Yfirlýsing frá framkvæmdaaðilum Brúarhlaups Selfoss 2005

birt 07. september 2005

Eftir að athugasemdir og ábendingar um vafa á að hlaupaleiðin í 1/2 maraþoni í Brúarhlaupi Selfoss hafi verið rétt, hafa framkvæmdaaðilar hlaupsins látið fara fram mælingu á hlaupaleiðinni. Einnig könnun á því hvort eitthvað hafi verið átt við merkingar þær sem búið var að merkja fyrir hlaupadag.

Niðurstaða þeirra könnunar hefur leitt í ljós að snúningspunktur á Eyrarbakkavegi var ekki réttur. Tvö merki eru fyrir snúningspunkt á veginum og hefur vitlaust merki verið notað þannig að hlaupaleiðin lengdist um 300 metra. Hvernig stendur á því að ekki var rétt merki notað viljum við ekki vera að skella skuld á neinn nema okkur, framkvæmdaaðilana sjálfa. Það verður okkar mál að athuga hver ástæðan fyrir því var.

Við hörmum að sjálfsögðu að þetta skuli hafa komið fyrir og biðjum alla þátttakendur í 1/2 maraþoni INNILEGRAR afsökunar á þessu og munum tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur.

Jafnframt var 10 km leiðin athuguð og kom í ljós að hún er rétt.

Eins og áður hefur komið fram verður unnið að breytingu á hlaupaleiðinni í vetur sem hefur verið óbreytt í 15 ár og reynt að búa til stærri hring og minnka hlaup á sömu leiðinni aftur. Eða færa leiðina á umferðarminni götur og vegi.

Með vinsemd og virðingu
f.h Brúarhlaups Selfoss
Helgi Sigurður Haraldsson