Þann 21. febrúar kom ég ásamt Valgerði, konu minni, til Gran Canaria í tveggja vikna frí. Ég hef einu sinni áður komið til Kanaríeyja en það var um svipað leyti árið 1984. Sú ferð var allt öðruvísi en þessi en þá var ég að æfa fyrir London maraþon þar sem ég ætlaði að reyna við Ólympíulágmarkið í maraþonhlaupi sem þá var 2:18 klst. Sú ferð var ákveðin með fremur stuttum fyrirvara og ekkert hótel laust fyrir mig hjá Samvinnuferðum sálugu. Eftir mikla leit fundust tveir Austfirðingar á mínum aldri sem voru tilbúnir að hýsa mig. Man að ég svaf í forstofunni í ”bungalow” húsi. Þessir strákar voru komnir til að skemmta sér og komu gjarnan heim af djamminu um miðja nótt. Við náðum þó vel saman og fór ég yfirleitt út að borða með þeim á kvöldin en var farinn heim að sofa fyrir miðnætti. Á morgnana fór ég út að hlaupa upp úr kl. átta. Fljótt fannst mér leiðinlegt að borða morgunmatinn einn þannig að ég tók upp á því að hafa til morgunmat fyrir alla og vekja strákana milli tíu og ellefu. Man að annar þeirra var oft þungur og það fyrsta sem hann gerði var að ná í rússneskan vodka sem hann geymdi í frystinum. Eftir tvö staup var hann klár í daginn. Þetta var sjómaður sem þótti sopinn góður. Nokkrum árum seinna breytti hann lífi sínu, hætti að drekka og stofnaði fjölskyldu.
Ég æfði grimmt í þessari ferð. Fyrstu vikuna hljóp ég 130 km, þá næstu 150 km og þá þriðju 185 km. Hljóp gjarnan 11-12 sinnum í viku. Þetta var ekki bara langhlaup - inn á milli voru hörku gæðaæfingar en ég hafði stillt ferðina þannig af að ég gæti æft með norskum landsliðsmönnum í um 10 daga í ferðinni. Þeir voru hressir og góðir félagar og hef ég haft samband við tvo þeirra reglulega síðan. Einn til viðbótar hitti ég svo í fyrra í Noregi í fyrsta sinn eftir 22 ár. Eftir að heim kom, viku af mars, setti ég mér það takmark að fara ekki undir 100 km á viku. Það tókst þrátt fyrir að aðstæður væru oft slæmar til æfinga. Í London, sem þá var í byrjun maí, hljóp ég á 2:21:20. Var í góðu úthaldi en vantaði kannski meiri keppnisæfingu.
Nú er öldin önnur. Hef aðeins verið að skokka 2-3 í viku undanfarið ár en í staðinn farinn að spila meira golf. Það segir til sín í þyngd. Steig á vikt í Laugardalslauginni fyrir nokkrum dögum og sá töluna 84,0 kg í fyrsta skipti. Það er farið að taka aðeins í þar sem ég er 1.77 cm á hæð. Er svo sem í ágætu formi en þarf greinilega að hlaupa lengra og breyta matarvenjum. Ég er nefnilega einn þeirra sem borðar þrisvar á dag. Fríða Rún og aðrir ágætir næringafræðingar mæla með því að borða fimm sinnum á dag og í minni skömmtum til að viðhalda brennslunni. Ég er nefnilega einn þeirra sem borðar tvo kúfaða diska á kvöldin enda sársvangur eftir 6-7 tíma. Á föstudags- og laugardagskvöldum bæti ég þó fjórða skiptinu við en ég er sérstakur viðskiptavinur Helga í Góu og fer létt með að klára stóran pakka af súkkulaðirúsínum. Þarf að taka mig á og skera þetta niður í lítið bréf eins og maður kaupir í bíóhúsunum.
Hlupum ekkert á komudegi enda ég svefnvana eftir að hafa unnið til kl. 11 kvöldið áður – alltaf eitthvað sem maður telur sig þurfa að klára áður en farið er í frí. Lagði mig um kl. sex en vaknaði ekki fyrr en í miðjum leik Barcelona og Liverpool rúmum tveimur stundum síðar. Þreytan sat greinilega í mér. Í gærmorgun hlupum við hins vegar 10-11 km, mest á malbiki en eitthvað á ströndinni. Fórum um hádegið í 5-6 km gönguferð. Ég átti því ekki von á því að vera vel upplagður þegar ég fór á æfingasvæði Campo Golf um fjögurleytið. Þennan golfvöll þekkja margir Íslendingar enda rakst ég á landa mína þarna. Fékk mér 80 bolta og viti menn ég var bara ótrúlega vel á boltanum. Held það hafi ekki verið nema um 10 verulega slök högg. Hef ekki farið nema í þrígang að slá í Básum á þessu ári og ekki farið hring síðan í október. Ég fór því nokkuð keikur í klúbbhúsið og pantaði tíma daginn eftir. Ræs er kl. 13:22 (23. feb) með þremur útlendingum sem ég veit ekki haus né sporð á. Mér líður eins og ég sé að fara að keppa. Völlurinn er flatur, en langur (par 73) og mikið af trjám. Þetta gæti orðið nokkuð strembið hjá mér þar sem ég hef átt í nokkrum erfiðleikum með stefnuna. Aðalatriðið hjá golfurum á mínu getustigi er nefnilega að hitta boltann sæmilega. Það er því oftast heppni eða óheppni hvar boltinn lendir. Var að reyna að leiðrétta skekkjur í gær – sumt virtist ganga sæmilega en stundum komu nýjar skekkjur í ljós. Kannski er golf bara tóm vandræði. Jæja, það styttist í hringinn – nokkrir klukkutímar. Nú er bara að halda ró sinni, vera afslappaður og hugsa um eitt högg í einu. Meira síðar.