birt 16. október 2015

Í haust hyggst hlaup.is birta ferðasögur hlaupahópa sem margir hverjir eru á faraldsfæti um þessar mundir. Fulltrúi Hlaupahóps FH, Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, ríður á vaðið hér að neðan og skrifar um ferð hópsins í Þriggja landa maraþonið í Bodensee. Hlaup.is hvetur hlaupara til að sendafleiri ferðasögur og skemmtilegar myndir til birtingar hér á hlaup.is. Áhugasömum er bent á að hafa samband í gegnum netfangið torfi@hlaup.is.

Ferðasaga Hlaupahóps FH - Þriggja landa maraþonið 2015
Eftir margra mánaða undirbúning og stöðugar æfingar var loksins komið að ferð Hlaupahóps FH til Bregenz í Austurríki til að taka þátt í Þriggja landa maraþoninu. Bærinn Bregenz stendur við Bodensee-vatn stutt frá landamærunum að Þýskalandi og Sviss en í maraþoninu er hlaupið í þessum þremur löndum, byrjað í Lindau í Þýskalandi, svo farið til Austurríkis, þá til Sviss og endað á íþróttaleikvanginum í Bregenz í Austurríki.

Hluti hópsins í útsynisferð í fjallinu fyrir ofan Bregenz.Hópurinn sem fór utan taldi 65 einstaklinga og við flugum með Icelandair til Zürich eldsnemma að morgni 1. október. Tvær rútur biðu okkar á flugvellinum og fluttu okkur til Bregenz. Ferðin þangað tók samtals um tvær klukkustundir en þar sem flestir voru svangir fengum við bílstjórana til að stoppa á leiðinni svo hægt væri að kaupa sér eitthvað að borða.Þegar við komum á hótelið okkar, Best Western Hotel Weisses Kreuz, var allt klárt, búið að tékka okkur inn og við gátum farið beint inn á herbergi. Hótelið er frekar hátt skrifað á TripAdvisor og það sama má segja um veitingastaðinn þar. Flestir voru mjög ánægðir með hótelið enda fengu margir mun stærri herbergi en þeir höfðu búist við.

Hópurinn skiptist upp í smærri hópa og fólk nýtti það sem eftir var dagsins til að skoða miðbæinn og fara út að borða. Fljótlega kom í ljós að meginþorri hópsins hafði oftúlkað veðurspána og fólk var helst til fáklætt. Höfðu menn búist við nokkurs konar Mallorca-veðri en það var hins vegar svalt haustveður sem tók á móti okkur og ekki ofsögum sagt að fólki væri nokkuð brugðið. Þetta kallaði á verslununarferðir eins fljótt og auðið var.

Morgunverðarhlaðborðið var rosalega gott en það fengum við staðfest fyrsta morguninn þegar við þurstum niður í morgunmat, eins seint og við gátum. Austurríski yfirþjónninn var ekki alls kostar ánægður með seinaganginn og minnti okkur á að öllu yrði lokað kl. 10 og orðin „schnell, schnell" (fljótt, fljótt) vakti mikla kátínu í morgunverðarsalnum. Allt var hins vegar í góðu og allir fengu nóg að borða.

Ýmist í búðir eða útsýnisferðirHópurinn skiptist svo í tvær fylkingar, önnur tók lestina til Friedrichshafen til að fara í verslunarleiðangur meðan hin ákvað að fara með kláf upp í fjallið fyrir ofan Bregenz. Ekki nema tíu mínútna gangur er að kláfnum og álíka stutt að lestarstöðinni þannig að báðar leiðir voru einfaldar í framkvæmd. Ég ákvað að velja kláfinn og er því ekki til frásagnar um verslunarferðina að öðru leyti en því að mér skilst að fólk hafi komið vel klyfjað til baka.Reyndar voru nokkrir í þeirri ferð sem ákváðu að kíkja á Zeppelin-safnið í Friedrichshafen frekar en að versla og voru virkilega ánægðir með þá upplifun.Lindau eyja en þar er byrja hlauparar.

