uppfært 26. apríl 2023

Sunnudaginn 16. apríl var 3 Santi Trail haldið í litlum bæ á Ítalíu sem heitir Nave. Ég og Símona skráðum okkur í 47 km með 2950m hækkun og fengum frábæra ferðafélaga með okkur sem fóru í 18 km með 1200m hækkun. 47 km vegalengdin var haldin í fyrsta skiptið þetta árið sem okkur þótti spennandi áskorun.

Fjallahlaupið 3 Santi Trail Hæðarprófíll
Hæðarprófíllinn

Mánuði undan þessari áskorun keppti ég og Símona í öðru hlaupi á Ítalíu sem heitir Sanremo Ultra & Trail og taldi það 32 km og með 1.750m hækkun. Það hlaup og ferðin heilt yfir var það skemmtileg að við fundum strax aðra áskorun sem við gætum tæklað með svipaðri helgarferð. Fyrir þessa áskorun var planið það sama og í Sanremo hlaupinu = byrja með fremsta hóp, halda mig í topp 10-15 og reyna svo að sækja á hópinn eins og líkami, úthald og styrkur leyfði gegnum hlaupið.

Hlaupið byrjaði með látum og við rúlluðum á stað 1,5-2 km á malbiki í átt að fjöllum á 3:50-4:00 pace. Við vorum ekki lengi að koma að fyrstu brekkunni, hér var ég í ca. 12-14 sæti og setti Metallica í gang í Aftershokz heyrnatólunum þar sem leiðin var vel merkt og stutt milli manna. Ég er hrifinn af því að hlusta á tónlist á hlaupum en geri það ekki í öllum hlaupum þar sem það getur tekið athyglina frá hlaupinu og brautinni og stundum einfaldlega má það ekki.

Ég skipti hlaupinu niður í sjö parta út frá drykkjarstöðvum jafnt sem hækkun og lækkun og notaði þann fítus í Garmin úrinu gegnum hlaupið sem sýndi hæðarprófílinn og sýndi hversu mikil hækkun var komin og á sama tíma lækkun. Ég var einnig með leiðina í gangi í úrinu sem gerði það að verkum að úrið lét mig vita ef ég fór út úr braut og eins þegar beygjur komu á hlaupaleiðinni.

Fjallahlaupið 3 Santi Trail Sigurjón Á Leiðinni
Sigurjón í hlaupinu

Ég ræsti hlaupið með 2x250ml brúsa þar sem ég var með tvær Nuun töflur og amínósýruduft í öðrum og Powerade í hinum, næring var svo tvö orkustykki og svo ætlaði ég að nota drykkjarstöðvar fyrir áfyllingu á drykk jafnt sem næringu. Fyrsta stöð var eftir 4,5 km og 400m hækkun og þar fyllti ég á annan brúsann þar sem hinn var enn þá nánast fullur og hélt svo áfram. Næsta stöð var svo í 15 km eftir 500m hækkun og 700m lækkun. Ég var í mjög góðum gír í klifrinu jafnt sem niðurhlaupinu frá stöð 1 að stöð 2 og tók þar fram úr 2-3 hlaupurum. Þegar ég kom inn á næstu stöð (sem kom 1-1,5 km fyrr en kortið sagði til um) var ég ekki alveg nógu tilbúin að fylla á næringu og einnig var skipulagið á stöðinni og starfsfólki ekki nógu gott, það tók of langan tíma að fylla á brúsa (ég mátti ekki gera það sjálfur) svo ég tæklaði þá stöð ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér. Eftir þá stöð byrjaði sólin að láta sjá sig meira og hitinn hækkaði með því, á sama tíma vorum við í komin í ansi góða hæð í fjöllunum sem reynir vissulega alltaf meira á líkamann.

Fjallahlaupið 3 Santi Trail Útsýni
Útsýni

Framundan var talsverð hækkun milli drykkjarstöðva, stöð 3 var á km 22 km og 450m hækkun að henni og svo var fjórða stöð í km 26 km og 250m hækkun að henni og loks fimmta stöðin í 33 km og 350m hækkun að þeirri stöð. Það var að sjálfsögðu oft einnig ágætis niðurhlaup milli stöðvana. Á sama tíma og ég gekk á hæðarmetrana jafnt sem kílómetrana í brautinni var ég í talsverðri hæð á hlaupum sem gerði það að verkum að orkan fór að lækka gegnum hlaupið.

Fjallahlaupið 3 Santi Trail Stöð Upp Á Fjalli
Ein stöðin

Rétt áður en við komum að síðustu drykkjarstöðinni sem var í 42 km kom hækkun sem ætti að vera í flestum tilfellum þægileg í rólegu skokki en var á þessum tímapunkti mjög krefjandi og gekk ég og skokkaði til skiptis að drykkjarstöðinni. Eftir að hafa tekið fram úr allnokkrum hlaupurum frá fyrstu brekku fram að þessari síðustu stöð missti ég aðeins einn hlauparar aftur fram úr mér sem gefur einmitt til kynna að flestir hlauparar voru á þessum tímapunkti einnig orðnir vel þreyttir.

Það er jú einmitt hlutur sem mikilvægt er að gleyma ekki í svona krefjandi áskorunum. Þegar þér fallast hendur og ert alveg búin á því og ferð að vorkenna þér og jafnvel berja þig niður þá er gott að hafa það í huga að fleiri en færri í hlaupinu eru eflaust á sama stað og þú.

Eftir 42 km drykkjarstöðina þá lá leiðin bara niður í bæinn og í mark og þrátt fyrir að vera orðin slefandi þreyttur á síðustu stöðinni þá náði ég að hlaupa sæmilega vel niður síðustu 5 km í markið og kom sjötti maður í mark á 5:21 klst sem ég tel ágætis dagsverk. Símona gerði sér lítið fyrir og tók þriðja sætið í kvenna flokki á 7:02 klst. Hlaupið gekk því vonum framar og var hlaupið, jafnt sem ferðin, hin mesta skemmtun og það er í raun fátt sem toppar slíkar ferðir hjá okkar fjölskyldu þó að dóttir okkar hafi ekki komið með í síðustu tvær keppnisferðir.

Fjallahlaupið 3 Santi Trail Sigurjón Í Marki
Sigurjón kominn í mark
Fjallahlaupið 3 Santi Trail Verona Í Marki
Simona komin í mark

Næst tekur við íslenska hlaupasumarið með fjölmörgum skemmtilegum hlaupum sem ég hvet fólk til að skoða gegnum hlaupadagskrá á hlaup.is.

Fjallahlaupið 3 Santi Trail Ferðafélagar Í 18 Km
Hlaupafélagar í 18 km

.