Hlaupasería FH og Bose er götuhlaup ársins 2018. Á verðlaunaafhendingu sem fram fór fyrir viku ræddi HlaupTV við forsvarsmann hlaupsins.
Hörður J.Halldórsson frá Hlaupaseríu FH og Bose segir að þátttakendum hafi fjölgað um 60% í fyrra og í ár stefni í aðra eins fjölgun. Til að mynda hafi um 500 verið skráðir í fyrsta hlaupið í ár sem er metþátttaka í einu hlaupi.
Betri umgjörð lykilatriði
Aðspurður hverju hann þakki þessa miklu fjölgun svarar Hörður að betri umgjörð spili þar stórt hlutverk sem og reynsla hlaupahaldara en Hlaupasería FH hefur verið haldin frá 2011. „Öll umgjörð, brautarmerkingar, hérar, frítt í sund eftir hlaup og lítið Expo fyrir hvert hlaup eru allt þættir sem spila inn í. Þá má einnig nefna aðkomu okkar frábæra styrktaraðila Origo."
Nú er svo komið að hugsanlega þarf að breyta hlaupaleiðinni vegna fjölda þátttakenda. Hörður segir það mál vera í skoðun, hugsanlega verði brautinni breytt aðeins til að koma í veg fyrir að hlauparar mætist á ákveðnum köflum.
Hlaup.is vill óska FH-ingum til hamingju með útnefninguna í ár og hvetur alla til að kíkja í Hafnarfjörðinn og taka þátt í þeim tveimur hlaupum sem eftir eru á yfirstandandi vetri. Viðtalið í fullri lengd má sjá í spilaranum hér að neðan.