birt 06. júní 2016

Ingileif Ástvaldsdóttir heldur úti bloggsíðunni barabyrja.wordpress.com þar sem hún bloggar m.a. um hlaup. Hlaup.is fékk leyfi til að birta bloggfærslu hennar um þátttöku sína í utanvegahlaupi í Flórída sem fram fór í apríl.

Ingileif verður 52 ára í sumar og starfa sem skólastjóri í Þelamerkurskóla í Hörgársveit. Hún byrjaði að skokka eftir markvissri áætlun frá hlaup.is vorið 2007. „Á átta vikum var ég, mér til mikillar furðu, komin í 10 km form og tók í fyrsta skiptið þátt í skipulögðu hlaupi, Mývatnsmaraþoninu. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég hef æft undir handleiðslu Sigga P síðan," segir Ingileif. Gefum þessari kraftmiklu konu orðið.

Viltu lesa fleiri ferðasögur og frásagnir af hlaupum á hlaup.is. 
Lumar þú á frásögn eða ferðasögu tengdri hlaupum? Sendu okkur línu á
heimir@hlaup.is

Ingileif og Halldór ánægð að hlaupi loknu og Ingileif með verðlaun fyrir annan besta tímann í flokki 50-59 ára kvenna.Í fyrrasumar fæddist sú hugmynd að fara með vinum okkar í vetrarleyfi til Flórída. Hugmyndin var í vinnslu og undirbúningi  í nokkrar vikur og varð að veruleika um miðjan apríl síðastliðinn. Á meðan við vorum að skoða möguleika á fargjöldum og gistingu vaknaði sú hugmynd hjá mér að gaman væri að taka þátt í hlaupi á meðan á dvölinni stæði. Það gæti líka verið ágætis aðhald fyrir mig til að halda mér í hlaupaformi yfir veturinn. Ég leitaði á netinu og fann utanvegahlaup í þjóðgarðinum Jonathan Dickinson Park á vegum fyrirtækis sem heitir Down to run. Í þessu hlaupi var boðið upp á fjórar vegalengdir ásamt skemmtiskokki fyrir börn. Hægt var að velja á milli þess að hlaupa 50 km., hálft maraþon, 10 og 5 km. Ég skráði mig í hálft maraþon og fékk Halldór til að vera með.Hálfmaraþon utanvega í þjóðgarðiÞjóðgarðurinn setur hlaupinu þau skilyrði að þátttakendur séu ekki fleiri en 400-500 og þeir mega ekki skilja örðu eftir sig á brautinni. Drykkjarglös og umbúðir eiga líka að vera í lágmarki og fengum við fyrirmæli um að vera með eigin flöskur í hlaupinu. Það kom svo á daginn að við hverja drykkjarstöð voru lítil glös úr endurvinnanlegum pappa.Þar sem hlaupið byrjaði eldsnemma morguns og íbúðin sem við höfðum leigt okkur í leyfinu var í tveggja tíma akstri frá hlaupinu pöntuðum okkur herbergi í tvær nætur á hóteli skammt frá Jonathan Dickinson Park.

Þegar við höfðum tékkað okkur inn á hótelið seinni partinn daginn fyrir hlaupið, ókum við að Jonathan Dickinson Park til að kanna aðstæður og hvort við værum ekki örugglega á "réttum" stað. Þegar við komum að hliðinu inn í garðinn var okkur sagt til vegar að rásmarkinu. Þegar við komum þangað voru tveir starfsmenn hlaupsins við undirbúning þess. Þeir sýndu okkur hvar við gætum sótt keppnisgögnin daginn eftir og sögðu okkur frá brautinni og hvað bæri að varast í hlaupinu. Þegar við komum aftur í bílinn vorum við sammála um að þetta hafi verið nauðsynlegur hluti af undirbúningnum. Alla vega róaði þetta nokkrar af taugunum sem höfðu, eins og gengur og gerist, farið að ókyrrast og efast dagana fyrir hlaup. Á leiðinni heim að hótelinu aftur fundum við amerísk/ítalskan veitingastað og lukum við "hleðsluna" fyrir hlaupið. Þar voru skammtarnir svo stórir að við fengum afgangana með okkur heim og það átti eftir að koma sér vel seinna.

Afslöppuð stemming í framandi umhverfi
Þrátt fyrir spenning vegna hlaupsins tókst okkur að sofa vel nóttina fyrir hlaupið og vorum komin á fætur fyrir klukkan fimm. Nokkur fiðrildi flögruðu um í maganum en ég taldi mér trú um að í þetta skiptið væri það til góða. Ég gæti verið viss um að komast vegalengdina því mér hafði tekist að fylgja æfingaáætluninni nokkuð samviskusamlega mánuðina fyrir hlaupið. Ég var hins vegar ekki viss um hvernig hitinn myndi fara með mig á meðan á hlaupinu stæði.

En einmitt vegna hitans var hlaupið ræst eldsnemma um morguninn. Fyrst voru 50 km hlaupararnir ræstir kl. 6:30, svo hálfa maraþonið kl. 7:00 og svo koll af kolli þar til hlauparar í öllum vegalengdum voru komnar af stað. Við Halldór höfðum ákveðið að vera samferða í þessu hlaupi, fylgjast lítið með klukkunni og njóta þess að hlaupa utanvega í framandi umhverfi. Það var alveg þess virði því hlaupaleiðin var fjölbreytt og á henni gátum við hlustað á fugla- og skordýrahljóð sem við heyrum ekki venjulega á hlaupum okkar í Hörgárdal. Það var líka auðvelt að fylgja hægu tempói því öll umgjörð og þátttakendur hlaupsins voru afslappaðir og litu út fyrir að vera með í hlaupinu einmitt til að njóta þess og samveru hver við annan. En auðvitað mættum við líka hlaupurum á harða spretti. Það var gaman að geta vikið úr vegi fyrir þeim og hvatt þá áfram.Á leiðinni voru troðnir slóðar sem minntu á línuvegina heima, einstígi sem minntu okkur á kindavegina, forarpollar, trébrýr og að ógleymdum sandöldunum um miðbik hlaupsins þar sem hægði heldur betur á hraðanum. Sandöldurnar þykja einkenni hlaupsins og hafði starfsmaður hlaupsins sagt okkur kvöldið áður að það væri á þessum kafla þar sem "it gets to you". Það voru góðar upplýsingar því þá gátum við miðað orku-inntökuna við það. Við höfðum tekið orkugel með okkur að heiman. Það gerðum við til að vera viss um að vera með það sem við höfum áður notað og að lenda ekki í stressi rétt fyrir hlaup við að leita að einhverju sem gæti komið að notum.

Orkustöðvar með samlokum, hnetusmjöri salttöflum og M&M
Drykkjarstöðvar hlaupsins voru sjö og eiginlega hægt að kalla þær frekar orkustöðvar því þar var hægt að fá alls kyns orku eins og litlar samlokur með hnetusmjöri og sultu, M&M, salttöflur, gos, kaldan vatnsúða, hvatningu ásamt vatni og Gatorade. Við vorum sammála um að sjaldan hefðum við tekið þátt í hlaupi þar sem jafnvel væri hugsað um hlauparana vegna þess að sjálfboðaliðarnir sem voru á orkustöðvunum höfðu einlægan áhuga á því að hvetja þátttakendur hlaupsins.

Startið, sandöldurnar, hlaupafélaginn og hressir sjálfboðaliðar.

Skemmtilegur vinkill á vetrarleyfi í Flórída
Þó ekki væri á okkur þurr þráður varð hitinn okkur aldrei til trafala, samt fór hann upp í 26 gráður en af og til var hægt að vera í skugga og stundum koma andvari á móti okkur ásamt því að sólin hélt sig til hlés hluta af leiðinni.

Eftir tæpar þrjár klukkustundir komum við í mark og hittum stuðningsliðið okkar, Önnu Rósu og Kidda sem samviskusamlega höfðu gætt þess að marklínan væri á sínum stað og að veitingatjaldið og tímatakan væri í lagi þegar við skiluðum okkur til baka. Það er mikils virði að hafa einhverja sem maður kannast við til að hvetja sig áfram síðustu 200 metrana og síðan til að fagna áfanganum með þegar honum er lokið.

Á heildina litið var þátttakan í hlaupinu skemmtileg reynsla í hlaupabankann og nýr vinkill á vetrarleyfi og sól á Flórída.


Hlaupaleiðin. Það var hvetjandi en ekki letjandi að fara sömu leið til baka. Jók öryggið í lokin.