Af hverju eru Japanir svona góðir hlauparar?

uppfært 06. ágúst 2020

Síðustu árin hafa maraþonhlauparar frá Keníu og Eþíópíu borið höfuð og herðar yfir hlaupara frá öðrum löndum, a.m.k. þegar litið er á heimsafrekaskrárnar. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Fyrir u.þ.b. 50 árum var Japan í svipaðri stöðu og Kenía og Eþíópía eru í dag og líklega er ekki hallað á neinn þótt því sé haldið fram að Japanir séu þriðja besta maraþonþjóð heimsins í dag. Suguru Osako (f. 1991) er reyndar eini japanski karlinn á 100 manna maraþonlistanum frá upphafi, en þar situr hann í 48. sæti með tímann sinn úr Tókýómaraþoninu 1. mars sl., 2:05:29 klst. Auk hans er Norðmaðurinn Sondre Moen (96. sæti, 2:05:48) eini hlauparinn á listanum sem ekki er af afrískum uppruna.

Á listanum yfir 100 bestu maraþonkonur frá upphafi eru hins vegar 8 japönsk nöfn. Og þegar litið er aðeins neðar á heimslistann er japanski fáninn mjög áberandi. Þannig hafa meira en 100 japanskir karlar hlaupið maraþon undir 2:10 klst. og í Tókýómaraþoninu í vetur hlupu 19 Japanir undir 2:10 og 29 til viðbótar undir 2:15. Þá hafa um 160 japanskar konur hlaupið maraþon undir 2:30 klst.

Hvers vegna Japan?

Velgengni Japana í maraþonhlaupum á sér margar skýringar. Mörgum dettur sjálfsagt fyrst í hug einbeitingin og sjálfsaginn sem sagt er að einkenni japönsku þjóðina - og sjálfsagt er mikið til í því. En málið er talsvert flóknari en það.

Maraþonmunkarnir

Japönsk hlaupahefð á sér aldagamlar rætur sem rekja má til búddamunksins So-o (831-918), sem var upphafsmaður maraþonmunkareglunnar á hinu heilaga fjalli Hiei, skammt frá Kýótó. Í þeirri munkareglu þarf að ganga eða hlaupa lengra en í kringum jörðina (46.572 km) til að öðlast hreinsun og búddaástand. Dagleiðirnar á þessu ferðalagi eru oftast 30-84 km í 100 daga í röð á hverju ári þar til markmiðinu er náð. Maraþonmunkareglan er enn til staðar þótt liðin séu hátt í 1.200 ár frá upphafi hennar.

Shizo Kanakuri

Shizo Kanakuri (1891-1983) á stóran þátt í maraþonhefð nútímans í Japan. Árið 1911 setti hann óopinbert heimsmet í maraþoni þegar hann hljóp á 2:32:45 klst. á úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana í Stokkhólmi. Reyndar var þetta met aldrei skráð sem slíkt, því að vegalengdin var í styttra lagi. En þetta varð alla vega til þess að Shizo varð annar tveggja Japana sem fékk keppnisrétt á leikunum. Þar tókst honum ekki að ljúka maraþoninu, enda mjög þreyttur eftir 18 daga ferðalag, auk þess sem mikil hitabylgja var í Stokkhólmi þegar hlaupið fór fram. Þetta voru honum mikil vonbrigði, sem urðu til þess að hann yfirgaf Svíþjóð í laumi. Í 50 ár var hann skráður týndur í opinberum sænskum gögnum, en á sama tíma lét hann til sín taka heima fyrir. Árið 1967 var honum boðið að koma aftur til Svíþjóðar til að ljúka hlaupinu, þá orðinn 75 ára gamall. Hann þáði þetta góða boð og kom í mark á 54 árum, 8 mánuðum, 6 dögum, 5 klst., 32 mín. og 20,3 sek., eða eins og hann orðaði það sjálfur: „Þetta var löng ferð. Ég gifti mig á leiðinni, eignaðist 6 börn og 10 barnabörn". (EC).

