Akraneshlaupið 1999 - "Óvissuferð um nágrenni Akraness"

birt 25. janúar 2004

Eftirfarandi er lýsing þátttakanda í Akraneshlaupinu sem var spurður að því hvað hefði komið fyrir, þegar menn undruðust á því að hann var ekki á listanum yfir úrslitin.

Hvað kom fyrir? Fórst þú ekki eða þurftir þú að hætta?

Hvorugt. Ég fór. Ég þurfti ekki að hætta. Ég hljóp alla leið. Var bara nokkuð sprækur. Hmmmmmmmmmm. Til að flækja málið enn frekar skal þess getið að ég var t.d. nokkuð á undan Viktori [félagi] þegar hlaupið var hálfnað. Þá var ég u.þ.b. tíundi. Hann tók aldrei framúr mér, né neinn þeirra hinna sem þá voru á eftir mér. En þeir komu samt allir á undan mér í mark.

Hmmmmmmmmmm............

Þannig eru mál með vexti að leiðinni var breytt frá því í fyrra og átti að hlaupa u.þ.b. einn og hálfan hring um bæinn og fara þá út úr bænum, á öðrum stað en í fyrra, og svo inn í bæinn aftur á sama stað og í fyrra. Einu merkingarnar þessa efnis voru lítil trépíla sem átti að benda til hægri þegar maður kom að henni eftir hálfan hring og svo til vinstri þegar maður kom að henni eftir einn og hálfan hring. Þar voru líka tveir piltar sem mönnuðu drykkjarstöð og áttu að sjá til þess að enginn beygði vitlaust.

Einmitt......

Ég kom að þessari pílu eins og lög gera ráð fyrir. Fékk mér að drekka eftir hálfan hring og svo aftur eftir einn og hálfan. Kastaði kveðju á starfsmennina. Og beygði svo til hægri. Í fyrra skiptið vakti þessi beygja mín engin viðbrögð. Í síðara skiptið varð hún til þess að starfsmennirnir (á að giska tíu ára) ráku upp roknahlátur.

Ég fattaði djókið ekki fyrr en um sjö km síðar þegar ég beygði út úr bænum á sama stað og í fyrra og hljóp í fangið á þeim sem voru fyrstir að koma til baka. Þeir bentu mér á að þetta væri eitthvað undarlegt. Ég hljóp því aftur inn í bæinn, fékk lýsingu á leiðinni hjá lögregluþjóni og hljóp annan hring að pílunni, ræddi aðeins við starfsmenn þar og fór svo út úr bænum og sem leið lá afganginn af hlaupaleiðinni. Samtals um 30 km og er það sennilega einhvers konar Íslandsmet í hálfmaraþoni. Sérstaklega ánægjulegt, þótt ekki væri nema í ljósi þess að það var slagveðursrok og rigning. Og þó, þetta gerði í raun ekkert til, ég var alveg sáttur við að fá langa æfingu í stað hálfmaraþons á slöppum tíma (hefði verið á um 1,35). Verra var að allt annað við skipulag hlaupsins var í þessum dúr. Stór hluti þeirra sem stefndu á 10 km hlaup voru sendir 3 km hringinn. Meðal annars tengdapabbi og kona sem hefði sennilega orðið fyrst kvenna og varð aldeilis rosalega reið, ruddi niður markinu m.a. (Tengdapabbi krafðist bara og fékk endurgreiðslu). Stór hluti þeirra sem ætluðu að hjóla 10 km fóru u.þ.b. 15 km.

Þess má geta að tími minn í þessum 30 km (u.þ.b.) var bara nokkuð góður, meðalhraðinn var um eða innan við 5 mín/km þótt ég hafi hægt nokkuð á þegar mér var orðið ljóst að ég var ekki að hlaupa löglega leið. Ég var heldur ekki orðinn neitt sérstaklega slappur eftir þetta sem mér þykir lofa góðu um það að ég nái þokkalegu maraþoni í sumar.

Ps. Þess má geta að síðustu 10 km hlaupsins eða svo hljóp ég með smalabíl frá einhverri björgunarsveit á hælunum. Það var duldið pirrandi. Þess má geta að Gylfi stefnir að þátttöku í Akraneshlaupinu að ári og mun þá kynna sér leiðina rækilega fyrir hlaupið.

Frá Hlaupasíðunni.

Þáttakandi þessi sér spaugilegu hliðarnar á þessu öllu saman, en er ekki kominn tími til að hlauparar gefi einkunn fyrir hlaup sem síðan er stillt upp með stjörnugjöf FRÍ ??

Á næstunni mun Hlaupasíðan koma upp formi, þar sem hlauparar geta sjálfir gefið hlaupunum einkunnir, því þetta er svo sannarlega ekki eina sagan af hlaupi á þessu ári þar sem skipulag hefði mátt vera betra. Fólk fórnar tíma og þreki til að æfa til árangurs, en með ónógri skipulagningu er hægt að eyðileggja margra mánaða vinnu.