Þá er 25. Reykjavíkurmaraþoninu lokið með metþátttöku. Ég fylgdist með þátttakendum í hálfmaraþoni og maraþoni, fyrst hjá Kirkjusandi, síðan í Fossvoginum og loks á Seltjarnarnesi. Þegar maður maður gefur sér tíma og horfir á strauminn fara hjá áttar maður sig á því hve fjölbreytileikinn er mikill - ungir og aldnir, stórir og litlir, mjórir og þykkir, mikið klæddir og léttklæddir, vel þjálfaðir og lítt þjálfaðir og svo mætti áfram telja. Fólk greinilega með mismunandi markmið og mismunandi forsendur - sumir tóku þetta alvarlega meðan aðrir voru að spjalla í rólegheitum við næsta hlaupara. Tvennu tók ég sérstaklega eftir sem mismun á hlaupurum í hálfmaraþoni og maraþoni. Í hálfmaraþoni voru ansi margir sem hlupu með ipod eða þvíumlíkt sér til afþreyingar. Sjá mátti einnig að hlaupastíllinn var fremur óagaður hjá hlaupurum í hálfmaraþoni og fannst mér margir vera með hendurnar of háar og krepptar. Slíkt lagast venjulega þegar fólk fer að æfa meira og því eðlilegt að handahreyfingar maraþonhlauparanna væru afslappaðri.
Tímar sigurvegaranna í maraþonhlaupi karla og kvenna voru með slakasta móti. Hins vegar voru margir Íslendinganna að hlaupa mjög vel og bæta fyrri árangur sinn. Sérstaklega fannst mér athyglisvert að tólf ára stúlka, Aníta Hinriksdóttir, hljóp 10 km á 40:33 mín. Greinilega hlaupadrottning framtíðarinnar þar á ferð. Jóhanna Skúladóttir, 31 árs, bætti árangur sinn í hálfmaraþoni vel (1:24:59) og er hún líkleg til að fara undir 1:20 klst. á næstu árum. Meðal eldri hlaupara vakti athygli mína að Unnsteinn Jóhannsson, 77 ára, hljóp 10 km á 59:38 mín og Jóhann Karlsson, 60 ára, hljóp hálfmaraþon á 1:30:38. Björg Árnadóttir (42 ára) stimplaði sig inn meðal bestu maraþonhlaupara kvenna með því að hlaupa á 3:19:53. Ánægjulegt er að sjá hversu breiddin er að aukast milli ára. Þannig hlupu 20 konur undir 1:40 í hálfmaraþoni sem prýðilegur árangur.
Ég er mjög ánægður með hvernig til tókst hjá þeim hlaupurum sem ég hef verið að þjálfa. Fjölmargir bættu sig og aðrir voru að ná góðum tíma í sínu fyrsta hlaupi á vegalengdinni. Nefna má Daða Garðarsson (53 ára) sem hljóp sitt fyrsta maraþon á 3:16:14, Selfyssinginn Grím Hergeirsson (39 ára) sem bætti sig um 9 mínútur (3:19:16) og Akureyringinn Sigríði Einarsdóttur (42 ára) sem hljóp sitt fyrsta maraþon á 3:27:57.