Shizo Kanakuri hefur verið kallaður „faðir maraþonsins" í Japan og að öðrum ólöstuðum á hann líklega einna stærstan þátt í að gera Japan að því maraþonstórveldi sem það raunverulega er. Hann var nefnilega lykilmaður í að koma Hakone Ekiden á laggirnar.

Hakone Ekiden

Orðið Ekiden er sett saman úr orðunum eki (stöð) og den (sending). Ekiden er sem sagt langt boðhlaup sem á rætur að rekja til aðferðar sem beitt var við boðsendingar á Jedútímabilinu í Japan 1603-1868, þar sem hlauparar eða hestamenn mynduðu keðju sem flutti boð frá einni stöð til annarrar, svipað því sem tíðkaðist í ríki Inka um svipað leyti. Fyrsta Ekiden-hlaupið var haldið í Japan 1917 til að halda upp á 50 ára afmæli Tókýó sem höfuðborgar. Þá voru hlaupnir 507 km í 23 áföngum á þremur dögum frá fyrrum höfuðborginni Kýótó til Tókýó. Árið 1920 var Hakone Ekiden svo hlaupið í fyrsta sinn fram og til baka á milli borganna Tókýó og Hakone. Þetta hlaup hefur síðan verið árlegur liður í japönsku hlaupadagskránni.

Ekiden-hlaupin eru mislöng, en Hakone Ekiden eru tæpir 220 km, þ.e. u.þ.b. 10 x hálft maraþon, sem hlaupið er á tveimur dögum 2. og 3. janúar á hverju ári. Fyrri daginn hlaupa boðhlaupssveitirnar frá Tókýó til Hakone og seinni daginn til baka. Hlaupið er stærsti íþróttaviðburðurinn í japönsku sjónvarpi með um 30% áhorf á landsvísu, og er þar sagt hafa svipaða stöðu og Ofurskálin (Super Bowl) hefur í Bandaríkjunum.

Framhaldsskólarnir

Rétt eins og víðavangshlaup hafa sterka stöðu í bandarískum menntaskólum og háskólum, miðast stór hluti af íþróttastarfi framhaldsskóla í Japan við undirbúning fyrir Hakone Ekiden og önnur sambærileg boðhlaup. Vinsældir Ekiden gera það að verkum að japanskir unglingar velja hlaupin oft frekar en aðrar íþróttir sem þó eru vinsælli í sjónvarpi á Vesturlöndum. Auk heldur liggur leiðin þá gjarnan beint í götuhlaupin í stað þess að keppa í brautarhlaupum fyrstu árin og færa sig svo yfir.

Hraði umfram taktík

Í Ekiden-hlaupum skiptir öllu máli að halda jöfnum hraða til að geta skilað keflinu sem fyrst til næsta manns. Hins vegar er ástæðulaust að byggja upp getu til að ná keppinautunum á lokametrunum. Japanskir langhlauparar alast sem sagt upp við að hlaupa hratt, miklu frekar en að hlaupa „taktískt". Þetta er sögð vera ein skýringin á því að Japanir standa sig yfirleitt betur í götuhlaupum en í brautarhlaupum þar sem oft er hlaupið til sigurs frekar en að leggja aðaláherslu að ná sem bestum tíma.

Áhersla á magnið?

Það orð fer af japönskum hlaupurum að þeir leggi mikið upp úr löngum, hægum æfingahlaupum. Sjálfsagt er mikið til í þessu og í þokkabót æfa Japanir líklega miklu meira á malbiki en flestir aðrir. Í borgum eins og Tókýó er langt upp í Heiðmörk. Þar ofan á bætist að í Japan er ekki mikið lagt upp úr hvíldartímabilum, heldur virðast margir hlauparar vera í miklu æfingaálagi allan ársins hring. En staðhæfingin um mikið magn gildir ekki um alla japanska hlaupara. Yuta Shitara (f. 1991), sem setti japanskt met í Tókýómaraþoninu 2018 (2:06:11 klst.) hefur t.d. lagt megináherslu á gæðaæfingar. Hann hleypur helst aldrei lengra en 35 km í einu og á það til að taka 25-30 km tempóhlaup þremur dögum fyrir maraþon, sem samræmist illa þeim bókum sem flestir þeirra bestu miða æfingar sínar við.

