birt 03. október 2016

„The Big Five" - Entabeni Game Reserve  í Suður- Afríku, 25. júní 2016.Vaaá! Hvar á maður eiginlega að byrja?! Byrjuninni eða einhvers staðar annars staðar? Það er hægt að byrja út um allt. Sama hvað maður hugsar um, þetta var allt frábært. Frá upphafi til enda. Eiginlega erfitt að ákveða hvar skal stinga niður upphafi. En - þá er kannski best að byrja á fyrsta upphafinu. Fyrsta upphafið fæddist í flugvél á leið heim frá Tokyo í fyrra. Tokyo-maraþonið, frábær upplifun. Maraþon í nýrri heimsálfu. Það var mín önnur heimsálfa til að hlaupa maraþon í. Alveg magnað - og fyrir lágu plön um að hlaupa í Chicago um haustið og þá yrði það þriðja heimsálfan til að hlaupa í. Jahá! Þriðja heimsálfan - af hvað mörgum?  Jú þær eru víst sjö. Athyglisvert - hugmynd að fæðast?

Gunnar tekur selfie með infæddum á einni drykkjarstöðinni.Þegar heim var komið var strax haft samband við Mr. Google og hann spurður um það hvaða maraþon væru hlaupin í Afríku. Þau eru býsna mörg og hvert öðru meira spennandi. Eftir smá skoðun og umhugsun fannst mér „The Big Five" í Suður-Afríku vera það hlaup sem mér þótti áhugaverðast. Þar var því lofað að hlauparar myndu hlaupa á meðal villidýra á gresjunum og eftir því sem ég gat best séð hafði þetta hlaup verið haldið oftar en tíu sinnum og aldrei verið vandamál með horfna hlaupara úr brautinni. Þannig að öryggismál virtust vera í góðu lagi. Samt smá skrítið að sjá að startið færi eftir staðsetningu dýranna og gæti dregist ef þau væru mikið að þvælast fyrir. Enda kom í ljós síðar að margt getur gerst í brautinni!!?Hugmyndin fæðistEn hvað um það. Hugmyndin var fædd og hún borin undir hlaupafélagann, Unnar Stein Hjaltason. Eftir afar fáar sekúndur til umhugsunar var hann búinn að kokgleypa hugmyndina og hann kominn enn lengra í framtíðarplönum um næstu heimsálfur og tímasetningar um hvenær þær skyldu kláraðar. Það mál er enn í vinnslu.Danska fyrirtækið Albatros sér um alla skipulagningu og sölu á sætum í hlaupið. Það er óhætt að mæla með þeim alla leið. Mikil fagmennska og vel að öllu staðið. Þeir eru með fleiri spennandi hlaup á sínum vegum og alveg klárt mál að við félagarnir eigum eftir að prófa fleiri hlaup sem þeir bjóða upp á.

En miðvikudaginn 22. júní hófst ferðalagið. Við félagarnir ásamt okkar betri helmingum, Þóru Helgadóttur og Unni Þorláksdóttur, fórum af stað frá Íslandi uppúr hádegi með flugi til Köben, þaðan til Parísar og loks til Jóhannesarborgar. Lentum uppúr kl. 10 morguninn eftir og héldum af stað frá flugvellinum með rútu um hádegið. Þaðan var um fjögurra tíma akstur á áfangastað. Allt gekk þetta eins og í sögu en því verður ekki neitað að nokkur þreyta var kominn í mannskapinn þegar á leiðarenda var komið og gott var að leggjast á koddann um kvöldið.

Daginn eftir var ræst eldsnemma þar sem til stóð að fara í kynnisferð um brautina. Við dvöldum í búðum sem voru rétt utan við sjálfan garðinn þannig að við þurftum að fara í bílum á þann stað þar sem startið átti að hefjast. Með því fengum við í raun um klukkustundar „game drive" þar sem afar margt bar fyrir augun og við sáum fjölmörg þeirra dýra sem við Íslendingar sjáum alla jafna ekki nema á sjónvarpsskjánum. Það var í sjálfu sér mjög skemmtilegt en engu að síður töluvert viðbótarálag þar sem þessi ökutúr var endurtekinn daginn eftir til að komast í startið. Á leiðinni keyrðum við af neðri sléttunni og uppá efri sléttuna sem felur í sér akstur upp mikið gil sem er um 3 km að lengd og með yfir 300 metra hæðarbreytingu. Já takk! Þetta var partur af brautinni!Af nógu er að taka fyrir dýralifsunnendur í hlaupinu.

