Fjórða og síðasta víðavangshlaupið í hlauparöð Newton Running og Framfara var haldið við afar blaut skilyrði við Borgarspítalann þann 7. nóvember.
Eftir miklar rigningar undanfarinna daga var grasið afar blautt og vel mýrlent á köflum. Það dró þó ekki úr gleðinni heldur mættu nánast allir fastagestir hlauparaðarinnar í ár með bros á vör.
Úrslit úr stigakeppninni eru þannig að Sæmundur Ólafsson úr ÍR vann sinn fyrsta sigur eftir harða baráttu við Snorra Sigurðsson. Aníta Hinriksdóttir hélt uppteknum hætti og sigraði kvennamegin með fullt hús stiga, og það í sjötta sinn í röð.
Í yngri flokkum var að sjá ný andlit sem fyrr, þar sigruðu Sölvi Stefánsson og Sigríður Steingrímsdóttir. Sú síðarnefnda tilheyrir afar skemmtilegum hlaupahópi sem nefnist Surtlur sem halda vonandi að láta að sér kveða í framtíðinni.
Þátttakan í ár var með besta móti, alls tóku 51 hlaupari þátt sem er á pari við metárin 2011 og 2012, sem er gleðilegt eftir tvö afar mögur ár. Enn og aftur er rétt að leggja áherslu á að allir geta tekið þátt í víðavangshlaupum, sá misskilningur er afar algengur að þau séu fyrst og fremst ætluð fyrir okkar bestu hlaupara.
Framfarir og Newton Running þakka þátttakendum kærlega fyrir þátttökuna og hlakka til að sjá enn fleiri hlaupara á næsta ári!
Verðlaunaafhending verður auglýst síðar á Facebook-síðu Framfara: https://www.facebook.com/Framfarir-hollvinaf%C3%A9lag-millivegalengda-og-langhlaupara-151380478284105
Eins er rétt að benda á að Newton Running er með talsvert af myndum úr síðustu hlaupunum tveimur á sinni síðu: https://www.facebook.com/Newton-Running-Iceland-249241745225171/