UTMB hlaupið í Ölpunum er eitt þekktasta fjallahlaup í heimi, rómað fyrir skemmtilega umgjörð og sterka keppni. Í ágúst 2019 tók ég í fyrsta sinn þátt í þessum stóra viðburði og hljóp OCC hlaupið sem er 56 km langt með 3500 m hækkun. Ég náði að hlaupa mjög gott hlaup og má segja að í hlaupinu sjálfu hafi allt gengið upp, sem er alls ekki sjálfgefið. En hlaupið átti sér líka langan undirbúning og kostaði ákveðnar fórnir og staðfestu í æfingum. Í þessum pistli langar mig að deila með lesendum sögunni af undirbúningi hlaupsins og hlaupinu sjálfu
Undirbúningur
Undanfarin ár hef ég verið óttalegur meiðslapési og oft þurft að taka löng tímabil þar sem ég hef lítið getað hlaupið. Ég hef samt náð að halda sæmilega í fyrra hlaupaform og náð ágætum keppnishlaupum inn á milli en hef þá ósjaldan þurft að gjalda þess með því að vera frá í einhvern tíma á eftir. Smám saman tel ég mig þó vera að læra inn á eigin líkama og hvar mörkin liggja svo það hefur gengið betur að halda mig réttum megin við meiðslalínuna undanfarin misseri en árin þar á undan.
Tvennt hef ég lært af biturri reynslu í því sambandi. Það fyrra er að ég þarf að passa að vera ekki of gráðug í keppnishlaup og velja af kostgæfni þau hlaup sem ég vil taka sem alvöru keppni. Og hitt er að forðast of einhæfar æfingar og nýta aðra hreyfingu eins og sund, sundhlaup, hjólreiðar, gönguskíði og fjallgöngur með hlaupunum til að lenda ekki í álagsmeiðslum.
Í fyrrasumar átti ég ágætt tímabil. Ég náði góðu æfingatímabili fyrri hluta sumars sem skilaði sér í mjög góðum árangri í Laugavegshlaupinu og í kjölfarið ákvað ég að reyna frekar fyrir mér í fjallahlaupum, sækja um að komast með landsliðinu á heimsmeistaramót í utanvegahlaupum og safna mér punktum til að geta sótt um OCC. Ég tók því líka 50 km hlaup í Henglinum til að sækja mér þá punkta sem til þurfti. Á þeim tímapunkti var ég orðin svolítið tæp í fótunum. Ég hafði fundið fyrir stífleika í kálfa eftir Laugaveginn sem hamlaði mér aðeins við æfingar og keppni seinni part sumars og í lok sumars var ég líka farin að finna fyrir eymslum í ökkla. Engu að síður ákvað ég að sækja um að fara með landsliðinu á HM í utanvegahlaupum í Portúgal og skráði mig í OCC hlaupið og fékk inni í hvoru tveggja. Mér var líka boðin skráning í Laugaveginn sem ég þáði -en þó með þeim fyrirvara að ég þyrfti að meta stöðuna eftir heimsmeistaramótið. -Vitandi að það væri mögulega of mikið fyrir mig að taka þrjú 50 km hlaup á þriggja mánaða tímabili.
Ég setti mér það markmið strax í fyrra haust þegar keppnistímabilinu var lokið að reyna að ná kálfanum og ökklanum góðum. Ég minnkaði hlaupin því, tók inn meira af annars konar æfingum og fór í sjúkraþjálfun. Kálfinn lagaðist á nokkrum vikum en ökklinn var áfram með leiðindi. Þoldi ekki fulla beygju og átti til að bólgna upp eftir æfingar þótt ég finndi lítið fyrir honum á æfingunum sjálfum. Það verkefni að ná honum góðum entist mér því fram eftir vetri. Með því að létta aðeins af honum álagi um tíma og auka það svo hægt og rólega aftur hætti hann þó að kvarta og undir vor gat ég farið að hlaupa meira.