Heilt og hálft maraþon næstum á sömu brautinniOkkur fannst við nánast liggja á bakinu á leiðinni upp og hanga í beltunum á leiðinni niður. Enda var keyrt í lága drifinu í fyrsta gír í báðar áttir. Og svo var gert grín. Að okkur. Af bílstjórunum. Þetta eigið þið eftir að hlaupa upp og niður á morgun! Jamm. Frábært. Mjög spennt! Já, eða þannig. Þetta var dálítið mikill raunveruleiki. En útsýnið maður! Geggjað!Þegar í búðirnar var komið þaðan sem starta átti, var öllu liðinu sem búið var að safna frá hinum mismunandi gististöðum komið fyrir í bílum. Þeir sem voru að fara heilt maraþon voru keyrðir alla brautina og þeir sem voru að fara hálft maraþon einnig. Þær Þóra og Unnur komu með okkur Unnari í bíl, þar sem í raun má segja að sama brautin sé hlaupin en þeir sem áttu að fara heilt maraþon taka nokkra útúrdúra frá aðalbrautinni. Því sáu þær sína braut og fengu að auki útsýnisbíltúr um lykkjurnar sem þeir fóru sem hlupu heilt maraþon. Þetta er mjög sniðug aðferð við að leggja brautina því þeir sem fara hálft maraþon fá í raun að hlaupa alla markverðustu staðina en hlaupa ekki lykkjurnar sem heilmaraþonhlaupararnir hlaupa. Þannig að ef pör eða félagar vilja hlaupa þetta hlaup saman og annar aðilinn vill hlaup heilt og hinn hálft þá má segja að báðir hlaupararnir fá að upplifa nánast það sama - þar á meðal gilið upp og niður!

Leitað að ljónum í brautarskoðunÞað var tekið fram strax í upphafi ferðar að ekki yrði stoppað vegna myndatöku. Þannig að þótt við myndum sjá áhugaverð myndefni eins og nashyrninga, flóðhesta, fíla og jafnvel ljón þá yrði ekki stoppað. Það yrði nægur tími til þess síðar í ferðinni og nú væri bara verið að skoða brautina sjálfa og því yrði hún keyrð eins hratt og druslan drægi. Og það tók tvo og hálfan tíma - takk fyrir það! Innyflahristingur allan tímann og mjög gaman! Hrikalega gaman! Og þá tók við akstur heim. Einn klukkutíma í viðbót. Og aftur niður gilið. En það var gott að hugsa til þess að sennilega næði maður nú samt að leggja sig aðeins fyrir kvöldmatinn því sennilega yrðum við komin á áfangastað um tveimur tímum fyrir pastaveisluna. En nei. Okkar maður var ákveðinn í því að sýna okkur grænjöxlunum hvernig lífið í Afríku væri. Hann ákvað því að fara í „game drive" með okkur og fór að leita að ljónum. Jamm, ljónum. Daginn fyrir maraþon. Jú, jú, aðeins öðruvísi. Og af stað héldum við. Fyrst hingað og síðan þangað. Og svo hinu megin og loks annars staðar. Við sáum fullt af alls konar. Meira að segja ljónaspor. En engin ljón. En það var gaman, mjög gaman! En vá hvað maður var orðinn þreyttur þegar við komumst á áfangastað  - og fimm mínútur í matinn!? Leggja sig - hvað er það aftur?3-4 gráður að morgni hlaupadagsVá! Þetta var að byrja. Upp kl. rúmlega 5 (nb. kl. 3 að íslenskum tíma). Morgunmatur kl. 6 og af stað kl. 7. Brrr, það var ískalt og þoka yfir öllu. Hitastig um 3-4 gráður og við sátum í opnum bílum. Akkúrat! Þess vegna er sagt að keppendur eigi að hafa með sér hlý föt. Það er nefnilega kalt á morgnana og kvöldin í Suður-Afríku á þessum tíma. Og það er engin lygi. Það er kalt. Að sitja í opnum bíl á milli kl. 7-8 að morgni í þoku í 3-4 gráðu hita er kalt. Það er skítkalt! En að hugsa sér, ég myndi vilja endurtaka þetta strax á morgun! Að sjá allt í einu gný eða sebrahest eða jafnvel gíraffa birtast í ljóskeilu bílsins er geggjað! Keyra upp gilið stóra í svartaþoku en sjá allt einu til sólar þegar upp er komið og sjá þokuna leysast upp er ólýsanlegt! Koma upp á hásléttuna og sjá hjarðir af antilópum, sebrahestum og öðrum dýrum merkurinnar og vita að eftir nokkrar mínútur verði maður að hlaupa á meðal þeirra er eitthvað sem er í raun ekki hægt að lýsa!Á áfangastað var spenna og gleði. Fólk að gera sig klárt, smyrja og plástra og allt það sem fylgir. Flestir voru vel klæddir og fóru ekki úr hlífðarfötum fyrr en um hálftíma fyrir startið. Það var býsna svalt en það jákvæða er að hitinn hækkar nokkuð skarpt uppúr kl. 8 þannig að aðstæður voru orðnar bærilegar. En spáið í það, hitinn fór aldrei upp fyrir 19-20 gráður. Þannig að þetta vorið þurfti að fara til Afríku til að komast í maraþonhlaup þar sem hitinn fór ekki langt upp fyrir 20 gráðurnar!

