Fjórða og síðasta hlaupið í Víðavangshlauparöð Framfara og New Balance á Íslandi var haldið í kyrru en mjög köldu veðri laugardaginn 20. nóvember. Rúmlega ökkladjúpur snjór var á túninu, sem nægði til að hægja verulega á hlaupurum þrátt fyir að brautin væri rudd fyrir hlaup.
Kári Steinn Karlsson og Íris Anna Skúladóttir sigruðu með yfirburðum og gulltryggðu þannig sigra sína í stigakeppninni, en þau hafa unnið öll sín hlaup. UMSS varð heildarsigurvegari í sveitakeppni karla, en Fjölnisstelpur voru þegar búnar að tryggja sér kvennakeppnina.
Sigurvegarar í stigakeppni einstaklinga fengu vörur frá Afreksvörum, umboðs- og söluaðila New Balance á Íslandi. Verðlaun í sveitakeppni samanstóðu af sælgæti, prótínpillum og ávísunum á pizzamáltíðir fyrir sigurvegarana.
Úrslit í hlaupinu og í stigakeppninni er hægt að finna hér á hlaup.is undir Hlaup/Úrslit/Úrslit 2004.