Hlaupahópurinn Flandri

Borgarnes

Hlaupahópurinn Flandri í Borgarnesi fæddist að kvöldi 3. september 2012 og fyrsta formlega hlaupaæfingin var haldinn 3 dögum síðar, fimmtudaginn 6. september kl. 17:30. Síðan þá hafa félagar í hópnum flandrað víða, bæði í Borgarfirði og í öðrum héruðum heimsins. Ætlunin er að halda því áfram.

Flandri er opinn öllum áhugasömum hlaupurum, óháð getu. Hópurinn gerir út frá Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og hefur þrjá fasta hlaupatíma í viku, óháð veðri:

Mánud. kl. 17:30
Fimmtud. kl. 17:30
Laugard. kl. 10:00

Allir eru velkomnir á Flandraæfingar hvaðan úr heiminum sem þeir koma. Meginreglan á æfingum er að allir hafi gleðina í farteskinu, leggi af stað saman og komi helst til baka á svipuðum tíma. (Hópur þar sem félagarnir hittast aldrei er nefnilega enginn hópur). :)

Mæting á hlaupaæfingar er vandlega skráð jafnóðum í þar til gert Excelskjal. Skráningin hefst í byrjun september og lýkur seint í apríl. Ötulustu hlaupararnir fá síðan viðurkenningu að vori. Á sumrin eru æfingatímarnir þeir sömu, en þá viðgangast lausatök í skráningu mætinga.

Stundum stendur hópurinn fyrir einhverjum viðburðum og fræðslu, að ógleymdum Flandrasprettunum sem eru 5 km keppnishlaup innanbæjar í Borgarnesi. Sprettirnir eru haldnir 3. fimmtudag í mánuði frá október og fram í mars.

Stjórnendur hópsins:
Elín Davíðsdóttir (elladav@simnet.is)
Ingveldur H. Ingibergsdóttir (ihi@bondi.is)
Stefán Gíslason (stefan@environice.is)

Stutta frásögn af fyrstu æfingu hópsins má finna á http://stefangisla.com/2012/09/06/flandri-hleypur-vel-af-stad/.

Upplýsingar í ágúst 2020
Ljósmynd: Hulda Waage