birt 04. desember 2006

Þriðja uppskeruhátíð Framfara var haldin 29. nóvember sl. Dagskráin hófst á því að Elín Reed og Pétur Ingi Frantzson héldu myndasýningu og erindi um Lapplandsferð þeirra og Gunnars Richter og Ellerts Sigurðarson þar sem þau lögðu að baki 100 km hlaup síðastliðið sumar. Þetta var hin mesta skemmtun og öruggt er að Framfarir mun gangast fyrir annarri eins myndasýningu.

Þá fór fram verðlaunaafhending fyrir heildarstigakeppni í hlaupaseríu New Balance og Framfara en eins og nafnið bendir til var New Balance styrktaraðili hlaupsins. Herdís Helga Arnalds Breiðablik sigraði í heildarstigakeppni kvenna með fullt hús stiga, Fríða Rún Þórðardóttir ÍR varð í 2. sæti og hin unga Björg Gunnarsdóttir ÍR í 3. sæti.

ÍR varð sigurvegari í heildarstigakeppni kvennaliða. Í karlakeppninni sigraði Kári Steinn Karlsson Breiðablik, Þorbergur Ingi Jónsson Breiðablik varð í 2. sæti og Burkni Helgason ÍR í því 3. Breiðablik varð sigurvegari í liðakeppninni.

Næst var verðlaunaafhending Framfara fyrir árangur á árinu 2006. Stefanía Hákonardóttir Fjölni var valin efnilegasti hlauparinn, Kári Steinn Karlsson Breiðablik fékk Framfaraverðlaunin, Björn Margeirsson FH var valinn karl hlaupari ársins og Íris Anna Skúladóttir Fjölni kven hlaupari ársins. Skokkhópur Sauðárkróks var valinn skokkhópur ársins en meðlimir hópsins hafa vakið eftirtekt fyrir frábæra þátttöku í hlaupum á árinu og góða ástundun.

Þau Kári Steinn og Íris Anna hlutu að lokum styrk frá Framförum til að standa straum af æfinga- og keppnisferðum á árinu 2007 sem undirbúningi fyrir stórmót ársins sem eru mörg á næsta ári. Má þar helst nefna Smáþjóðaleika, Evrópumeistaramót og Norðulandameistaramót.

Framfarir þakka hollvinum félagssins, Afreksvörum og Salatbarnum veittan stuðning.