Dýralífið í S-Afríku setti sitt mark á hlaupið. Rétt áður en startað var í heilmaraþonið voru allir kallaðir að startinu. Áríðandi upplýsingar! Já, já, býsna áríðandi. Góðar fréttir og ekki eins góðar fréttir. Góðu fréttirnar voru þær að ljónynja hafði drepið bráð kvöldið áður. Af hverju var það gott. Jú, þá var auðveldara fyrir „Rangerana" að fylgjast með ljónunum alla nóttina. Því það er það sem þeir gera. Þeir reyna að vera búnir að staðsetja öll ljónin daginn fyrir keppnina þannig að unnt sé að fylgjast með ferðum þeirra um nóttina og vita ca. (já akkúrat - cirka?!) hvar þau muni vera um morguninn á hlaupadegi. Ok, fínt!Ljón lét finna fyrir sér á brautinniVondu fréttirnar? „Tja, sko, hún drap bráðina á hlaupabrautinni". Já, einmitt! Frábært! Fáum við þá að sjá ljón éta bráðina sína um leið og við hlaupum framhjá? Má taka myndir? „Ja, eiginlega ekki. Sko, við þurftum að breyta hlaupaleiðinni í morgun. Hringurinn niðri á sléttunni var minnkaður um 4 km. „Þannig að þið hlaupið ekkert mjög nálægt þeim- ahem, er það ekki bara fínt? En það sem við gerðum í staðinn er að þið maraþonhlaupararnir þurfið aðeins að breyta um leið - í stað þess að hlaupa ykkar leið þá beygið þið eftir ca. 3 km inná leið hálfmaraþonhlauparanna og hlaupið 2 km inná þann legg. Þá hittið þið hann John og hann snýr ykkur við. Þið hlaupið sem leið liggur aftur til baka og inná brautina ykkar. En þetta þýðir að það verður ekkert að marka kílómetramerkingar fyrr en þið komið á kílómetramerkingu við 25. km. Og fyrir ykkur hálfmaraþonhlauparana - ekki láta það rugla ykkur í rýminu þótt þið mætið allt í einu hlaupurum. Þið eigið alls ekki að snúa við og elta þá heldur halda áfram. Þetta eru nefnilega heilmaraþonhlaupararnir."

