þorbergur á ýmislegt inni og því verður spennandi að fylgjast með þessum stórkostlega íþróttamanni á næstu misserum.
Frétt hlaup.is: Þorbergur Ingi sjötti í gríðarlega sterku utanvegahlaupi