Yndislegt veður var þennan dag en svalt og ferðin upp fjallið tók ekki nema sex mínútur með kláfnum. Þaðan er glæsilegt útsýni yfir Bregenz, Lindau, Bodensee-vatn og að Ölpunum. Þarna var líka lítill dýragarður með þeim dýrum sem lifa villt í fjöllunum í kring.

Kláfahópurinn skiptist svo einnig upp í minni hópa og við ákváðum að fá okkur að borða við Bodense-vatn og taka síðan ferjuna til Lindau. Lindau insel eða Lindau-eyja, þar sem maraþonið hefst, er virkilega falleg eyja með fjölmörgum verslunum og kaffihúsum í sjarmerandi gömlum og þröngum götum. Það var mjög gott að kíkja þangað til að skoða aðstæður því hlaupið er ræst frá bryggjunni í Lindau-eyju. Lestarstöðin er einnig rétt við bryggjuna og því virkilega auðvelt að koma sér á staðinn hvort heldur með lest eða báti.

Jónsi og Áki voru í miklu stuði í hlaupinu eins og glögglega má sjá á myndinni.Eftir að hafa skoðað Lindau-eyju héldum við sem leið lá yfir brúna á fasta landið. Takmarkið var nefnilega að komast í H&M-verslunina sem við vissum af í Lindau. Þangað var nokkur gangur en gaman að labba þó svo að fegurðin væri ekki nærri eins mikil og á Lindau-eyjunni. Í H&M komust við og hófumst handa við að kraftversla. Við fengum okkur svo að borða á virkilega góðum crépes-veitingastað í verslunarmiðstöðinni og okkur var svo að lokum sópað út með restinni af ruslinu enda löngu búið að loka þegar við fórum loksins að búa okkur til heimferðar.Þá kom í ljós að við vorum allt of langt frá lestarstöðinni og strætóinn til Bregenz var hættur að ganga. Við fórum því inn á næsta hótel og fengum afgreiðslukonuna til að hringja fyrir okkur á stóran leigubíl. Það var auðsótt mál og heim komumst við fyrir litlar 5 evrur á mann.

Hlaupmessan minnti á hátíðina í Laugardalshöll
Laugardagurinn fór mest í rólegheit enda þurftu maraþonhlaupararnir að passa sig á að hvíla vel fyrir átök morgundagsins. Nokkur hópur byrjaði þó morguninn á 3-5 km skokki, svona rétt til að hressa sig við. Við dóluðum okkur á hlaupamessuna upp úr hádegi en hún var haldin í Festspielhaus-höllinni í Bregenz við hliðina á Casino Stadium-leikvanginum en höllin sú er nokkurskonar Harpa þeirra Bregenz-búa. Það var virkilega gott að vera á hóteli svona miðsvæðis og geta gengið nánast allt sem við þurftum að komast. Hlaupamessan minnti að mörgu leyti á hátíðina sem haldin er í Laugardalshöllinni fyrir Reykjavíkurmaraþon enda eru þessi hlaup ekki ósvipuð að stærð, Reykjavíkurmaraþon þó aðeins stærra.

Allt var mjög vel skipulagt á messunni og lítil sem engin bið. Hægt var að smakka ýmsa íþróttadrykki og orkustangir og kaupa allt milli himins og jarðar tengt hlaupum, margt á mjög góðu verði. Veðrið var frábært þennan dag og við náðum því í pastaréttinn sem í boði var og borðuðum hann úti í sólinni. Nýja þykka peysan mín var nú orðin alltof hlý enda loksins komið það veður sem hópurinn hafði búist við að yrði í ferðinni. En hvað um það, búandi á Íslandi þá vissum við að hlýju fötin sem við vorum búin að kaupa kæmu á endanum að góðum notum.Leikvangurinn og höllin eru niðri við Bodensee-vatn og það var yndislegt að ganga meðfram vatninu og hitta félaga úr hópnum nánast í hverju skrefi, stoppa og spjalla. Svo mikil gleði alls staðar. Ítalskur veitingastaður varð að sjálfsögðu fyrir valinu um kvöldið og pizzur og pastaréttir á öllum diskum.Guðrún og Siggi alsæl að hlaupi loknu.

