TKS Trimmklúbbur Seltjarnarness er líklega elsti trimmklúbbur landsins. Hann var stofnaður 1985 þegar nokkrir áhugasamir fóru að hittast reglulega við Sundlaug Seltjarnarness. Árum saman hélt sá merki brautryðjandi almenningsíþrótta, Margrét Jónsdóttir, utan um starf klúbbsins. Kjörorð hennar var "Muna að hafa gaman" og er starfið enn á þeim nótum.
Hópurinn hittist tvisvar í viku yfir vetrartíma en þrisvar í viku frá vori og fram á haust við Sundlaug Seltjarnarness, á mánudögum og miðvikudögum kl. 17.30 og á laugardögum kl. 9:30 (frá 1. apríl - 1. október). Þá er hitað upp með þjálfara, gengið, skokkað og hlaupið mislangt, allt eftir áhuga og getu. Flestir geta fundið sér félaga á sama hraða því hópurinn er breiður. Oftast er hlaupið út með sjó og svo mislangt inn í Reykjavík. Endað er á teygjum og margir í heita pottinum. Á miðvikudögum er endað á styrktar- og teygjuæfingum í sal og á laugardögum farið í þolæfingar úti á sumrin en í þoltíma á vegum World Class að vetri. Að vori tekur hjóladeild TKS til starfa og er hjólað frá Sundlaug á fimmtudögum kl. 18:30.
Ýmislegt er gert utan fastra tíma. Á hverju sumri er farið í fjögurra til fimm daga gönguferðir um óbyggðir landsins, við miklar vinsældir. Farið í styttri göngur og bryddað er upp á ýmsu til tilbreytingar svo sem kakó og rúnstykkjum eftir skokk, fræðslustundum, árshátíð og fl. TKS stendur fyrir árlegu Neshlaupi í maímánuði.
Seltjarnarnesbær leggur til þjálfara, æfingar eru ókeypis en fastir félagar greiða 2.500 kr. árgjald sem notað er til að greiða fyrir veitingar og til að halda uppi félagslífinu. TKS er félagsskapur fyrir alla sem hafa áhuga á útivist og hreyfingu. Þar hittist fólk á öllum aldri með misjafna getu, þjálfarinn sinnir byrjendum sérstaklega. Allir eru velkomnir!
Dagskrá TKS má finna á fésbókarsíðu klúbbsins: Trimmklúbbur Seltjarnarness
Formaður TKS er Guðrún Geirsdóttyir, netfang gudgeirs@hi.is
Vefsíða: http://tks.is
Umfjöllun hlaup.is um TKS (Trimmklúbb Seltjarnarness)
Viðtal hlaup.is við Ágústu Sigfúsdóttur úr TKS (Trimmklúbb Seltjarnarness)
Upplýsingar skráðar 27.nóvember 2014.