Kerfisbundinn stuðningur stórfyrirtækja

Eitt af því sem skýrir góðan árangur japanskra maraþonhlaupara er sú hefð að þarlend stórfyrirtæki ráði til sín fjöldann allan af hlaupurum sem fá full laun fyrir það eitt að standa sig í hlaupaliði fyrirtækisins. Þetta tíðkast ekki bara meðal fyrirtækja sem framleiða hlaupaskó og annað slíkt, heldur ekkert síður hjá fyrirtækjum sem framleiða t.d. bíla og snyrtivörur. Stuðningurinn við þessa hlaupara felst ekki bara í laununum, heldur líka í öðrum aðbúnaði, m.a. í formi matreiðslumanna, sjúkraþjálfara, styrktarþjálfara o.fl. sem hafa það hlutverk að styðja við liðið. Áætlað er að á hverjum tíma séu u.þ.b. 1.200 manns starfandi á þessum kjörum í u.þ.b. 60 fyrirtækjum. Og þegar hlaupaferlinum lýkur bjóðast gjarnan önnur störf innan fyrirtækjanna, þannig að ekki þurfi að hafa áhyggjur af atvinnuörygginu í þessu annars samkeppnismiðaða samfélagi.

Hlaupari fólksins

Engin regla er algild og Yuki Kawauchi (f. 1987) er dæmi um það. Hann er einn af örfáum japönskum hlaupurum í fremstu röð sem hefur valið að hafa hlaupin að áhugamáli, enda stundum kallaður „hlaupari fólksins". Hann hefur löngum byggt æfingar sínar öðru fremur á keppnishlaupum, enda eru þau orðin fleiri en hjá flestum öðrum á svipuðu getustigi. Hann vann Boston maraþonið 2018, hefur hlaupið 64 sinnum á betri tíma en 2:15 klst og 96 sinnum undir 2:20! Besti tíminn hans hingað til er 2:08:14 klst. frá því í Seúl 2013. Yuki er líka þekktur fyrir óvænt uppátæki til að gleðja áhorfendur, svo sem með því að mæta til leiks í pöndubúningi eða jakkafötum. Þannig klæddur hefur hann t.d. hlaupið hálft maraþon á 1:06:42 klst.

Yuki fer ekki bara aðrar leiðir í æfingum og fjármögnun ferilsins en flestir aðrir í Japan, heldur virðist lífeðlisfræði hans víkja talsvert frá meðaltalinu. Hann er t.d. sagður hafa VO2max upp á 82 ml/mín/kg en annars mun afar fátítt að japanskir hlauparar nái hærri tölu en 75. Það bæta þeir upp með hagkvæmum hlaupastíl, sem Yuki hefur ekki tileinkað sér. Hann hefur hins vegar e.t.v. meira sársaukaþol en gengur og gerist.

Meginniðurstaða

Gríðarlega góður árangur Japana í maraþonhlaupi á sér margar skýringar. Landlæg einbeiting og viljastyrkur eiga sjálfsagt sinn þátt í þessu, en þar við bætist stuðningur stórfyrirtækja og ekki síður Ekiden-hefðin, sem á vafalaust stóran þátt í að gera langhlaup að vinsælustu sjónvarpsíþrótt heillar þjóðar, þar sem til verða fyrirmyndir sem unga fólkið tekur sér til fyrirmyndar.

Efnisflokkur: Saga, keppnishlaup

Helstu heimildir, (auk afrekaskráa Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF)):

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.