Jamm og jæja. Þetta eru öðruvísi leiðbeiningar fyrir start en maður hefur áður fengið - svo sannarlega! En ekkert mál, það var búið að vara við að villidýrin gætu haft áhrif. En já, einmitt - eitt í viðbót. „Sko, þar sem við vitum hvar ljónin eru þá er betra að fylgjast með þeim. En til öryggis höfum við staðsett „Rangera" með styttra millibili en venjulega niðri á sléttunni. Það sést reyndar ekki alltaf á milli þeirra þannig að ef eitthvað óvænt gerist og það birtist dýr og þið sjáið ekki „Ranger" - alls ekki hlaupa. Standið grafkyrr og horfið á dýrið og kallið á hjálp. Þá verða þeir snöggir að bregðast við og koma ykkur til hjálpar". Aheemmm? Hóst! Hvað er maðurinn eiginlega að segja? Jæja, hingað er maður kominn og þetta er að byrja og þeir virðast hafa fullt kontról á öllu. Eða er það ekki?Mikil eftirvænting í startinuSpennan var mikil rétt fyrir start, eins og venjulega. En samt öðruvísi. Eftirvæntingin var öðruvísi. Í stað þess að fremstu hlauparar reikspóluðu af stað liðaðist hópurinn í rólegheitum af stað. Það var augljóst að þarna var fólk komið til að njóta þess að vera þarna. Upplifa náttúruna. Upplifa stundina. Við Unnar byrjuðum mjög aftarlega. Fundum það samt fljótt að við þurftum að færa okkur aðeins framar því margir sem voru á undan okkur hlupu mjög hægt. Við höfðum sett okkur tvö markmið fyrir hlaupið. Annað var auðvitað það að geta klárað. Og hitt var að við vildum gjarnan reyna að vera fyrir framan miðju.Fyrsti km var þægilegur. Nokkuð brött brekka með 44 metra droppi. Það var fínt að geta byrjað á léttu skokki þarna niður og við tókum því frekar rólega. Þá tóku við tveir km með samtals rúmlega 120 metra hækkun þannig að þarna gengu flestir. Við lok þriðja km beygðum við inná hálfmaraþonleiðina og fengum 25 metra hækkun til viðbótar. Þegar við fórum að nálgast John fórum við að mæta samhlaupurum okkar aftur. Ég taldi. Við Unnar vorum í 48. og 49. sæti. Það var í góðu lagi. Við vorum á áætlun og rétt fyrir framan miðju af öllum hlaupurunum. Við hlupum aftur til baka inná maraþonbrautina og fengum þá léttan km með 25 metra lækkun. Þá tók við 8 km kafli uppá hæsta punkt í hlaupinu með samtals tæplega 200 metra hækkun. Á þessum kafla vorum við að hlaupa annars vegar á gresjunni og hins vegar meðfram lágu fjalli og upp á það. Þarna vorum við greinilega komnir á sama hraða og margir aðrir því á þessum kafla vorum við ýmist að fara fram úr hlaupurum eða þeir sömu að fara fram úr okkur. Allt fór það eftir því hvar og hvenær hlauparar settu í lága gírinn og gengu á brattann. Á þessari leið sáum við alls kyns kvikindi á gresjunni í mestu makindum að úða í sig grasmeti og virtust þau kæra sig kollótt um þetta uppátæki mannanna að vera að þvælast þarna á tveimur jafnfljótum.

Mikilfenglegt landslagVið komumst að því seinna að það er girt fyrir að ljónin komist uppá efri sléttuna og því þekkja þau dýr sem þar eru ekki þá hættu sem af þeim stafar og virtust þau almennt ekki kippa sér upp við það þótt fólk væri nálægt þeim, hvort sem var hlaupandi eða í bílum. Því komumst við oft ansi nærri þeim. Mér fannst samt ágætt að við rákumst ekki nashyrningana sem við skoðuðum á þessu svæði á deginum á undan!Þegar upp á fjallið var komið stóðst ég ekki mátið að taka fram myndavélina og taka nokkrar myndir. Ég sá þarna niður á sléttuna og sá til fjallsins sem er fyrir ofan búðirnar okkar. Uppá það fjall er hægt að fara með þyrlu og slá golfkúlu niður á flöt sem lítur út eins og Afríka. Þetta þykir golfurum merkileg hola og stæra sig af því að þetta sé flottasta 19. hola sem til er. Hún er víst par 3 fyrir þá sem hafa áhuga á slíkum upplýsingum. Þar sem ég var aðeins á undan hlaupafélaganum upp þá náði ég að smella nokkrum myndum af honum við komuna. Þar sem æfingatímabilið hjá honum gekk brösuglega var hann feginn því að fá nú loksins að hlaupa niður. Og þar sem ég var búinn að fá að hvíla mig gerði ég eins og sönnum félaga sæmir og rak hann áfram án þess að hann fengi nokkra hvíld! Til hvers eru vinir annars?Að hlaupa niður. Er það ekki bara frekar létt? Kannski til að byrja með. En það má nú öllu ofgera! Þið munið gilið? Ég man a.m.k. vel eftir því. Tvisvar. En þetta byrjaði nú samt bara hóflega. Fyrst fjórir km með samtals um 150 metra lækkun.Gunnar ásamt hlaupafélaga sínum, Unnari Steini Hjaltasyni.

