Aðgerð og aðgerðarleysi, og þó.......

birt 17. mars 2008

Jæja, þá eru rúmar fjórar vikur frá því ég fór í liðþófaaðgerð á hné. Hafði aldrei farið undir hnífinn áður og aldrei verið svæfður áður. Því nokkuð ný reynsla fyrir mig. Ferillinn í svona löguðu er nokkuð langur, en ég var reyndar ekkert að ýta á neina hnappa enda ekki að keppa að neinu sérstöku. Meiddist í lok nóvember og það var ekki fyrr en mánuði síðar að læknir kvað upp úr um hvers eðlis væri. Fór í myndatöku um miðjan janúar, til sérfræðilæknis í lok janúar og loks í aðgerðina 15. febrúar. Hún var framkvæmd í Orkuhúsinu. Það var létt yfir skurðlækninum þegar hann tússaði fyrir ofan vinstra hnéð og sagðist bara vilja vera alveg viss. Mér var svo trillað inn í skurðstofuna þar sem ómaði létt dægurlagatónlist. Starfsfólkið var létt í lund og svæfingarlæknirinn gantaðist með það að ég myndi finna fyrir kæruleysistilfinningu og hugsanlega hlæja þegar hann væri búinn að sprauta í mig svefnlyfinu. Eftir um mínútu eða svo reis ég upp við dogg og sagðist ekki finna neina breytingu. Þau hljóta að hafa brosað því augnarbliki síðar var ég steinsofnaður og vaknaði ekki aftur fyrr en eftir tæpa tvo tíma. Þá komin með tvö lítil göt framan á hnénu og vel reifaður. Svolítið ringlaður en gat eigi að síður gengið óstuddur fram í afgreiðslu þar sem konan beið eftir mér. Ótrúlegar framfarir í læknavísindunum, en ég hafði hlustað á nokkrar tröllasögur af þeim sem fóru í slíka aðgerð fyrir 25-30 árum og þurftu að vera í gipsi í margar vikur.

Aðgerðin tókst vel og hefur batinn verið jafn og góður. Árni sjúkraþjálfari sagði mér á mánudaginn var að ég mætti byrja að hlaupa eilítið á öðrum í páskum. Sem sagt vika núna í það að ég megi byrja að hlaupa aftur. Ég bíð spenntur enda hef ég ekki hlaupið lengra en 2 km samfellt síðan í lok nóvember. Var að reyna að skakklappast 1-2 km í senn með hóp sem ég hef verið að þjálfa þar til ég fór í aðgerðina. Tók þá línu að vera þolinmóður og hef ég í einu og öllu hlýtt lækninum og sjúkraþjálfaranum varðandi endurhæfinguna. Gert þær æfingar sem ég hef mátt gera og passað að gera ekki of mikið. Gert lítið með sögur um hraðan bata hjá öðrum. Á mínum vinnustað er fótboltastrákur sem er í úrvalsdeildinni sem finnst varkárni mín heldur mikil. Hann hefur verið skorinn upp á báðum hnjám, á öðru þeirra meira að segja tvisvar,  og segir að fótboltamenn séu yfirleitt komnir á fullt eftir fjórar vikur. Það finnst mér ekki skrítið, þó mér finnist það ekki skynsamlegt, enda pressan á þeim meiri en mér.

Meiðsli eru ekki að öllu leyti slæm. Þegar maður lendir í þeim er maður oft duglegri að gera æfingar sem maður er annars latur við að gera. Ég fékk mér til að mynda kort í líkamsrækt 2. janúar og ásetti mér að mæta að jafnaði þriðja hvern dag. Það hefur gengið eftir og er ég þegar búinn að mæta í 26 skipti. Þar sem ég hef lítið sem ekkert getað tekið af æfingum fyrir fætur hefur áherslan verið á hendur, axlir, bak og maga. Með þessu hef ég verið duglegur að teygja, sem mér hefur alltaf fundist frekar leiðinlegt. Þetta hefur gert það að verkum að ég er kominn með þokkalegan styrk sem hugsanlega getur eitthvað nýst í golfið. Vel á minnst, til að halda sér við efnið verður maður að hafa markmið. Nokkrir félagar mínir spurðu mig þegar í byrjun desember hvort ég hefði áhuga á golfferð til Englands um miðjan apríl. Ég sagðist svara þeim eftir aðgerðina. Um leið og ljóst var að hún tókst vel pantaði ég ferðina. Nú vinn ég sem sagt markvisst að því að vera tilbúinn í slaginn 20. apríl. Slíkar ferðir eru líka hörkupúl og því eins gott að vera kominn með fullan styrk. Yfirleitt leiknar 27-36 holur á dag í 5 daga. Fór í fyrsta skiptið í gær á æfingasvæðið og sló 40 bolta með þremur hæstu járnunum. Stutt sveifla og engin átök.

Eftir þetta hlaupasvelti er ekki laust við að ég finni nýja löngun til að reyna mig eitthvað í götuhlaupunum aftur. Eins konar ný áskorun, sjá hvað maður getur. Var að hugsa um 10 km í RM eða á Selfossi. Eigum við ekki að segja 39:59, maður verður að hafa markmið.