birt 06. desember 2015

Hlaup.is heldur áfram að birta ferðasögur og nú er komið að Hlaupahópi Fjölnis að segja frá för sinni til Ítalíu. Karl J. Hirst ritar fyrir hönd Fjölnismanna.

Hópurinn fyrir framan Ferrari safnið en þaðan er hlaupinu startað.Hlaupahópur Fjölnis hefur í mörg ár skipulagt ferðir fyrir meðlimi í keppnishlaup í útlöndum. Að meðaltali hefur slík ferð verið farin annað hvert ár og þátttaka jafnan verið góð. Snemma árs 2015 var skipað í ferðanefnd sem fékk það hlutverk að undirbúa ferð ársins. Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika þá varð fyrir valinu hlaup á norður-Ítalíu sem ber það stóra nafn „Maratona d‘Italia memorial Enzo Ferrari".Af hverju Ferrari maraþonið?Margt mælti með valinu; Í fyrsta lagi voru þrjár vegalengdir í boði, hálft maraþon, 30 km og heilt maraþon. Í öðru lagi er hlaupið kennt við stofnanda Ferrari bílaframleiðandans sem vakti áhuga margra. Að lokum er Ítalía áhugavert land að heimsækja og skoða.

Ætlunin var að stefna á viku ferð ferð. Undirbúningur gekk vel og þann 9. október flaug þrjátíu manna hópur frá Keflavík til Bologna á Ítalíu með millilendingu í London. Nánast allur dagurinn fór í ferðalagið og kom hópurinn á hótelið um kvöldmatarleytið.

Frumstætt en heillandi
Bologna er allstór borg í héraðinu Emilia-Romagna. Hótelið okkar hét Aemilia og var ágætlega staðsett nærri miðbænum. Eftir góðan morgunmat á laugardagsmorguninn var lagt af stað í lestarferð til bæjarins Carpi þar sem átti að sækja hlaupagögnin, en maraþonhlaupið endar einmitt á stóru torgi í miðbæ Carpi. Lestarferðin tekur tæpan klukkutíma en skipta þurfti um lest í borginni Modena á leiðinni. Frá lestarstöðinni í Carpi var stutt gönguferð að miðbænum.

Til að nálgast hlaupagögnin þarf að ganga inn í nokkuð stóra og æfaforna byggingu sem er með opnum stein­lögðum „forgarði" eða torgi fyrir framan innganginn. Þegar inn var komið var allt látlaust og mjög smátt í sniðum miðað við það sem við eigum að venjast í Reykjavíkurmaraþoninu. Allir fengu númerin sín eftir dálitla leit, en tölvuvæðingin virtist ekki vera á háu stigi hjá aðstandendum hlaupsins. Eftir númeraafhendinguna fór hópurinn að leita að expóinu en það reyndist nú bara vera nokkur sölutjöld framan við skráningarstaðinn og fyrir framan marksvæðið í heilu maraþoni. Þarna mátti gera virkilega góð kaup á hlaupaskóm og ýmiskonar fatnaði og fylgihlutum. Eftir innkaupin var haldið heim á leið með lestinni til Bologna.Ferðalangar á lestarstöð í Carpi á leið til Bologna.

Þegar heim á hótelið var komið fóru þeir sem því nenntu í stuttan hlaupatúr til að liðka sig eftir ferðalagið. Eftir góða sturtu hittumst við síðan öll á hótelinu um kvöldmatarleytið og snæddum pasta saman og ræddum um veðrið og sitthvað sem kom upp varðandi næsta morgun. Um kvöldið kíkti ég svo yfir keppnisfatnaðinn og gerði allt klárt fyrir næsta dag. Um nóttina svaf ég síðan vel enda var rúmið gott. Veðurspáin fyrir sjálfan hlaupadaginn var mjög góð, sólskin og 14 gráðu hiti þegar lagt yrði af stað, en svo  átti að hitna upp í  18 gráður þegar nálgaðist hádegi.