Á þessari leið komum við á drykkjarstöð þar sem býsna stór hópur fólks var að fylgjast með. Þetta voru aðstandendur hlaupara sem voru ferjaðir á þennan stað. Þarna var stuð og stemming og mikið gaman. Við í góðum gír og brostum og spjölluðum. Fengum reyndar þá athugasemd að það væri nú ekki alveg víst að við yrðum svona brosmildir þegar við kæmum þarna næst - eftir að vera búnir að fara niður og upp gilið og framhjá ljónunum! Já, já, alltaf gott að fá hvatningarorð!En áfram, nú tók við 1 km með um 60 metra droppi. Þegar við vorum ca. hálfnaðir með þennan km mættum við Unni sem var á leiðinni upp. Hún var skælbrosandi og virtist í góðu standi og næstum búin með gilið. Þegar við kláruðum þennan km var komið að drykkjarstöð fyrir mesta brattann og þar hitti ég enga aðra en ástkæra eiginkonuna. Það kallaði sko á selfies og kossa! Alveg geggjað! Þóra var fínu standi og hélt varla vatni yfir því hvað hefði verið gaman á sumum drykkjarstöðvunum niðri á sléttunni. Hún hefði meira að segja fengið af sér mynd með flóðhesta í baksýn. Maður fær ekki svoleiðis í New York eða París! Eftir einn koss í viðbót var ekkert annað að gera en að skella sér niður á eftir Unnari sem var löngu kominn úr augsýn - enda droppið myndarlegt!

Innfæddir settu skemmtilegan svip á hlaupið að sögn Gunnars.Stemming á meðal innfæddraÁ næstu tveimur km var hvorki meira né minna en rétt tæplega 300 metra lækkun. Þarna voru greinilega margir í vandræðum og fóru mjög hægt niður. Ég hef oftast átt frekar auðvelt með niðurhlaup og fór því framhjá mörgum. Það hafði Unnar greinilega líka gert því ég náði honum ekki aftur fyrr en við vorum komnir langleiðina niður.Þegar við komum niður þá var þar drykkjarstöð með miklu stuði. Margar blökkukonur sem sungu og trölluðu og helst langaði mann bara til að vera þarna áfram og njóta skemmtilegheitanna. En þar sem það var ekki í boði og við vissum að við myndum koma þarna aftur í bakaleiðinni á leiðinni upp héldum við áfram.

Vopnaðir "lífverðir" gættu hlaupara 
Áfram, áfram, inn í ljónalandið. Þarna var skrítið að hlaupa. Við tóku 3-4 km með mjög gljúpum og erfiðum sandi. Þarna komumst við ekki hratt yfir frekar en aðrir. Við Unnar vorum þarna búnir að ná nokkrum hópi fólks og aftur tók við stöðugur framúrakstur fram og til baka. Við framhjá einhverjum og þeir sömu aftur fram úr okkur. Allt fór þetta eftir því hvenær skipt var í lága gírinn og einhver spotti genginn. Já og myndatökur maður! Það þurfti að taka myndir. Á eftir að skoða nánar hvort það glitti einhvers staðar í glyrnur inni í skógarþykkninu. Þarna voru nefnilega einhvers staðar ljón. Ljón, ljón, ljón. Ég hugsaði helling um ljón á þessari leið. Fannst gott þegar ég sá „Rangera" framundan en fannst hálf skrítið að hlaupa framhjá þeim og sjá þá engan „Ranger" í nokkurn tíma. Hvað ef? Jú, muna - þetta var víst í 16. sinn sem hlaupið hefur verið haldið og ennþá enginn étinn. Ennþá? Er ekki sagt að einhvern tímann verði allt fyrst? Úff, það var gott að komast út úr skógarþykkninu og sjá aðeins frá sér. En, vá maður hvað þetta var spennandi og skrýtið!

