Þremenningarnir ásamt Elísabetu Margeirs á Mt. Fuji í fyrra.Að minnsta kosti þrír Íslendingar eru nú á ferðinni í UTMF - Mt. Fuji í Japan. Um er að ræða 168 km utanvegahlaup með rúmlega 8300m hækkun. 1400 keppendur taka þátt í hlaupinu en tímamörk eru 40 klukkustundir.Íslendingarnir þrír sem hlaup.is er kunnugt um að séu þátttakendur í hlaupinu eru búnir að hlaupa síðan kl. 05.00 í nótt, aðfaranótt föstudags. Keppendurnir eru Sigurður Kiernan, Börkur Árnason og Stefán Bragi Bjarnason.Þegar þetta er skrifað er Sigurður fremstur Íslendinganna en þegar hann fór í gegnum 50 km markið var hann í 107. sæti á tímanum 06:32:15.
Börkur var nr. 421 í gegnum sama mark á tímanum 08:16:20 og Stefán í 750. sæti á 09:25:32. Sannarlega íslensk ofurmenni hér á ferðinni.
Allir þrír tóku þátt í hlaupinu í fyrra en þá náðu Stefán og Börkur ekki að klára innan 40 klukkustunda tímamarksins, m.a. vegna slyss í brautinni sem tafði þá. Þeir freista þess eflaust að bæta um betur í ár. Sigurður lauk hinsvegar hlaupinu á um 32 klukkustundum, eins og hann sagði eftirminnilega frá í viðtali við hlaup.is skömmu eftir heimkomuna.
Hlaup.is biður lesendur um að senda línu í gegnum fésbókarsíðu okkar ef vita um fleiri íslenska keppendur á Mt. Fuji.