birt 07. ágúst 2017

Líklega hafa allir hlauparar orðið fyrir meiðslum sem hafa komið í veg fyrir æfingar og keppni í lengri eða skemmri tíma. Flest þessara meiðsla eru afleiðing mistaka, oftast þeirra einföldu mistaka að gera of mikið of fljótt. En hver sem orsökin er stendur hinn meiddi ávallt frammi fyrir sama viðfangsefninu, þ.e.a.s. að ná sér góðum aftur þannig að hægt sé að halda áfram að hlaupa sem allra fyrst. Sjálfur þykist ég hafa sloppið sæmilega við meiðsli á hlaupaferlinum, en samt gæti ég auðveldlega rifjað upp nokkrar meiðslasögur ef ég endilega vildi. En hér verður ekki horft til fortíðar, heldur einblínt á þá stöðu sem maður er í þegar skaðinn er skeður.

Tvenns konar viðfangsefni

Sem fyrr segir stendur hinn meiddi ávallt frammi fyrir sama viðfangsefninu, þ.e.a.s. að ná sér góðum aftur þannig að hægt sé að halda áfram að hlaupa sem allra fyrst. Þetta viðfangsefni er í raun tvíþætt, þ.e.a.s. annars vegar líkamlegt og hins vegar sálrænt. Líkamlega þættinum hafa verið gerð góð skil í fjölmörgum hlaupabókum og á ótal vefsíðum, þar sem fjallað er um bestu leiðina til að öðlast sem skjótastan bata eftir mismunandi meiðsli. Þar ber mest á „RICE-aðferðinni" (Rest, Ice, Compression and Elevation) eða „HVÍL" eins og þetta hefur verið orðað á íslensku („hvíld, vafningur, ís og lyfta"). Reyndar telja sumir réttara að tala um PRICE en RICE, þar sem P-ið stendur fyrir vernd (e. protection), þ.e. að gæta þess að fara ekki of snemma af stað á nýjan leik eftir meiðsli. Sálræni þátturinn er hins vegar sjaldnar til umræðu og því verður hann gerður að umræðuefni hér.

Sálræni þátturinn

Það er alltaf áfall fyrir hlaupara að meiðast, hver sem orsök meiðslanna er. Fyrstu viðbrögð lýsa sér oft í depurð eða örvæntingu og oft fylgir reiði í kjölfarið, oftast reiði út í mann sjálfan fyrir að hafa verið svo vitlaus að taka enn einn sprett þrátt fyrir að vera farinn að finna til í lærinu, eða hvað sem það nú annars var sem fór úrskeiðis. Reiði og sjálfsásökun eru eðlilegar tilfinningar, en þær hjálpa síður en svo til í bataferlinu. Þvert á móti bendir margt til að þær geti seinkað því. Því er mikilvægt að leggja reiðina til hliðar sem allra fyrst og sætta sig við orðinn hlut. Það sem gerðist gerðist, hvort sem maður sjálfur átti meiri eða minni sök á því, og því verður ekki breytt. Besta veganestið í bataferlinu er jákvætt hugarfar þar sem reynt er að sjá ljósu punktana í ástandinu þó að það sé vissulega hægara sagt en gert, sérstaklega í fyrstu.

Fyrsti jákvæði punkturinn sem gott er að hafa í huga er að meiðslin fela í sér tækifæri til hvíldar. Meiðsli eiga sér gjarnan stað þegar æfingaálagið er mest og þá er vel hægt að orða það svo að nú sé líkaminn að taka í taumana og heimta viðgerðarhlé áður en allt kerfið verður óstarfhæft. Þörfin fyrir viðgerðir getur leynst víðar en í þessum eina vöðva sem lét undan álaginu, þó að maður geri sér ekki grein fyrir því sjálfur. Og um leið og einhver líkamshluti eða vöðvahópur heimtar hvíld gefst tækifæri til að sinna öðrum sem hafa e.t.v. orðið útundan.

