Hef ekki bætt við hugrenningu síðan í byrjun mars og verð því að teljast latur bloggari. Ætla nú að bæta úr þessu og birta færslur með nokkurra daga millibili fram í miðjan janúar. Á nokkra punkta í mínum fórum frá þessu ári sem ágætt er að koma á framfæri í n.k. annálsformi. Þetta eru ýmsar vangaveltur og innlegg varðandi hlaupaatburði og hlaupamálefni á líðandi ári.
Þar sem þetta fyrsta innlegg er nokkurs konar inngangur þá er kannski best að byrja aðeins á sjálfum sér þó ég hafi reyndar ekki frá neinu fréttnæmu að segja varðandi hlaup á árinu - hef ekki tekið þátt í hlaupi í tvö ár. Á þessu augnabliki er ég reyndar að vorkenna mér aðeins þar sem ég hef ekkert getað hlaupið í tvær vikur og reyndar lítið sem ekkert frá septemberlokum.
Ástæðan fyrir þessu er nokkuð gamalkunn, að taka ekki nægilega mikið mark á eymslum. Þrátt fyrir alla reynsluna á maður það til að ætla sér of mikið. Í lok september fékk ég slæmsku í mjóbakið eftir að hafa gert allt of mikið í golfinu nokkra daga í röð. Það tók sjúkraþjálfara rúman mánuð að ná mér sæmilega í lag. Skrapp þá til Florída í viku og hafði golfpokann auðvitað með. Fór reyndar mjög varlega í golfið og spilaði aðeins tvo hringi. Síðasta daginn fór ég hins vegar á æfingasvæðið og eyddi fulllöngum tíma í að æfa tiltekinn mjaðmasnúning sem reynir töluvert á vinstri fótinn. Næstu daga fann ég fyrir seyðingi innan á vinstra hné og mundi ég þá eftir einhverjum meiðslum á sama stað sem ég hafði lent í fyrir um 20-25 árum. Greinilega einhver veikleiki verið til staðar.
Fjórum dögum eftir þessa golfæfingu var ég hins vegar kominn í klukkutíma brekkufartleik í Heiðmörk í 4°c frosti með tveimur löggustrákum sem ég er að þjálfa. Æfingin gekk ágætlega enda hitnar maður fljótt og í góðum félagsskap gleymast eymsli eða seyðingur fljótt. Dagana á eftir gat ég hins vegar varla gengið - hafði teygt á sinafestingu í hnénu. Þetta er ekki stórvægilegt, en tekur samt sinn tíma. