Elín Edda Sigurðardóttir segir að ekki verði aftur snúið nú þegar hún hafi einu sinni hlaupið maraþon, hún stefni á annað á þessu ári. Þetta kemur fram í innslagi sem birtist á RÚV í gær. Eins og lesendur hlaup.is vita hljóp Elín Edda besta maraþon íslenskrar konu í tuttugu ár í Hamborg á sunnudag, aðeins Martha Ernstdóttir hefur hlaupið maraþon á betri tíma. Elín Edda hljóp á 2:49:00 í Hamborg en Íslandsmet Mörthu frá 1999 er 2:35:15.
„Þetta var ótrúleg upplifun. Það er ótrúlega bæði erfitt, krefjandi, og eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert," sagði Elín Edda um maraþonið en hún var að hlaupa vegalengdina í fyrsta skipti. Hún hefur hins vegar verið einkar sigursæl í styttri vegalengdum hér á landi á undanförnum misserum. Skemmst er að minnast hálfmaraþons hennar í Mílanó fyrir skömmu þegar hún hljóp á öðrum besta tíma íslenskrar konu frá upphafi. Þá hljóp Elín Edda á 1:19:38 en Íslandsmet Mörthu Ernstdóttur frá 1996 er 1:11:14.
Meðvituð ákvörðun að bíða með maraþon
Í viðtalinu kemur fram að sú ákvörðun Elínar Eddu að hlaupa ekki maraþon fyrr en nú hafi verið meðvituð og tekin í samráði við þjálfara hennar. Þess í stað hafi hún einbeitt sér að því að hlaupa góð hálfmaraþon og tíu km hlaup hingað til. Ákvörðun um maraþon á þessum tímapunkti hafi hins vegar verið tekin síðasta haust og veturinn hafi farið í undirbúning fyrir Hamborgarmaraþonið.
Þessi ráðstöfun hefur greinilega verið skynsamleg enda maraþonið í Hamborg frábærlega útfært hjá Elínu Eddu og gefur virkilega góð fyrirheit um framhaldið.
Hræðilegur sársauki en gleymist fljótt
Elín Edda tekur fram að árangurinn í Hamborg hafi komið henni í opna skjöldu: „Þessi tími kom mér á óvart, þetta er betri tími en ég hafði nokkurn tímann þorað að vona."
Á Elínu Eddu er að heyra að hún ætli sér enn frekari hluti í maraþonvegalengdinni, stefni á annað maraþon á þessu ári. „Eiginlega strax eftir hlaupið þá sagði ég við sjálfa mig: Þetta geri ég aldrei aftur. Þetta er svona sársauki sem er alveg hræðilegur í smá stund. Og svo gleymir maður honum, eins og bara að fæða barn eða eitthvað. Þú veist, maður bara gleymir þessu. Þannig að ég er búin að vera að hugsa svolítið mikið um þetta síðan á sunnudaginn. Nú er kominn þriðjudagur. Og ég er alveg staðráðin í að ég ætla að fara aftur maraþon, og á þessu ári. Og ég á örugglega eftir að gera það aftur og aftur og aftur." segir Elín Edda.
Innslagið í heild má sjá á vef RÚV.
Mynd: Fri.is.