Viðurkenningar á Uppskerukvöldi Framfara

birt 10. janúar 2008

Á Uppskerukvöldi Framfara (sjá myndir í myndasafni) voru að venju veittar viðurkenningar og styrkir til hlaupara og verðlaun fyrir stigakeppni í Framfarahlaupunum. Áður en það var gert héldu Halldóra Brynjólfsdóttir og Þórarinn Sveinsson frá Rannsóknarstofu í Hreyfivísindum við Háskóla Íslands erindi um nýtt hlaupapróf, sjá aðra frétt.

Ólafur Margeirsson gjaldkera Framfara kynnti stöðu félagsins og kom fram að í sjóði  Framfara er nú um 1 milljón og stefnt væri að því að koma höfuðstólnum upp í 10 milljónir, svo hægt væri að veita góða styrki á hverju ári. Töluverður hópur af fólki eru styrktarmeðlimir og greiða frá 300 kr á mánuði inn í félagið. Ef þið hafið áhuga á að styrkja félagið, þá hafið samband við Ólaf í tölvupósti olafurmarg@internet.is.

Úrslit Framfarahlaupanna urðu sem hér segir í karla- og kvennaflokki:

  • Björn Margeirsson (1. sæti), Þorbergur Ingi Jónsson (2. sæti) og Snorri Sigurðsson (3. sæti).
  • Íris Anna Skúladóttir (1. sæti), Aníta Hinriksdóttir (2. sæti) og Urður Bergsdóttir (3. sæti).

Eftirfarandi hlauparar fengu viðurkenningar:

Hlaupari ársins í karlaflokki: Kári Steinn Karlsson
Í fyrsta sæti á afrekaskrá ársins í öllum vegalengdum frá 1500 m upp í 10000 m. Setti Íslandsmet í 3000 m hlaupi innanhúss 8:10:94 mín.
Verðlaun m.a. 40 þús kr. frá Framförum.

Hlaupari ársins í kvennaflokki: Fríða Rún Þórðardóttir
Í fremstu röð í öllum greinum frá 1500 upp í 10000 m. Vann til gullverðlauna í 10000 m hlaupi á Smáþjóðaleikunum á 36:23:79 mín. og bronsverðlauna í 5000 m hlaupi.
Verðlaun m.a. 40 þús kr. frá Framförum.

Skokkari ársins: Sigurbjörg Eðvarðsdóttir
Náði mjög góðum árangri í maraþonhlaupi 49 ára, 3:11:25 klst. í Boston 2007 og bætt gott met í 45 ára flokki um 7 mínútur.

Efnilegasti unglingur: Stefanía Valdimarsdóttir
Stefanía er 14 ára og bætti árangur sinn í 800 m úr 2:25 í 2:16 og gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari fullorðinna í 800 m og sigraði í sömu grein í Bikarkeppni FRÍ.

Mestu framfarir: Kári Steinn Karlsson
Árangur Kára Steins 2006 var góður en hann bætti þann árangur verulega; 3000 m utanhúss úr 8:30 í 8:16, í 5000 úr 14:30 í 14:20, í 10000 úr 31:00 í 30:30. Árangur hans 2006 var góður en Kári Steinn bætti þann árangur verulega.

Skokkhópur ársins: Frískir Flóamenn
Skokkhópurinn Frískir Flóamenn hefur starfað lengi og hefur starfið vaxið á síðustu árum og er hann í dag einn öflugasti hópurinn utan höfuðborgarsvæðisins. Hópurinn hefur vakið athygli fyrir gott starf að Laugavegshlaupinu.

Eftirfarandi hlauparar fengu úthlutað úr styrktarsjóði Framfara:

Styrkveitingar, hvor að upphæð 20þús, Íris Anna Skúladóttir og Árni Rúnar Hrólfsson.

Hlauparar athugið að hægt er að sækja um styrk til Framfara á hverju ári.