Flestir fóru svo snemma að sofa nema kannski þeir sem voru í stuðningsliðinu enda höfðu þeir mikilvægu hlutverki að gegna í að útvega sambönd við bari og barþjóna og stað fyrir okkur til að djamma á sunnudagskvöldið eftir hlaup. Við vorum nefnilega búin að komast að því að þennan dag var einhver sérstakur hátíðisdagur í Austurríki og allt lokað.

Stóri dagurinn - hófst í hráslaga en endaði í sól
Þá var stóri dagurinn loksins runninn upp. Fólkið skilaði sér í morgunmatinn fyrir og um kl. 8 um morguninn. Hlaupið er ekki ræst fyrr en kl. 11.10 og því þurfti ekki að vakna fyrir allar aldir. Eftir að hafa spáð og spekúlerað í verðurspár síðustu fjórar vikur rann kaldur veruleikinn upp fyrir okkur, úti var rok og rigning, bara eins og það gerist verst á Íslandi. Klæðaburður var því það helsta sem vafðist fyrir fólki þennan morgun. Veðurspáin og heimamenn voru þó búin að segja okkur að það myndi stytta upp um hádegi og þótt það væri algerlega óhugsandi á þessari stundu þá völdu flestir að trúa því. Flestir fóru því í stuttbuxur og stuttermaboli eins og áður hafði verið ákveðið og skelltu sér í „ljótu peysurnar" yfir sig ásamt regnslá. „Ljótu peysurnar" hafa það hlutverk að skýla fólki fyrir kulda í startinu en svo getur fólk kastað þeim af sér hvar sem er því þær voru hvort sem er á leiðinni í Rauða krossinn. Þessum flíkum er svo safnað saman af mótshöldurum og þær gefnar til góðgerðarmála.

Hópurinn á leiðinni í rásmarkið á hlaupadag í vægast sagt hráslagalegu veðri sem þó átti eftir að batna mjög.Yfir „ljótu peysurnar" fóru svo flestir í einnota regnslár, enda lítið annað hægt, þvílík var rigningin. Keppnisdaginn var frítt í allar almenningssamgöngur fyrir hlaupara sem gátu valið um að taka lest, strætó eða bát. Okkar hópur valdi að taka bátinn yfir til Lindau-eyju og báturinn var troðfullur af spenntum og regnblautum hlaupurum. Þegar við komum á áfangastað tók sögulega langan tíma fyrir fólkið að yfirgefa bátinn þar sem flestir vildu njóta skjólsins eins lengi og þeir gátu. Þegar út kom hópuðumst við undir sóltjöld á veitingastað við höfnina.Starfsfólk staðarins var ótrúlega þolinmótt, bar í okkur vatn og teppi, hleypti okkur á klósettið og leyfði okkur að skipta um föt á miðju gólfi inni á staðnum. Margir af keppendunum skulfu af kulda en fólk hoppaði, dansaði, söng og hló til að halda á sér hita. Það var yndislegt að sjá hve allir voru í góðu skapi þrátt fyrir aðstæður.

Allir af stað á sama tíma í Þriggja landa maraþoninu - óháð vegalegd
Það sem er virkilega skemmtilegt við Þriggja landa maraþonið er að boðið er upp á vegalengdir sem henta öllum og allir starta á sama tíma. Þannig að klukkan 11.10 fóru allir keppendur af stað, hvort sem þeir voru skráðir í maraþon, hálfmaraþon, kvartmaraþon, hálfmaraþongöngu eða kvartmaraþongöngu. Svo koma allir í mark á sama stað á Casino Stadium-leikvanginum í Bregenz. Þetta gerir það að verkum að hópurinn verður ein heild sem stefnir öll að sama markmiðinu þó að hver og einn einstaklingur taki þátt á sínum forsendum. Það sem er líka gott við þetta fyrirkomulag er að þeir sem hafa skráð sig í langt hlaup, geta, ef eitthvað kemur upp á, breytt í styttra hlaup og valið hálft- eða kvartmaraþon þegar leiðir þessara vegalengda skiljast á leiðinni.

