Gullspretturinn er utanvegahlaup ársins 2018. Á verðlaunaafhendingu sem fram fór fyrir viku ræddi HlaupTV við forsvarsmann hlaupsins.
Gríma Guðmundsdóttir forsvarsmaður Gullsprettsins segir að hlaupið hafi verið hugmynd sem kom upp fyrir fimmtán árum í tengslum við listahátíð á svæðinu. Síðan hafi hlaupið stækkað og þróast, undanfarin ár hafi þak verið sett á fjölda þátttakenda sem nú miðast við 300. Þakið var sett á bæði til að vernda umhverfið en einnig til að halda utan um þann skemmtilega anda sem er í kringum viðburðinn.
Töluvert er lagt upp úr umgjörðinni að sögn Grímu, boðið sé upp á rúgbrauð sem bakað er í hverum á svæðinu sem og reyktan silung. Þá fá allir frítt í hinn stórglæsilega baðstað Fontana.
Vildi leyfa öðrum að prófa
Gullspretturinn er ekki hefðbundið utanvegahlaup eins og þátttakendur þekkja en hlauparar þurfa m.a. að vaða ofan í Laugarvatn. „Mér fannst það svo skemmtilegt þegar ég prófaði það fyrst að ég vildi endilega leyfa öðrum að prófa."
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að taka þátt í Gullsprettinum í ár og reyna sig í öðruvísi utanvegahlaupi. Viðtalið má sjá í fullri lengd í spilaranum hér að neðan.