Viðtöl við langhlaupara ársins, Arnar og Elísabetu

birt 20. febrúar 2019

HlaupTV ræddi við langhlaupara ársins 2018, þau Arnar Pétursson og Elísabetu Margeirsdóttur eftir verðlaunaafhendinguna sem fram fór um síðustu helgi. Viðtölin í fullri lengd má sjá í spilurunum hér að neðan.

Ekkert brjálæðislegt markmið í deiglunni hjá Elísabetu

Í viðtalinu við Elísabetu lýsir hún aðdragandanum að 400 km hlaupinu í Gobe eyðimörkinni og hvernig hún var alls ekki spennt fyrir hugmyndinni til að byrja með. Að sjálfsögðu er margt forvitnilegt við þetta afrek Elísabetar en hún svaf að eigin sögn ekkert fyrstu 24 tíma hlaupsins né síðustu 24 tímana. Þetta gerði hún án þess að kynna sér áhrif slíkrar vöku né gera sérstakar áætlanir um svefn í hlaupinu.

Aðspurð hvort álíka brjáluð markmið séu í deiglunni á árinu segir hún að svo sé ekki en hún útiloki hinsvegar ekkert. Framundan sé HM í utanvegahlaupum í júní og svo 170 km UTMB í ágúst.


Viðtal við Elísabetu Margeirsdóttir, Langhlaupara ársins 2018 í kvennaflokki.

Arnar búinn að vera fjóra mánuði í háfjallaæfingabúðum

Í viðtalinu við Arnar kom fram að undanfarið hálft ár hefur hann dvalið í um fjóra mánuði í háfjallaæfingabúðum í Bandaríkjunum og Kenýu. Hann hafi einfaldlega ákveðið að gefa allt sitt í hlaupinn eftir að hafa lokið námi síðasta sumar. Æfingabúðirnar séu liður í því að koma sem best undirbúinn undir hálfmaraþon í Haag 10. mars og maraþon í Rotterdam 7. apríl.

Aðspurður hvernig líkaminn sé að bregðast við háfjallaloftinu og stífum æfingum segir Arnar hann sé meiðslalaus og mjög bjartsýnn á framhaldið. Miðað við æfingar sé ekki óraunhæft að stefna á 66 mínútur í hálfmaraþoninu í Haag.

Miðað við hljóðið og metnaðinn í Arnar er ljóst að hann stefnir að því að slá Kára Steini Karlssyni við á næstunni og hrifsa af honum Íslandsmetið í maraþonhlaupi. Arnar játar því og segir að það sé langtímamarkmiðið. En hinsvegar þurfi alltaf að setja sér markmið út frá því hvernig æfingar gangi hverju sinni.


Viðtal við Arnar Pétursson, Langhlaupara ársins 2018 í karlaflokki.