Allir klárir - líka stuðningsmennRétt fyrir klukkan 11 voru allir komnir í sín hólf og hlaupið hófst í dæmigerðu íslensku veðri. Þeir sem ekki voru tilbúnir til að henda af sér fötunum og gefa til góðgerðarmála vissu af stuðningsfólkinu okkar sem beið á fjórða kílómeter. Þessum hópi fylgdi nefnilega frábært stuðningslið sem búið var að funda dagana áður, skipta sér niður og skipuleggja hvernig hvatningu yrði háttað. Það er eitt að fá hvatningu frá frábæru heimafólki sem raðaði sér víðast hvar á brautina en að hitta svo á sína eigin stuðningsmenn er eins og extra orkuskot bæði af gleði og krafti. Af þeim 65 sem fóru í ferðina voru 53 hlauparar og 12 stuðningsmenn sem tóku hlutverk sitt alvarlega og slógu algerlega í gegn. Til að komast sem hraðast á milli staða voru þau búin að leigja hjól og gátu því stutt hlauparana á nokkrum stöðum á brautinni. Hluti af stuðningsliðinu beið í stúkunni og það var gott að hafa einnig kunnugleg andlit þar.Fljótlega minnkaði rigningin. Upp úr hádegi fór að birta til og innan skamms var orðinn heiður himinn og glampandi sól. Þvílík breyting á veðri og þótt það hafi kannski verið fullheitt fyrir maraþonhlauparana okkar þá var yndislegt að geta klárað hlaupið í sólskini og hlýju.Við vorum með hlaupara á öllum stigum, fólk að fara sitt fyrsta maraþon meðan aðrir höfðu farið oftar. Sumir fóru hálfmaraþon, einhverjir í kvartmaraþon og nokkrir í göngu. Sumir voru að keppast við tíma meðan aðrir tóku þátt til að vera með og tóku þetta á svokölluðu skemmtiskokki.  Erla og Steini ánægð í markinu enda bæði með frábæra maraþontíma.

Brautin er kannski ekki sú hraðasta en rosalega falleg og lítið um hækkanir. Bæði er hlaupið á bundnu slitlagi og malarstígum sem voru pínu forugir vegna rigningarinnar um morguninn. Allir áttu það sameiginlegt að koma brosandi í mark og margir persónulegir sigrar voru unnir.

Mæla svo sannarleg með hópferð í Þriggja landa maraþonið
Aðstæðurnar á Casino Stadium-leikvanginum voru frábærar. Veitingarnar sem keppendur fengu að loknu hlaupi voru frábærar. Í boði voru alls konar íþróttadrykkir, vatn og kók, epli, appelsínur, bananar og vínber. Einnig var hægt að fá saltstangir og snakk auk allskyns bakkelsis. Þvílík veisla. Ekki þurfti að flýta sér í burtu af leikvanginum og hægt var setjast niður hvar sem var til að njóta stemningarinnar og sólarinnar.

Margir í hópunum voru sammála um að það væri sérstaklega gaman að vera í hópferð í svona litlu hlaupi á svo litlum stað. Við getum því sannarlega mælt með því.

Íslandsvinur opnaði barinnBúið var að panta mat fyrir allan hópinn á Restaurant Strandhaus Lindau sem er staðsettur við Bodensee-vatn rétt við landamærin að Austurríki.Maturinn og þjónustan var framúrskarandi en staðurinn er þekktur fyrir grillmat sem hefur fengið að malla tímunum saman áður en hann er borinn fram. Ég veit ekki betur en að allir hafi verið virkilega ánægðir. Eftir matinn var komið að útspili stuðningsmannanna sem voru búnir að redda opnun bars, skammt frá hótelinu okkar í Bregenz.Staðurinn heiti Paschanga og þessi vinskapur íslensku stuðningsmannana og eiganda staðarins hófst þegar hann uppgötvaði að þau væru Íslendingar, enda handboltamaðurinn Dagur Sigurðsson sem þjálfaði handboltaliðið í Bregenz góðvinur hans. Íslenska fánanum var skellt upp á barinn og gleðin hélt áfram fram í nóttina.Líf og fjör á barnum sem opnaður var sérstaklega fyrir FHinga af eigandanum sem er mikill Íslandsvinur.