Miklu meira en bara hlaupaæfingar
Þolæfingar í vetur voru því mjög fjölbreyttar. Í nóvember til febrúar hljóp ég að jafnaði 30-50 km á viku, synti, hjólaði inni á trainer, fór á gönguskíði og tók eitt og eitt sundhlaup. Í mars jók ég hlaupamagnið upp í 60-80 km á viku en reyndi að hugsa meira um hæðametra en kílómetra þar sem æfingar miðuðu jú fyrst og fremst að því að undirbúa mig fyrir tvö löng fjallahlaup með góðri hækkun. Æfingar gengu vel og ég náði að undirbúa mig ágætlega undir heimsmeistaramótið og náði ásættanlegum árangri í því hlaupi.
Í lokaundirbúningnum fyrir HM og eftir hlaupið fann ég aftur aðeins fyrir ökklanum á hægra fæti og hásinin vinstra megin var líka farin að minna á sig. Það voru aðeins nokkrar vikur í Laugaveginn og auðvitað langaði mig að vera með. Ég var heldur ekki það slæm að ég þóttist vita að ég gæti alveg klárað hlaupið og jafnvel náð góðu hlaupi.
En ég vissi líka að það gæti kostað það að hásinin versnaði verulega og það gæti þá tekið langan tíma að ná henni góðri aftur. Mögulega það langan tíma að æfingar fyrir OCC yrðu litlar sem engar. Eftir langa umhugsun og rökræður við sjálfa mig ákvað ég því að sleppa Laugaveginum og einbeita mér að æfingum fyrir OCC. Laugavegurinn er jú aðgengilegur flest ár en öðru máli gegnir um OCC.
Það sem eftir lifði sumars miðaði allt að því að æfa vel fyrir OCC og láta ekki glepjast af öðrum keppnishlaupum. Freistingarnar leyndust þó víða. Ég var næstum því rokin vestur á firði til að hlaupa tvöfalda vesturgötu -en áttaði mig í tíma á því að það væri ekkert mikið minna álag á ökkla og hásin en að rúlla Laugaveginn. Mig langaði að keyra upp hraðann á malbikinu í Akureyrarhlaupinu og rúlla sæmilegt 5 eða 10 km hlaup en tókst að bjarga mér frá því með því að taka góða fjallaæfingu með Elísabetu Margeirsdóttur og fleirum daginn fyrir hlaup og skokkaði svo bara 5 km með dóttur minni. -Sem var reyndar mjög gaman að gera einu sinni, það vill jú sitja á hakanum að fylgja börnunum í sín hlaup þegar maður vill alltaf keppa sjálfur. Ég tók samt þátt í nokkrum keppnishlaupum í sumar en reyndi að hlaupa þau öll sem æfingahlaup þar sem ég lagði ekki allt undir.
Þegar leið á sumarið voru hásin og ökkli hætt að kvarta. Hlaupamagnið jókst frá viku til viku og ég fór upp í magn sem ég hef ekki náð í mörg ár eða 70-90 km á viku. Góður hluti af því hlaupamagni var í fjallabrölti þar sem hraðinn var ekki mikill og ég fann að ég þoldi það miklu betur en mikið af hröðum hlaupum á jafnsléttu. Ég hélt líka áfram inni svolitlu sundi, sundhlaupi og hjóli en styrktaræfingar duttu að mestu út.
Hlaup þar sem allt gekk upp
Æfingar fyrir OCC gengu því stóráfallalaust fyrir sig og þegar kom að hlaupinu fann ég að ég var tilbúin í verkefnið. Ég var full tilhlökkunar og spennu þegar ég kom út til Chamonix tveimur dögum fyrir hlaup. Dagarnir fram að hlaupi voru notaðir til að skoða sig aðeins um í þessum fallega bæ og huga að lokaundirbúningi.
