birt 15. nóvember 2015

Hlaup.is barst fyrir skömmu ferðasaga frá Sigrúnu Þorsteinsdóttur sem er í hinum óformlega félagsskap Surtlur sem kenna sig við sögufræga sauðkind. Surtlurnar tóku þátt í Óslóarmaraþoninu í haust og unnu þar stóra sigra.

Hlaup.is hvetur lesendur til að senda ferðasögur til birtingar, áhugasömum er bent á að hafa samband við Torfa, torfi@hlaup.is.  En gefum Sigrúnu orðið:

Hluti hópsins í sérstökum bolum sem útbúnir voru fyrir ferðina.Í byrjun árs 2014 byrjuðum við tvær vinkonur að hlaupa, vorum rétt að skríða í fertugt og höfðum aldrei á ævinni hlaupið meira en 1 km samfleytt. Stefnan hjá mér var sett á að geta hlaupið 10 km fyrir fertugsafmælið sem var 6. desember 2014.Fyrsta hlaupið sem ég tók þátt í var Víðavangshlaup ÍR þann 24. apríl 2014 þar sem ég fór mína fyrstu 5 km við mikinn fögnuð hjá sjálfri mér sem og öðrum fjölskyldumeðlimum og meðhlaupurum.

Í ágúst 2014 fór ég svo í fyrsta skiptið 10 km í Hjartadagshlaupinu og eftir það mætti ég í flest öll Powerade hlaupin yfir veturinn. Að lokum endaði ég mitt fyrsta hlaupaár með þátttöku í Gamlárshlaupi ÍR.

Æfingaferli og undirbúningur
Það var síðan strax í byrjun árs 2015 sem ég og nokkrar vinkonur ákváðum að taka þetta alla leið og skrá okkur í hlaup í útlöndum. Þar sem systur okkar búa í Noregi var ákveðið að taka þátt í Oslóarmaraþoni 2015.

Æfingar hófust á sama tíma í Osló og Reykjavík, öll vorum við á ólíkum stað varðandi reynslu, þjálfun og markmiðin og eins og gengur og gerist kemur ýmislegt uppá í svona æfingarferli.

Einn hlaupari þurfti að yfirgefa hlaupahóp yfir í stuðningsmannahóp sökum óléttu, en það fæddist lítill hlaupastrákur í október 2015. Einn hlaupari fékk þráláta lungnabólgu og svo voru bólgnir ökklar, inngrónar neglur, eymsl í hnjám, Ítalíuferðir á meðal hindrana sem þurfti að yfirstíga.

Hlaupahópur sem kennir sig við fótfráa kind 
Þar sem hópurinn var ekki að koma frá neinum ákveðnum hlaupahóp langaði okkur að finna nafn á hlaupahópinn, prenta boli og taka þetta bara alla leið. Eftir marga fundi og uppástungur var ákveðið að hlaupa undir merkjum íslensku sauðkindarinnar og varð þá fyrir valinu að kenna okkur við frægustu kind Íslandssögunnar hana Surtlu.

En til að gera langa sögu stutta, þá var það árið 1951 sem þurfti að lóga öllu fé á Suðurlandi vegna mæðuveiki. Þó var ein kind sem komst alltaf undan og var með afburðum fótfrá og klók, en að lokum tókst að fella kindina en Surtla var skotin í Herdísarvík árið 1952 eftir langan og strangan eltingarleik.Eftir þetta hefur kindin verið kölluð Herdísarvíkur-Surtla en hausinn á Surtlu var stoppaður upp og hangir núna hjá fyrrum yfirdýralækni honum Sigurði Sigurðarsonar. Siggi hefur átt hausinn frá 1974 en það er sama ár og helmingur hlauparann er fæddur.Surtlur gjösamlega hugfangnar af nöfnu sinni.

Við gerðum okkur að sjálfsögðu ferð til Sigga til að mynda hausinn af Surtlu og okkur með þessari frægu kind og úr varð Surtlu bolur sem prentaður var fyrir hlaupara og stuðningsmenn.

Stóri dagurinn í Osló
Það var síðan 15. september sem fyrstu hlauparar fóru til Osló til að kanna hlaupaaðstæður. Restin af hópnum mætti svo til Osló 17. september. Hlauparar gistu í heimhúsum hjá vinum og ættingjum.

18. september sem var föstudagur, daginn fyrir stóra daginn, þá fór hópurinn í bæinn og náði í hlaupagögn og skoðuðu Karl Johan stræti. Einhverjir fengu sér rauðvín og hvítvín með hamborgaranum en flestir fengu sér vatn og hamborgara eða pasta.

Fagnað í miðborg Óslóar eftir hlaupið.19. september rann stóri dagurinn upp. Enginn í hlaupahópnum hafði farið erlendis að hlaupa eða hlaupið í svona stóru hlaupi áður, fyrir utan tvo hlaupara sem höfðu áður tekið þátt í Oslóarmaraþoninu. Maraþonið hófst kl. 9, hálfmaraþonið kl. 13 og 10 km hlaupið hófst kl. 16, því var allur dagurinn undirlagður í hlaupið.Veðrið var eins gott og hugsast gat, kannski örlítið heitara en við erum vön á Íslandi en þó ekki þannig að það hefði teljandi áhrif á okkur óvönu hlauparana. Stemmingin var frábær, tónlistaratriði á 3-4 km fresti, drykkjarstöðvar á 5 km fresti og frábær stuðningur og áhorfendur allan hringinn.
Það kláruðu allir í hópnum sitt hlaup og öll unnum við okkar persónulega sigra. Ég hefði aldrei trúað því að fyrir aðeins tveimur árum síðan að ég gæti hlaupið 21 km og hvað þá að ég hefði gaman af því.Báðar systur mínar, frumburðurinn minn og vinkonur hlupu með mér þetta jómfrúarhlaup mitt og fyrir það er ég innilega þakklát. Þá vil ég líka þakka öllum sem komu að æfingaferlinu mínu sem eru vinnufélagar, vinir og ættingjar.Um kvöldið fögnuðum við hlaupinu með dýrindis nautasteik í heimahúsi, við hlaupararnir og stuðningshópurinn. Systurnar Sigrún, Hjördís og Anna vígreifar að hlaupi loknu.

Endað í Tarsan leik í klifurgarði
Á sunnudeginum drifum við okkur svo á fætur og skelltum okkur í klifurgarð, þar eyddum við deginum í allskonar sveiflum á milli trjátoppa, en þar urðum við í fyrsta skipti vör við aldursbilið, en við sem erum komnar yfir fertugt fórum ekki í efstu toppana og horfðum með aðdáun á yngri deildina sem litu út einsog Tarsan og Jane.

Dagurinn var samt frábær þótt allir værur fremur þreyttir eftir hlaupið. Það var því ekki fyrr en á mánudeginum sem líkaminn fékk leyfi til að hvílast og það var gott að fá einn hvíldardag áður en við fórum í flug heim aftur á þriðjudeginum.

Surtlurnar í Osló voru:
Kolbrún Sveinsdóttir
Anna Þorsteinsdóttir
Hjördís Þorsteinsdóttir
Sigrún Þorsteinsdóttir
María Hlín Steingrímsdóttir
Þorsteinn Þór Jóhannesson.