Fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur verður þreytt öðru sinni laugardaginn 25. júní nk. Rétt eins og í fyrra verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum (20 km), þaðan yfir Bitruháls að Gröf (10 km) og loks suður Krossárdal að Kleifum (10,5 km). Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir.
Þetta er í annað skipti sem þessir heiðarvegir eru hlaupnir allir í lotu en í fyrra var um "frumhlaup" að ræða sem tókst skínandi vel. Eins og síðast verður meira lagt upp úr að halda hópinn (eða hópana) og hlaupa sér til skemmtunar en að fara eins hratt og fætur toga. Þátttaka og tímataka er á ábyrgð hvers og eins, en drykkjarstöðvar eru í hverjum læk.
Hægt er að fræðast meira um þetta tiltæki og lesa ferðasöguna frá því í fyrra á http://blogg.visir.is/stefangisla/2010/06/23/af_thristrendingi/ og http://www.facebook.com/event.php?eid=117972874892141.
Stefán Gíslason og Dofri Hermannsson,
stefan@umis.is