Ég hafði verið tvístígandi með það fyrir hlaup hvort ég ætti að hlaupa með stafi. Ég hafði lítið æft með þá og taldi kannski óþarfa að hafa þá í ekki lengra hlaupi en OCC er. Ég var heldur ekki búin að finna nógu góða lausn á því hvar ég gæti geymt þá í vestinu sem ég ætlaði að hlaupa í. Nokkrum vikum fyrir hlaup var ég eiginlega búin að ákveða að sleppa þeim, en skipti svo aftur um skoðun rétt fyrir hlaup og ákvað að hafa þá með. Kvöldið fyrir hlaup fór síðan í það að rápa milli búða í Chamonix og leita að belti eða stafapoka sem ég gæti notað.
Þar sem ég var ekki búin að æfa mig í að hlaupa með þann búnað varð ofan á að kaupa belti sem ég setti um mittið og gat stungið stöfunum í þegar ég var ekki að nota þá. Ég mæli ekki endilega með því að prófa nýjan búnað í keppnishlaupi en þessi lausn virkaði mjög vel. Það var auðvelt að stinga stöfunum í beltið og taka þá fram aftur þegar á þurfti að halda og beltið sat mjög vel á mér svo ég fann lítið sem ekkert fyrir því. Mér fannst gott að hafa stafina í löngu brekkunum og var ánægð með að hafa hætt við að skilja þá eftir.
Ég tvísteig líka með það alveg fram að hlaupi í hvaða skóm ég ætlaði að hlaupa. Ég hef til þessa hlaupið öll mín lengri fjallahlaup á Saucony Peregrine og verið mjög ánægð með þá. Ég fékk mér nýtt par af þeim fyrir hlaup sem ég ætlaði að hlaupa á, en þar sem þeir hafa viljað slitna mjög fljótt á tánum hjá mér ákvað ég að prófa að taka þá númeri stærri en áður til að sjá hvort þeir entust þá betur. Fannst svo þegar ég fór að prófa þá að þeir væru e.t.v. of stórir og var hrædd um að það yrði til þess að ég ræki tærnar frekar í.
Ég var með Hoka speedgoat með mér líka sem eru skór sem ég hef verið að prófa og líkar ágætlega við. En ég var samt ekki eins örugg með þá. Ég veit að Saucony Peregrine skórnir fara vel með fæturna á mér, ég get hlaupið í þeim bæði á mjúkum stígum, grýttum slóðum og malbiki. Niðustaðan var því að hlaupa í þeim. Það reyndist líka vera rétt ákvörðun. Þeir fóru eins og áður vel með fæturna á mér og ég slapp við allar blöðrur og nuddsár, var ekki einu sinni aum í tánum eftir hlaup.
Keppnisdagurinn rann upp. Ég vaknaði snemma og tók rútuna með hinum UFA Eyrarskokks stelpunum (en við vorum fjórar úr hópnum sem hlupum þessa vegalengd) frá Chamonix til Orsiéres en þar er hlaupið ræst kl. 8:15. Ég var reyndar næstum því búin að missa af rútunni því mér tókst að villast þegar ég var að labba frá gististaðnum í rútuna. En rambaði sem betur fer á réttan stað rétt fyrir brottför.
Við komum til Orsiéres einum og hálfum tíma fyrir hlaup og tókum hefðbundnar stress-klósettferðir og gerðum okkur klárar. Hálftíma fyrir start var ég svo búin að koma mér fyrir í elítustartinu fremst. Síðasti hálftíminn fram að hlaupi var lengi að líða, spennan óx og mér fannst ég aftur þurfa að pissa. Var að hugsa um að tala við apótekarann sem var að opna verslunina sem er við rásmarkið -en kunni ekki við það, sá fyrir mér að það kæmu þá 1000 hlauparar á eftir mér í sömu erindagjörðum. Hugsaði líka sem svo að þetta væri sennilega bara stress -ég þyrfti ekkert að pissa og þessi þörf myndi hverfa um leið og ég hlypi af stað. Svo fór hins vegar ekki, mér var áfram mál að pissa þegar ég hljóp af stað. Ég var greinilega ekki ein um það því stuttu eftir startið voru karlarnir farnir að stinga sér út úr brautinni til að létta á sér. Ég dauðöfundaði þá og hugleiddi þann kost að fara að dæmi þeirra og stökkva út í skóg. Lét þó ekki verða af því og hélt í mér að fyrstu drykkjarstöð þar sem ég tók pissustopp. Ég hef aldrei áður þurft að pissa í keppnishlaupi og dauðsá eftir mínútunni sem fór í það.
