100 km fjallahlaup í Hong Kong: Tröppur, apar, villihundar og meiri tröppur

birt 27. janúar 2019

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er frábær utanvegahlaupari sem hefur náð flottum árangri undanfarin misseri. Á síðasta ári náði hún þeim merka áfanga að hlaupa meira en 100 ferðir á Esjuna eins og hlaup.is fjallaði á sínum tíma. Hér að neðan má lesa pistil Hafdísar um þátttöku hennar í HK100, 100 km fjallahlaupi í Hong Kong sem fram fór um síðustu helgi. Þar var Hafdís ein átta íslenskra þátttakenda í hlaupinu. Gefum Hafdísi orðið.

Hafdís HK 100 5
Allt klárt áður en lagt var á brattann.


Eftir að hafa hlaupið vel í mínu fyrsta 100km hlaupi í Frakkalandi í lok ágúst dauðlangaði mig að gera þetta sem fyrst aftur. Ég varð því afar glöð þegar ég fékk þær fréttir í október að ég hafi komist inn í HK100 strax í janúar. Það voru því tæpir fimm mánuðir milli þessara tveggja fyrstu 100km hlaupa hjá mér.

Undirbúningurinn

Undirbúningurinn hófst formlega með maraþoni í haustþoninu 27. október. Ég hljóp að jafnaði fimm sinnum í viku og tók styrk eftir frábærri leiðsögn frá Bigga þjálfara þrisvar í viku. Ég hélt áfram að vera dugleg að fara á Esjuna og ferðirnar á árinu 2018 urðu alls 114. Mætti á nokkrar æfingar með frábærum Laugaskokkururm og hljóp töluvert með Melkorku minni.

Ég fór líka á nokkrar lengri æfingar með HK100 hópnum og það var frábær byrjun á vel heppnaðri ferð til Hong Kong. Tindahringurinn í Mosó í drullu, roki og rigningu ásamt hlaupi frá Hveragerði til Reykjavíkur í sól og frosti standa þar klárlega upp úr. Einnig var dásamlegt að geta hlaupið tvo ríkishringi og slaka svo á í spainu í Laugum viku fyrir hlaup með HK100 hópnum. Þessi hópur sem sem fór að þessu sinni þekktist vel og ég var ákaflega þakklát fyrir hveru vel þau tóku mér og buðu mig velkomna í hópinn. Það er mikill styrkur af góðum hlaupafélögum.

Hafdís HK 100 3
Rúna Rut, Hafdís og Halldóra. Glaðar í bragði.

Markmiðin

Markmiðin mín fyrir hlaupið voru ekki flókin, klára hlaupið með gleði að leiðarljósi allan tímann og reyna að gera það á undir 20 klukkutímum. Þar sem ég hafði ekki farið þetta hlaup áður var ég að renna blint í sjóinn með tímann en mig grunaði að þetta yrði líklega ekki erfiðara en UT4M þar sem hækkunin þar var meiri þó vegalengdin væri aðeins styttri og ég kláraði það hlaup á 18 klukkutímum.

Ferðalagið

Við áttum flug út á miðvikudegi fyrir hlaupið sem var ræst á laugardagsmorgni. Ég vaknaði lasin og kom því við í apóteki og keypti allt sem hægt er að kaupa til að minnka einkenni flensu. Flugið tók tæpan sólarhring svo við lentum í Hong Kong tæpum tveimur sólarhringum fyrir hlaup og ég var ekkert skárri af veikindunum. Dagarnir fram að hlaupinu voru rólegir og snerust að mestu um að hvíla og reyna að sofa en tímamismunurinn er 8 tímar.

Hlaupið

Þegar ég vaknaði morguninn fyrir startið eftir lítinn svefn mat ég stöðuna svo að ég væri a.m.k. fær um að mæta í startið og sjá til þar hvort eitthvert vit væri í að leggja af stað í hlaupið. Við vorum átta íslenskir keppendur mætt á ráslínu um klukkutíma fyrir startið ásamt frábæru íslensku stuðningsliði.

Það var því nægur tími til að pissa nokkrum sinnum, spjalla saman, taka verkjalyf og ákvörðun um að hefja hlaupið þrátt fyrir veikindin. Ég var í Inov8 frá toppi til táar, Roclite 290 skóm, stuttbuxum, bol, háum sokkum og með derhúfu og drykkjarvesti.

Við stelpurnar vorum í ráshópi 2 sem var ræstur 8 mínútum á eftir fyrsta ráshóp og komum við okkur þokkalega framarlega en þó ekki alveg fremst. Það myndast mikill flöskuháls við skóginn ef maður er of aftarlega svo þetta var ágætis ákvörðun hjá okkur. Ég fór mjög rólega af stað og ákvað að þetta hlaup yrði tekið í mörgum litlum bútum þar sem eftir hvern bút yrði tekin ákvörðum um hvort ég mundi halda áfram.