Greinarhöfundur spókar sig um í fjallaþorpinu Schwarzenberg.Gaman var að hitta hópinn í morgunmat daginn eftir og fólk var misjafnlega stemmt. Sumir voru verulega stirðir eftir hlaupið meðan aðrir voru hinir sprækustu og létu virkilega á því bera hversu auðvelt væri að fara upp og niður stiga.Misjafnt var í hvað fólk notaði þennan síðasta heila dag í Bregenz en flestir nutu hans við að skoða miðbæinn og sitja á kaffihúsum og veitingastöðum í góðra vina hópi. Ég og nokkrar vinkonur vorum svo heppnar að hitta 85 ára gamlan Bregenz-búa að nafni Kurt og hann tók okkur í stutta skoðunarferð. Hann sýndi okkur meðal annars mjóustu framhlið húss í Evrópu, kirkjuna, klaustrið og minnismerki um tónlistarmann og vin tengdaföður hans sem var drepinn í seinna stríðinu fyrir að neita að spila fyrir Hitler. Kurt fór aðeins að ókyrrast upp úr hádeginu þar sem konan hans átti von á honum í mat kl. 12. Þrátt fyrir það sýndi hann okkur einn stað enn og að því loknu fylgdum við honum heim og hann kynnti okkur fyrir konunni sinni. Hún fyrirgaf honum fljótt fyrir að vera of seinn og sagði okkur með mikilli hrifningu að hún væri búin að lesa allar bækurnar um Nonna og Manna.Sumir notuðu þennan dag til að kíka til Lichtenstein og aðrir kíktu í tvö nærliggjandi sveitaþorp í jaðri Alpanna, Schwarzenberg og Bezau. Í Bezau er hægt að taka kláf upp á fjall með glæsilegu panóramaútsýni.

Klukkan 10, þriðjudagsmorguninn, 6. október var svo komið að heimför og rúturnar mættar fyrir framan hótelið. Við fórum í loftið frá Zurich um kl. 14.30 og vorum lent heima seinnipartinn. Ánægð með frábæra ferð.

Flottar bætingar hjá mörgum
Margir af félögum okkar voru framarlega í hlaupinu. Erla Eyjólfsdóttir var níunda í mark af öllum konum í maraþoninu og fyrst í sínum aldursflokki á tímanum 03:30:36 og bætti sig um níu mínútur. Þórdís Hrafnkelsdóttir var sautjánda í mark af öllum konum og önnur í sínum aldursflokki og Þorbjörg Ósk Pétursdóttir var tuttugasta í mark af öllum konum og fimmta í sínum aldursflokki. Ingólfur Arnarson var sá fyrsti úr hópnum í karlaflokki til að koma í mark á tímanum 03:10:05. Hann var í 47. sæti af öllum og sjötti í sínum aldursflokki. Í karlaflokki var það Sigurður Guðni Ísólfsson sem bætti sig mest en hann hljóp á tímanum 03:32:48 og bætti sig um tæpar 53 mínútur. Kristján Ólafur Guðnason hljóp á tímanum 03:36:30 og bætti sig um rúmar 26 mínútur.

Þeir sem kepptu í hálf- og kvartmaraþoni höfðu flestir hreina skemmtun að leiðarljósi. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með flottustu tímana til að njóta þess að taka þátt í hlaupi. Margir gáfu sér góðan tíma í hlaupið, stoppuðu til að taka myndir, fóru rólega í gegnum drykkjarstöðvar, spjölluðu við stuðningmennina og komu svo í mark með miklum tilþrifum. Sjálf var ég í þessum hópi og skemmti mér konunglega. „If you can''t be the fastest, be the flottest".

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Myndir: Valgerður Rúnarsdóttir, Gísli Ágúst Guðmundsson, Jóhanna Soffía Birgisdóttir og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir


FHingar stilla sér upp í anddyri hótelsins að morgni hlaupadags.


Stuðningsmenn í miklum gír.