uppfært 29. apríl 2023

Laugardaginn eftir páska hlupum við 4 Íslendingar í Istria by UTMB utanvegahlaupinu í Króatíu.

UTMB hlaupin vinsælu sem haldin eru í Chamonix í Frakklandi í ágúst ár hvert eru núna í eigu Ironman. Ein af breytingunum sem Ironman gerði var að stofna svokallaða UTMB World Series hlauparöð. Til að geta sótt um UTMB hlaupin í Chamonix þarf nú að safna steinum (running stones) og eina leiðin til þess er að taka þátt í hlaupi í UTMB World Series hlauparöðinni.  Þetta eru hlaup frá 20 km til 170 km haldin víðsvegar um heiminn.

Stefán Georgsson 7
Hluti af leiðinni

Istria er skagi við Adríahafið nyrst í Króatíu næst Ítalíu og Slóveníu. Þar eru mikil ítölsk áhrif allt frá dögum Rómverja og svæðið var lengi hluti af austurrísk-ungverska keisaradæminu. Bæði við ströndina og í hæðunum inni í landi eru fallegir bæir og þorp með virkisveggjum, götusteinum og jafnvel hringleikahúsi frá dögum Rómverja. Yfir sumarið er Istria vinsæll ferðamannastaður en nú í apríl var frekar rólegt og utan stærstu bæjanna voru veitinga- og gistihús víða lokuð. Í apríl er hitinn kringum 13-17 gráður á daginn og nokkrar líkur á rigningu.

Stefán Georgsson 4
Króatía

Lengsta hlaupið sem er í boði í Istria by UTBM er þvert yfir skagann, 100 mílur með 6600 metra hækkun og hæst er farið í um 1300 metra yfir sjávarmál. Við Íslendingarnir völdum styttri hlaup, 69 og 42 km hlaup með 2300 / 1000 metra hækkun sem byrja á miðjum skaganum og enda í bænum Umag við ströndina.

Stefán Georgsson Hæðarprófíll 69 Km
Hæðarprófíllinn

Undirbúningurinn hjá mér var nokkuð hefðbundinn. Ég hljóp 60-80 km á viku í febrúar og mars og lengst rúmlega 90 km á viku 3 vikum fyrir hlaup. Ég hef verið í vandræðum með magann í síðustu keppnishlaupum og eitt af markmiðunum fyrir þetta hlaup var að reyna að sleppa við magavesen.

Fjölskyldan kom með mér í ferðina. Við flugum til Feneyja og stoppuðum 1 dag þar áður en við keyrðum yfir til Umag. Þetta er rúmlega tveggja tíma akstur og lítið mál að keyra á milli. Á hlaupdag tók ég rútu frá Umag til Buzet þar sem hlaupið byrjaði. Í Buzet fór ég á kaffihús, fékk mér Fanta og slappaði aðeins af fyrir startið klukkan 9. Svo gott sem öll hækkunin í hlaupinu kom á fyrstu 48 kílómetrunum. Þar voru svona 6 Úlfarsfell hvert á eftir öðru og stundum flatur kafli á milli. Hækkunin var yfirleitt frekar þægileg og ekki mjög brött hvorki upp né niður. Eftir 2, 4 og 6 Úlfarsfell voru drykkjarstöðvar og u.þ.b. 16 kílómetrar á milli.

Ég ákvað að hlaupa ekki með stafi sem voru mistök því það hafði rignt dagana á undan og stundum var ansi hált á niðurleiðinni. Á endanum fékk ég lánaðan annan stafinn hjá Kristínu sem hljóp með mér. Það var hlaupið á milli fallegra miðaldabæja og þessi fyrri hluti hlaupsins var virkilega skemmtilegur. Veðrið var fínt, skýjað og smá sól á milli en ekki of heitt.

Stefán Georgsson 2
Stefán og Kristín

Þegar við nálguðumst drykkjarstöðina í Groznjan eftir 48 kílómetra fór þykkna upp og heyrast í þrumum. Það byrjaði að hellirigna. Við drifum okkur í regnjakkana og héldum áfram. Hlaupið er aðeins niður í móti síðustu 20 kílómetra hlaupsins og við höfðum hlakkað til að rúlla þá þægilega. Það gekk ekki alveg eftir og á endanum komum við blaut og köld í markið í Umag rúmlega 12 tímum eftir að við lögðum af stað.

Stefán Georgsson 8
Stefán og Kristín

Ég náði þremur stærstu markmiðunum mínum að klára hlaupið (fá steina), hafa gaman og að hafa magann í lagi. Það var gott að hafa hlaupafélaga í hlaupinu ekki síst síðasta kaflann í myrkri og bleytu.

Ég borðaði Twix og nokkur Mountain Fuel gel á leiðinni og tók appelsínubáta í poka á flestum drykkjarstöðvum. Bæði kvöldið fyrir hlaupið og um morguninn fékk ég mér LGG eða sambærilegan drykk og held jafnvel að það hafi hjálpað við að róa magann. Eftir hlaupið stoppuðum við smástund í markinu og mér hefur sjaldan verið jafn kalt og þegar ég kom upp í íbúðina okkar gegnblautur. Heit sturta bjargaði því og svo var vaknað 6:00 morguninn eftir því að við áttum flug heim frá Feneyjum um 11-leytið daginn eftir hlaup. Ég hefði alveg verið til í að sofa lengur þann morgun 🙂

Stefán Georgsson 1
Stefán á leiðinni

Í 100 mílna hlaupinu í Istria sigraði Jim Walmsley og fékk þannig aðgöngumiða í UTMB hlaupið í Chamonix í ágúst. Jim hefur meðal annars sigrað Western States hlaupið þrisvar en ekki náð á verðlaunapall í UTMB. Í fyrra flutti hann með fjölskylduna til Frakklands til að geta sem best undirbúið sig fyrir UTMB. Það verður spennandi að fylgjast með honum í Chamonix en þar keppir hann væntanlega meðal annars við Íslandsvininn Zach Miller.

Stefán Georgsson 5
Stefán Georgsson

Króatía er fallegt land og veðrið í apríl hentar okkur Íslendingum ágætlega. Ef einhvern langar í skemmtilegt utanvegahlaup erlendis get ég alveg mælt með Istria hlaupinu.