Í öðru lagi er ástæða til að minna sjálfan sig á að tiltekið tímabil er miklu styttra þegar litið er til baka en þegar maður er staddur í því miðju. Þannig virðist þriggja vikna hlé frá hlaupaæfingum vera heil eilífð meðan á því stendur, en þegar litið er til baka eftir nokkra mánuði var þetta kannski bara eins og hver önnur bræla í annars vel heppnaðri vertíð. Fólk sem telur sig vera komið á síðari hluta hlaupaferilsins, eða finnst það með öðrum orðum vera orðið dálítið gamalt, hefur hugsanlega enn meiri áhyggjur en yngra fólk af þeim tíma sem fer til spillis í meiðslum. Vissulega er líklegt að bataferlið taki ögn lengri tíma eftir því sem einstakingurinn er eldri, en aldur er afstæður og ekkert því til fyrirstöðu að fólk, jafnvel á níræðisaldri, komi tvíelleft til baka eftir nokkurra vikna eða mánaða fjarveru vegna meiðsla. Ed Withlock er gott dæmi um þetta, en hann á m.a. heimsmetið í maraþoni 80-84 ára, 3:15:54 klst. Ed náði sér hvað eftir annað á strik eftir löng hlé vegna meiðsla. Almenna reglan er einfaldlega sú að við höfum nógan tíma. Það skiptir bara máli að nota hann vel.

Þriðja ljósið í meiðslamyrkrinu er sú staðreynd að líkaminn er alla jafna mun fljótari en ætla mætti að ná fyrri getu. Þar kemur svokallað „vöðvaminni" við sögu. Æfingarnar fyrr á ferlinum leiddu nefnilega ekki bara til þess að vöðvarnir styrktust, heldur tóku þeir líka varanlegum breytingum sem gera þeim auðveldara að ná sama styrk aftur síðar.

Auðmýkt og þakklæti

Ég hef svo sem ekki rekist á neinar rannsóknir þar sem sýnt hefur verið fram á að systurnar Auðmýkt og Þakklæti flýti fyrir bataferli líkamans eftir meiðsli. Engu að síður er ég mjög sannfærður um að þær hjálpi til. Flestir hlauparar eru búnir að slíta barnskónum og stunda hlaup fyrst og fremst sér til líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsubótar. Fólki í þeirri stöðu er hollt að hafa í huga að í raun eru það forréttindi að geta átt jafn gefandi áhugamál og hlaupin vissulega eru flestum, jafnvel þótt árunum sé farið að fjölga. Meðal samferðamannanna, þ.m.t. bekkjarfélaganna úr grunnskóla eða menntaskóla, eru örugglega margir sem vildu gefa mikið fyrir að geta notið þessara gæða. Nokkurra vikna frátöf vegna meiðsla breytir þar litlu um.

Efnisflokkur: Meiðsli

Heimildir og lesefni:
  1. Bradley Stulberg (2016): Positively Healthy. Í: Runner‘s World, júní 2016. Emmaus, PA, USA, (bls. 54-56). (Sjá einnig: http://www.runnersworld.com/recovery/use-your-mind-to-restore-your-body-after-a-run).
  2. Jennifer van Allen o.fl. (2012): Big Book of Marathon and Half-Marathon Training. Rodale Inc., New York.
  3. Lawrence Stein (2017): 3 Ways to Stay Sane When an Injury Puts Running on Hold. Pistill á SportsHealth.com 25. janúar. https://www.sports-health.com/blog/3-ways-stay-sane-when-injury-puts-running-hold.
  4. Sports Physio Ireland (2016): Positive Thinking Means Faster Healing. Pistill á heimasíðu 5. maí. http://sportsphysioireland.com/positive-thinking-means-faster-healing.
  5. Stefán Gíslason (2016): Muna vöðvarnir eitthvað? Pistill á hlaup.is 8. desember. https://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=1272&module_id=220&element_id=28350.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.