Um 12 þúsund hlauparar skráðir í Reykjavíkurmaraþon

birt 17. ágúst 2017

Ægissíðan er geggjuð í Reykjavíkurmaraþoni. Um 11.800 manns hafa skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið núna tveimur dögum fyrir þennan stærsta hlaupaviðburð ársins á Íslandi.3.900 erlendir hlauparar skráðirLangflestir eru skráðir í 10 kílómetra hlaup eða rétt tæplega 6.000 manns. Góð aðsókn er í hálfmaraþon, eða um 3.000. Um 1.500 eru skráðir í heilt maraþon og rúmlega 1.000 í skemmtiskokk. Að vanda fjölmenna erlendir hlauparar í Reykjavíkurmaraþonið en 3.900 erlendir þátttakendur frá 85 löndum eru skráðir í hlaupið.Skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka verður haldin í Laugardalshöll fimmtudaginn 17.ágúst og föstudaginn 18.ágúst.

Á skráningarhátíðinni fá skráðir þátttakendur afhend hlaupagögn sín en einnig verður hægt að skrá sig á staðnum. Skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka hluti af stórsýningunni FIT & RUN 2017 sem er einstök sýning fyrir alla fjölskylduna. Lögð verður áhersla á undirbúning hlaupara fyrir Reykjavíkurmaraþonið, almenna hreyfingu, heilsufæði, fatnað, skóbúnað og aðrar stuðningsvörur hlauparans á samt skemmtilegum uppákomum.

Þá minnir Hlaup.is einnig á áheitasöfnunina en á www.hlaupastyrkur.is er hægt að finna sér verðugt málefni til að styðja.

Hlaup.is óskar hlaupurum góðs gengis á laugardaginn, munum að njóta dagsins. Fylgist með á hlaup.is eftir hlaupið en úrslit úr Reykjavíkurmaraþoninu birtast á á síðunni samdægurs. Þá verður ljósmyndari hlaup.is á staðnum og myndir munu væntanlega birtast á vefnum í næstu viku.