Það er ekki úr vegi að byrja á Reykjavíkurmaraþoni sem er langstærsti hlaupaviðburður ársins hér á landi. Eftir að Glitnir gerðist aðalstyrktaraðili hlaupsins fyrir tveimur árum hefur þátttakan aukist mjög mikið enda hefur bankinn lagt mikið upp úr því að kynna hlaupið. Ég minnist þess í byrjun tíunda áratugsins að kona ein kom keyrandi inn Lækjargötuna á meðan hlaupinu stóð og skildi ekkert í því hvað um var að vera - hafði ekkert heyrt minnst á Reykjavíkurmaraþon. Það skondna er að það sama gerðist reyndar í sumar en þá komu útlendingar á bíl upp að hlið þeirra sem voru að taka endasprettinn í 10 km hlaupinu. Einhverra hluta vegna hafði þeim tekist að komast framhjá brautarvörðunum.
Ég var sérstaklega ánægður með það í ár að áherslan var ekki eingöngu á þátttöku almennings heldur jafnframt afreksþáttinn. Þetta getur að mínu mati farið vel saman. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi ásamt Mörthu Ernstsdóttur, Íslandsmethafa kvenna í maraþonhlaupi, að vera boðið í Höfða um miðjan júlí þar sem norska hlaupadrottningin Grete Waitz, verndari hlaupsins, kynnti þátttöku erlendra stórhlaupara í RM. Fyrst ber þar að nefna Stefano Baldini, Ólympíumeistarann í maraþonhlaupi 2004. Hann hljóp hálfmaraþonið og var mikill fengur fyrir hlaupið að fá hann og eftir því tekið erlendis. Það var mjög ánægjulegt að hitta Grete aftur, en ég hafði áður hitt hana í Osló árið 1994 þegar heimsmeistaramót kvenna í hálfmaraþonhlaupi fór þar fram. Þá sendi Ísland sveit og ef ég man rétt varð Martha Ernstsdóttir í 15. sæti á 1:12:15 klst. sem var mjög góður árangur á hæðóttri braut. Grete hafði ég fyrst séð í Evrópubikarkeppninni 1985 sem fram fór í Reykjavík og bar hún þá eftirnafnið Andersen. Grete Waitz er þekktust fyrir að hafa sigrað New York maraþonið mörgum sinnum en hún setti einnig mörg heimsmet á áttunda og níunda áratugnum. Því miður hefur hún átt við heilsuleysi að stríða undanfarin ár en vonandi hristir hún það af sér.
Þegar þátttaka í hlaupaviðburði nálgast 10 þúsund manns þá er eðlilegt að álag á framkvæmdina aukist. Óraunhæft er að ætlast til þess að allir hlutir gangi fullkomlega upp. Framkvæmdaraðilar geta aldrei séð fyrir öll hugsanleg viðbrögð þátttakanda. Hins vegar er mikilvægt í skipulagi að reyna að sjá sem best fyrir hvar vandamál geti hugsanlega komið upp. Latabæjarhlaupið var sem dæmi klúður árið 2006 - ein stór þvaga. Þess vegna var góður leikur að færa það út á háskólasvæðið í ár. Þátttakan og áhuginn á þessu barnahlaupi sýna að það hefur mikilvægu hlutverki að gegna - þar gætu leynst stórhlauparar framtíðarinnar.
Glitnir hefur glætt Reykjavíkurmaraþon nýjum þrótti. Fyrir hlaupinu er nú meiri eftirvænting og umtal en áður. Ekki síst vegna þess að fólki gafst kostur að hlaupa og safna fé í þágu góðra málefna. Það var sterkur leikur hjá bankanum að taka upp þetta áheitarform. Það eykur velvilja til hlaupsins svo og þátttökuna. Glitnir á miklar þakkir skildar fyrir rausnarlegan stuðning við framkvæmd RM. Með slíkum stuðningi ætti hlaupið að geta náð enn hærri hæðum.
Það sem upp á vantar er betri árangur bestu íslensku hlauparanna. Kári Steinn Karlsson, besti langhlauparinn á Íslandi í dag, valdi að hlaupa 10 km og gerði það vissulega vel, varð fyrstur á 31:00 mín. Stefán Guðmundsson, jafnaldri hans, hljóp líka ágætt hálfmaraþon á 1:14:10 klst. Þar með eru helstu afrekin upptalin. Fyrsti íslenski maraþonhlauparinn hljóp á 2:58:33 klst., sem er alls ekki ásættanlegt. Vinna þarf að því að nokkrir Íslendingar fari undir a.m.k. 2:40 á komandi árum. Í eldri flokkunum var hins vegar nokkuð um athyglisverðan árangur. Nefna má að Jón Guðlaugsson hljóp maraþonið á 5:44:53 en hann er orðinn 81 árs, Signý Einarsdóttir (54 ára) varð fyrst í flokki 50-59 ára í hálfmaraþoni kvenna á 1:37:28, Björg Magnúsdóttir (61 árs) varð fyrst í flokki 60 ára og eldri í hálfmaraþoni kvenna á 1:51:09 og Sigurður Kr. Jóhannsson (64 ára) varð fyrstur í flokki 60-69 ára í hálfmaraþoni karla á 1:39:43. Margir aðrir náðu prýðilegum árangri í öldungaflokkum en þar hefur breiddin aukist mjög mikið á undanförnum árum. Sýnir að fólk getur svo til endalaust bætt sig með góðri ástundun.