Hafdís HK 100 2
Glæsilegur hópur átta íslenskra utanvegahlaupara sem tóku þátt í HK100.
Næringin

Ég var ákveðin í að vera skynsöm og ætlaði sannarlega ekki að ganga meira á líkamann en léleg heilsa leyfði. Ég var með mikið af verkjalyfjum með mér auk þess sem ég var með salt töflur, vatn, gel, gelkubba og orkustykki. Það var heitt og mikill raki í lofti og því svitnaði ég rosalega.

Mér varð samt aldrei of heitt en var meðvituð um að ég þyrfti að vera enn duglegri að drekka en vanalega bæði vegna hitans og veikindanna.
Ég fyllti því á báða brúsana mína á öllum drykkjarstöðvum, borðaði mikið af appelsínum auk þess sem ég borðaði samlokur með hnetusmjöri, pasta, misú súpu og banana. Ég snerti hins vegar ekki gelið mitt en borðaði nokkra gelkubba.

Næringin mín að þessu sinni var því nær eingöngu fengin á drykkjarstöðvunum og oftar en ekki tók ég appelsínur með mér út af drykkjarstöðinni ýmist í höndunum eða í poka. Það var ótrúlegt úrval af næringu og alltaf hægt að finna eitthvað sem mig „langaði" í.

Leiðin

Ég var búin að horfa af töluvert af myndböndum af leiðinni og fannst eins og þetta gæti ekki verið svo erfitt hlaup. Það var fullkomið vanmat, leiðin er mjög á steiptum stígum og í tröppum. Ég var búin að heyra frá ferðafélögunum sem höfðu farið þetta hlaup áður að það væri mikið af tröppum en samt kom það mér algjörlega í opna skjöldu að fjöllin væru tröppulögð bæði upp og niður. Sumstaðar var svo langt á milli þrepa að erfitt var fyrir litla konu að komast milli þrepa, sérstaklega á leiðinni niður þegar þreytan var farin að segja til sín í lærunum. Tröppurnar virtust því á köflum óendanlegar.

Hafdís Hk 100 1
Hilmarsdóttir með puttann á púlsinum.

Ég tók þá ákvörðun að byrja ekki með stafina heldur láta þá bíða eftir mér á drykkjarstöðinni CP5 sem er eftir 56km. Það var ágætis ákvörðun hjá mér þó að um 2200 metra hækkun sé í fyrrihluta hlaupsins eru það ágætlega hlaupaleg hækkun og gott að vera laus við umstangið við að setja stafina saman og pakka þeim í beltið.

Ég var búin að heyra margar sögur af öpum og villihundum á leiðinni og kveið satt að segja mest fyrir þessu í hlaupinu. Fyrirmælin voru þau að horfa ekki í augun á öpunum, ekki taka myndir af þeim og ekki láta þá heyra skrjáfur í poka. Ég sá einn villihund sem hélt sig út af fyrir sig, heyrði skrækina í öpunum í myrkrinu í skóginum en sá svo bara tvo mjög spaka og sæta, sitjandi á handriði og ekkert að spá í mér. Þetta voru því óþarfa áhyggjur að þessu sinni enda var ég með símann í vasanum og þorði ekki að taka upp appelsínurnar mínar.

Ég fékk enga krampa og ekki illt í magann eins og flestir í kringum mig í öllu hlaupinu. Ég hef aldrei orðið vitni að eins mörgum ælandi og/eða með krampa. Ég var hins vegar orkulítil og móð allt hlaupið sökum veikindanna, samt aldrei þannig að mér liði illa, ég hægði á mér þannig að ég kæmist áfram á lágmarksorku án þess að finna fyrir vanlíðan.

Ég tók ítrekað stöðuna á mér, hringdi heim og talaði heillengi við Pésa og krakkana og tók aldrei meira en 5km í einu án milli þess sem ég athugaði hvort ég væri hæf til að halda áfram. Ég missti aldrei gleðina, skemmti mér stórkostlega, andaði að mér sjávarloftinu, dásamaði útsýnið, brjálæðið og öfgana sem einkennir Hong Kong. Það var því stórkostlegt að koma í mark á rúmum 19 klukkutímum þrátt fyrir veikindi og stíf læri síðustu 20km út af þessum endalausu tröppum.

Þetta hlaup í Hong Kong er einstakt og nú skil ég af hverju íslenskir hlaupararnir mæta aftur og aftur í þetta hlaup. Aðdráttaraflið er ekki síður fólgið í systrunum, Rebekku og Huldu, sem þar búa og opna faðminn fyrir íslenskum hlaupara (sem þær þekktu ekkert) að stíga sín fyrstu spor í HK100. Algjörlega ómetanlegur stuðningur.

Hafdís HK 100 4
Hluti íslenska hópsins að hlaupi loknu. Þreytt en sæl.

Næstu verkefni
Næsta verkefni er 120km á Ítalíu í júní og svo var ég svo svakalega heppin að komast inn í CCC hlaupið sem er 101km og hluti af UTMB seríunni í Chamonix í Frakkalandi í lok ágúst. Nú er því ekki annað að gera en að ná sér af þessari flensu og fara setja sér æfingamarkmið.

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.