Fjölnismenn: Rósa, Signý, María, Guðrún O., Elli, Guðrún Axels, Erla og HólmarÞetta stóð heima og hlaupadagurinn 11. október var svo sannarlega fagur á að líta. Allir hlauparar hittust í morgunmatnum kl. 7 og þurftu að hraða sér því rúta sem pöntuð hafði verið fyrir hópinn kom kl. 7:30 til að ná í okkur og keyra að upphafsstað hlaupsins í bænum Maranello.Í bænum er safn tileinkað Ferrari bílum og er rásmarkið beint fyrir framan safnið. Þar voru glæsilegir Ferrari bílar til sýnis og mikil stemning meðal fólks. Öll fórum við að gera okkur tilbúin fyrir hlaupið. Bera á okkur sólkrem, vaselín og fleira til að verja okkur fyrir bruna og nuddsárum.

Kamrar voru þarna til staðar og mynduðust dálitlar raðir við þá eins og alltaf vill verða. Poka með aukafatnaði settum við í þar til gerða plastpoka hlaupsins og merktum þá með keppnisnúmerinu okkar.  Pokana settum við svo í flutningabíla sem voru á staðnum.

Hlaupið í gegnum seiðandi smábæi
Hlaupaleiðin í Ferrari-maraþoninu er sérstök að því leyti að hlaupið er á milli lítilla bæja. Allir hlauparar hefja hlaupið í bænum Maranello og allir hlauparar hlaupa í gegnum markið í hálfu maraþoni í borginni Modena.   Hlauparar í lengri vegalengdunum halda síðan áfram til bæjarins Soliera þar sem markið í 30 km hlaupinu er og loks halda hlauparar í heilu maraþoni áfram til bæjarins Carpi þar sem lokamarkið er. Vegalengdin í 30 km hlaupinu reyndist hins vegar vera nær því að vera 33 km.

Allir störtuðu jafnt og mikil eftirvænting var í loftinu þar sem hlaupararnir biðu eftir að skotið riði af. Veðrið var hið besta og flestir léttklæddir. Ég var í hlýrabol og stuttbuxum með derhúfu á höfðinu til að verjast sólinni. Í hópnum okkar vorum við átta sem ætluðum heilt maraþon, tíu ætluðu hálft maraþon og Erla þjálfari ætlaði í 30 km hlaupið sem var 33 km.

Gott veður, jafnvel aðeins of gott
Hlaupið gekk vel í byrjun og allir voru léttir á fæti framan af eða þangað til sólin hækkaði á lofti og hitinn fór að gera okkur lífið erfiðara. Drykkjarstöðvar voru með 5 km millibili ásamt bölum með vatni og svömpum til að kæla sig. Drykkjarstöðvarnar voru ágætar og vatn var á hálfs lítra plastflöskum, en einnig var íþróttadrykkur í boði á samskonar flöskum. Sumstaðar var boðið upp á banana þegar leið á seinni hlutann í  heila maraþoninu.

Hitinn fór í um 25 gráður þennan dag og lentu mörg okkar í einhverskonar erfiðleikum vegna hitans. Ég þakkaði fyrir að hafa derhúfuna og bleytti hausinn og hnakkann á drykkjarstöðvunum til að geta haldið nokkurn veginn fullum dampi. Hlaupaleiðin var eftir malbikuðum sveitavegum en engin umferð bíla sem var alveg frábært. Á leiðinni gat að líta fallega akra og trjágróður var áberandi í umhverfinu. Við og við var hlaupið í  gegnum litla fallega bæi þar sem áhorfendur klöppuðu fyrir hlaupurum og hvöttu þá áfram.

Í Modena var hlaupið í gegnum svæði þar sem sveit manna í einkennisbúningum hermanna stóð í tvöfaldri röð sitt hvoru megin við hlaupaleiðina og klöppuðu taktfast fyrir hlaupurunum meðan þeir hlupu framhjá. Þetta var gaman og skapaði mikla stemningu.Hlaupararnir skiluðu sér í mark að lokum, þreyttir en skælbrosandi út að eyrum eftir að hafa jafnað sig. Makar okkar í heila maraþoninu biðu við markið og voru einnig búnir að koma sér vel fyrir á veitingastað rétt hjá. Þau sem höfðu hlaupið í hálfu og 33 km komu síðan öll til Carpi með rútum hlaupsins og  hittist hópurinn á torginu stóra í Carpi. Þar urðu fagnaðarfundir og margir skoluðu niður einum köldum á veitingastaðnum og glöddust yfir frábærum degi.Sól og hiti gerði nokkrum hlaupurum örlitla skráveifu í hlaupinu.