Brosað í framandi aðstæðum.Þarna niðri á sléttunni hlupum við fram á hressustu drykkjarstöðina í öllu hlaupinu. Karlar og konur stóðu sitt hvoru megin við brautina og sungu og dönsuðu. Þarna voru sko teknar myndir og vídeó. Þetta vídeó er nú þegar orðið mitt uppáhalds og ég ætla að horfa á það oft í ellinni. Það verða örugglega allir á elliheimilinu búnir að fá ógeð á bæði vídeóinu og mér þegar yfir lýkur!En, nei sko! Allt í einu var bara 25. km mættur og aftur farið að marka kílómetramerkingar. Nú var farið að styttast í drykkjarstöðina við brekkurótina og við heyrðum sönginn og trallið. Þegar þangað var komið vorum við nokkuð stór hópur sem komum inn á svipuðum tíma. Við Unnar stoppuðum stutt og héldum á brattann. Samferðafélaga okkar síðustu 4-5 km sáum við ekki aftur fyrr en í markinu.Brekkan upp. Hún var brött. Mjög brött. Fyrstu tveir km með um 300 metra hækkun. Þarna náðum við mjög mörgum hálfmaraþonhlaupurum og nokkrum maraþonhlaupurum. Við gengum alla leiðina eins og aðrir. Þarna náðum við einum sem hafði verið með fremstu mönnum eftir um 13 km. Hann hafði greinilega steikt á sér læri og kálfa á niðurleiðinni. Hann varð að bakka upp og fór mjög hægt. Og stundi mikið. Það er sko ekkert grín að lenda í þessu. En áfram héldum við Unnar. Kláruðum síðasta km í gilinu sem er með um 60 metra hækkun og vorum þá aftur komnir á drykkjarstöðina þar sem aðstandendur hlaupara höfðu sína bækistöð. Hann var býsna hissa gaurinn sem sagði að upplitið á okkur yrði annað þegar við myndum hittast næst. Það var það nefnilega hreint ekki. Þarna voru bara 12 km eftir og það erfiðasta búið og ekki hægt annað en að brosa hringinn - og rúmlega það!

Hvattir áfram að hjörð sebrahestaÞegar við héldum frá þessari drykkjarstöð fór ég að reikna. Tólf km eftir. Akkúrat. Skyldum við geta hlaupið á undir 5 klst? Það yrði tæpt. Við þyrftum að halda vel á spilunum og passa að halda alltaf áfram. Ég reiknaði út á hvaða hraða við mættum vera með hvern km og lét félagann vita á hverjum km hvort við hefðum tapað sekúndum eða grætt. Til að byrja með vorum við að tapa. Enda fengum við á þessum kafla 3 km með samtals um 85 metra hækkun. Hmm, ekki nógu gott en samt ekki mikið á eftir áætlun. En spáið í það - þarna birtist allt í einu hjörð af sebrahestum sem hlupu um stund við hliðina á okkur. Alveg geggjað! Ég hélt að þeir ætluðu að hlaupa í veg fyrir okkur en þeir beygðu frá á síðustu stundu. Ég gat síðan fylgst með þeim í langan tíma þar sem þeir fjarlægðust í rólegheitunum. Þóra sagði mér eftir hlaupið að á svipuðum slóðum hefði hún ásamt öðrum hlaupara þurft að stoppa um stund þegar stærðarinnar hjörð af gnýjum eða antilópum varð nauðsynlega að hlaupa yfir brautina. Hversu geggjað getur það verið!?

Fjögur fræknu í startinu fyrir hlaupið mikla.En áfram með hlaupið. Næstu 3 km voru með um 80 metra droppi þannig að nú fórum við að græða sekúndur! Og mér reiknaðist til að þetta gæti tekist. Ég vissi þó af einni brekku til viðbótar og nú var bara spurningin um hver gönguhraðinn yrði þar upp. En ég vissi líka að síðustu 2 og hálfi kílómeterinn voru niður í móti. Fertugasti km var með 20 metra hækkun. Við vorum 7 og hálfa mínútu að ganga og skokka þar upp. En þá var þetta líka komið. Allt niður í móti eftir það og við sáum að við höfðum þetta í hendi okkar. Það sem eftir var þá var droppið 80-90 metrar þannig að við gátum leyft okkur að jogga þetta í rólegheitunum.Markmiðunum náðÞegar í mark var komið áttum við orðið 5 mínútur inni í bankanum þannig að við kláruðum á rétt innan við 4 tímum og 55 mínútum. Aldeilis frábært! Báðum markmiðum náð. Að klára hlaupið og lenda fyrir ofan miðju. Þegar upp var staðið þá enduðum við í 35. og 36. sæti af 128 hlaupurum sem kláruðu sem var aldeilis fínt!

Geggjað að geta sest niður í sólinni og fá dýrindis mat og bjór - já, og að sjálfsögðu rauðvín! Og verðlaunapeningurinn ekkert smá flottur! Heljarinnar fíll! Peningur til að eiga, peningur til geyma, peningur til að hafa um hálsinn í ellinni!-Þessu er eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum. Þetta þarf að upplifa.gá

P.s. Gunnar og Unnar hafa þegar sett stefnuna á Dubai í janúar, Ástralíu sumarið 2017 og Suðurskautið 2018 eða 2019.

Skoðaðu fleiri ferðasögur hlaupara á hlaup.is.