Ég var vel stemd allt frá byrjun og fannst ég ná að hlaupa vel. Brekkurnar reyndust svipaðar og ég hafði búist við og stígarnir ekki mjög tæknilegir. Umhverfið dásamlega fallegt en líka svo ólíkt því sem maður þekkir hér heima. Stemningin í brautinni var líka góð. Grunnskólabörn röðuðu sér meðfram götunum í Orsiéres til að hvetja hlaupara og víða var fólk við brautina að hvetja. Okkar fólk, það er aðrir íslenskir hlauparar sem voru að fara að taka þátt í öðrum UTMB hlaupum, makar, fjölskylda og vinir hlaupara, var líka á nokkrum stöðum á leiðinni að hvetja. Það gaf vissulega aukabúst að fá hvatningu frá fólkinu sínu á leiðinni.
Um miðbik hlaupsins hugsaði ég sem svo að við værum að fá fullkomnar aðstæður í þessu hlaupi. Það var hlýtt en ekki kæfandi hiti, bjart en ekki steikjandi sól og því hægt að njóta til fulls þessa dásamlega umhverfis sem hlaupið er í. Eftir mitt hlaup fór að hitna meira, en þó fyrst og fremst þegar hlaupið var gegnum bæina því skógurinn í fjallshlíðunum veitt ágætt skjól fyrir sólinni og þar voru ekki langir kaflar þar sem maður var berskjaldaður. Ég fann vissuleg að vökvatapið var meira en venjulega sem ég bætti upp með því að drekka vel en mér leið ekki illa í hitanum.
Ég reyndi að passa vel upp á næringuna líka. Ég var með gel í litlum brúsum með mér sem ég tók inn á 45-60 mín fresti. Um miðbik hlaupsins tók ég eitt gel með aukasalti til að tryggja að ég yrði ekki búin að skola út öllum söltum og lenti í krömpum. Ég stoppaði stutt á drykkjarstöðvunum. Fyllti yfirleitt á annan brúsann á hverri stöð og greip mér nokkrar apríkósur og bita af orkustykkjum eða súkkulaði sem ég mjatlaði svo í mig á hlaupum eftir að ég kom út af drykkjarstöðvunum. Á síðustu stöðvunum fannst mér líka gott að fá mér appelsínubita þær voru svalandi í hitanum.
Ein af stærri stundunum á hlaupaferlinum
Eftir að hafa brölt yfir tvö góð fjöll og hlaupið 36 km kemur tiltölulega flatur 8 km kafli í hlaupinu. Ég var búin að hlakka svolítið til að koma að þessum kafla og geta rúllað þægilega á láglendi í svolitla stund áður en kæmi að lokahækkuninni. Sá kafli reyndist mér hins vegar ekki eins þægilegur og ég hafði vænst. Ég upplifði mig svolítið þreytta og orkulausa á jafnsléttunni og gat ekki hlaupið eins létt og ég hafði séð fyrir mér. Eftir á að hyggja held ég reyndar að þessi kafli hafi ekki verið eins flatur og ég taldi. Það sést á hæðakúrfunni að það er örlítil hækkun lengst af en trúlega það lítil að þér finnst þú vera að hlaupa á flötu.