Eftir dágóða stund var síðan haldið heim á hótelið í Bologna eins og daginn áður. Um kvöldið hittist allur hópurinn og fór út að borða saman, en búið var að taka frá veitingastaðinn Cinque 50 í miðbænum. Kvöldið var frábært í alla staði og við borðuðum fimm rétta máltíð sem var meiriháttar góð.

Eftirleikurinn - Allir fundu eitthvað við sitt hæfi
Næstu fjóra daga var frjáls tími. Mánudagurinn var þó rólegur hjá flestum en margir fór að versla í Bologna sem er frekar ódýr borg.

Á þriðjudeginum fóru flestir í skipulagða vínsmökkunarferð sem ferðanefndin hafði pantað hjá ítölsku ferðaþjónustunni Amazing Italy. Þar var ólífuolíuframleiðandi í bænum Brisighella heimsóttur og fengum við að smakka nokkrar gerðir af olíum ofan á brauð. Einnig var hægt að kaupa olíuna í lítratali eins og bensín á bíl. En sérstakar dælur, ekki ósvipaðar bensíndælum voru á staðnum fyrir kúnnana.

Vínbúgarður Trer´e fjölskyldunnar var einnig heimsóttur, boðið var uppá fimm rétta hádegisverð og mismunandi vín með. Vínkjallarinn hjá bóndanum var skoðaður en hann sagðist framleiða ca. 300.000 flöskur árlega. Þótti kvenfólkinu okkar þetta nokkuð myndarlegur maður, alveg ekta ítalskur sjarmör.

Ekki ónýtt að geta notið Feneyja eftir eitt stykki maraþon.Á miðvikudeginum fóru nokkur okkar með lest til borgarinnar Flórens, en lestarferðin tekur ekki nema 40 mínútur. Aðrir voru í Bologna að spóka sig í verslunum, söfnum eða á kaffihúsum.Á fimmtudegi fór hópur með hraðlestinni til Feneyja og tók ferðin þangað um einn og hálfan tíma. Borgin var enn meir á kafi í vatni en venjulega og gengu ferðamennirnir þar um í plaststígvélum. Á hinu fræga Markúsartorgi var vatnsdýptin um 20 cm. Verðlag í Feneyjum er mjög hátt, þar búa fáir og öll starfssemi er miðuð við ferðamenn. Þar ganga bátar um í stað strætisvagna og er því strangt fylgt eftir með háum sektum að ferðamenn séu með rétt virkjaða farmiða.

Aðrir úr hópnum notuðu fimmtudaginn til þess að fara til Cinque Terre. Þetta er landssvæði í héraðinu Liguriu þar sem fimm lítil þorp hanga utan í klettóttri ströndinni. Eftirsótt er að ganga milli þorpanna fimm, sem heita Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monteresso al Mare. Gönguleiðin var vægast sagt mjög falleg og skemmtileg.

Föstudagurinn rann síðan upp en þá lögðum við af stað heim til Íslands með viðkomu í London. Við þurftum að tékka okkur út með töskurnar og inn aftur en það gerði ekkert til því við höfðum heila sjö tíma til að bíða eftir vél Icelandair heim.Það var gott að koma heim eftir frábæra ferð með blöndu af hlaupum, skemmtun og menningu. Nú er bara að fara að huga að næstu markmiðum.Með góðum kveðjum,Karl Jón Hirst, félagi í Hlaupahóp Fjölnis.Karl Jón Hirst, skrásetjari, að loknu maraþoninu.

Ljósmyndir eru frá Erlu Jóhannsdóttur, Dofra Hermannssyni, Mörtu Þorvaldsdóttur, Sigrúnu Þórarinsdóttur, Erni Ólafssyni, Erlu Gunnarsdóttur og af heimasíðu Ferrarimaraþonsins.

Tímar íslensku keppendanna í Ferrari maraþoninu.