Þorbergur Ingi Jónsson hafnaði í sautjánda sæti í Madeira Island Ultra (MIUT), gríðarsterku utanvegahlaupi sem hófst á föstudagskvöld á portúgölsku eyjunni Madeira. Tæplega þúsund manns voru skráðir til leiks í karlaflokki en 640 luku hlaupinu sem var 115 km langt með 7500m hækkun.
Eftir að hafa lagt af stað á miðnætti á föstudag kom Þorbergur í mark á rétt undir sextán tímum eða 15:56:26. Fínasti árangur hjá einum af okkar fremsta utanvegahlaupara. Þess má geta að Þorbergur var fimmti stigahæsti þátttakandinn í hlaupinu skv. ITRA listanum.
Það var hinn geysiöflugi Frakki, Francois Dhaene sem sigraði í hlaupinu á 13:49:36 en hann sigraði einmitt í UTMB árið 2017. Stefán Bragi Bjarnason tók einnig þátt í hlaupinu en náði ekki tímamörkum á stöð eftir 63 km.
Þá tóku þær Eva Birgisdóttir og Sara Dögg Pétursdóttir þátt í öðru hlaupi sem er hluti af MIUT. Vegalengdin sem þær stöllur hlupu var heilt maraþon með 1800m hækkun. Eva kom í mark á 05:47:43 og hafnaði í 106. sæti alls og 21. sæti kvenna. Sara Dögg kom í mark á 6:58:50 og hafnaði í 285. sæti alls og 74. sæti kvenna. 574 hlauparar kláruðu hlaupið, þar af 204 konur.