Veldu langhlaupara ársins 2009 með hlaup.is

birt 17. desember 2009

Hlaup.is hefur ákveðið að standa fyrir vali á langhlaupara ársins 2009 bæði í karla og kvennaflokki. Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum. Afrek er afstætt, getur verið góður tími miðað við aldur, óvenjulegt verkefni, þrautseigja og kjarkur eða hvað eina sem hægt er að meta til viðurkenningar.

Lesendum hlaup.is er boðið að senda inn tilnefningar ásamt stuttri greinargerð um afrek viðkomandi á árinu. Þann 31. desember mun hlaup.is birta helstu tilnefningarnar sem kosið verður um. Lesendur hafa þá tvær vikur til að kjósa hér á hlaup.is.

Atkvæði þeirra munu hafa 50% vægi í valinu á móti 50% vægi dómnefndar sem skipuð er Torfa Helga Leifssyni umsjónarmanni hlaup.is, Sigurði P. Sigmundssyni langhlaupara og þjálfara, Gunnari Páli Jóakimssyni þjálfara og fyrrum þjálfara Skokkhóps ÍR, Erlu Gunnarsdóttur þjálfara Skokkhóps Fjölnis í Grafarvogi og Rannveigu Oddsdóttur, langhlauparadeild UFA á Akureyri.

Vinsamlegast sendið tilnefningar á netfangið torfi@hlaup.is fyrir kl. 18:00 þann 30. desember.

Verðlaunaafhending og niðurstaða valsins verður kynnt 16. janúar næstkomandi.