Eftir flatann var komin að lokahækkuninni. Það var orðið vel heitt og leiðin upp sæmilega brött. Þarna er hins vegar orðið lítið eftir af hlaupinu og það hjálpaði mér að fikra mig upp brekkuna að vita að þegar upp á topp væri komið væri bara niðurhlaupið inn til Chamonix eftir. Á þessum kafla var ég líka farin að sjá að mér tækist að öllum líkindum að ná því markmiði mínu að hlaupa leiðina á um það bil sjö og hálfum klukkutíma og það hjálpaði mér að sigrast á síðustu brekkunni. Hluti af síðasta niðurhlaupinu er á frekar tæknilegum stígum sem er ekki mín sterkasta hlið í hlaupunum. Ég var því heldur hægari á þeim kafla en ég hafði gert mér vonir um og var farin að hlakka verulega til að komast niður á malbikið og geta gefið í síðasta eina og hálfa kílómetrann í mark. Það virtist samt ætla að vera frekar langt í malbikið og enn ekkert farið að bóla á því þegar úrið mitt sýndi 55 km. Fljótlega upp úr því var ég hins vegar komin inn á breiðan malarstíg sem ég sá að endaði á malbiki. Það var hlaupari á undan mér og ég hljóp hratt og örugglega á eftir honum niður stíginn og inn á malbikið.
Eftir að hafa hlaupið svolítinn legg eftir malbikinu snéri þessi hlaupari sér hins vegar við, baðaði út öllum öngum og sagðist ekki vera í hlaupinu og ég hefði átt að beygja á síðasta götuhorni. Ég snéri við á punktinum og hljóp til baka. Bölvaði í huganum yfir því að vera mögulega búin að klúðra þessu frábæra hlaupi mínu með því að villast á lokametrunum.
En fann sem betur fer beygjuna þar sem ég átti að fara. Vissi að þar með var orðið mjög stutt í mark og þar sem líðanin var enn góð gat ég gefið aðeins í meðan ég hljóp í gegnum bæinn. Þar var fólk meðfram brautinni alla leið að hvetja og Íslendingarnir biðu spölkorn frá markinu. Einhver reyndi að rétta mér íslenska fánann en ég var að flýta mér of mikið til að ná að grípa hann.
Það var virkilega sæt tilfinning að koma í mark. Lokatíminn 7:33:13 sem var vel innan þess tímaramma sem ég hafði sett mér. Ekki spillti svo fyrir að ég náði þriðja sæti í mínum aldursflokki og fékk því að fara á pall. Klárlega ein af stærri stundunum á mínum hlaupaferli að standa á palli í UTMB með mannfjöldann fyrir framan mig og Mont Blank í baksýn.
Hvergi nærri hætt
Ég vil meina að þetta hlaup sé eitt af mínum betri afrekum á hlaupaferlinum til þessa. Þann árangur þakka ég góðum undirbúningi og ekki síst skynseminni sem mér tókst að fylgja í æfingum og keppni í aðdraganda hlaupsins. Mér finnst ég eiginlega hafa unnið þrefaldan sigur í þessu hlaupi. Mér tókst að æfa fyrir það án þess að lenda í meiðslum, hljóp það vel og náði þeim árangri sem ég stefndi að og kom heil undan því.
Á meiðslatímabilunum á undanförnum árum hef ég oft haldið að nú sé keppnisferlinum lokið, það sé tímabært að horfast í augu við það að ég sé farin að eldast og líkaminn þoli ekki lengur það álag sem fylgir afreksþjálfum. Með þessu hlaupi fannst mér ég ná að sanna fyrir sjálfri mér að það er engin ástæða til að láta staðar numið núna. Með því að velja sér réttu orusturnar á hlaupabrautinni og láta þrautseigju og skynsemi ráða ferðinni í æfingum er hægt að snúa á álagsmeiðslin og ná settum markmiðum.
Rannveig Oddsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.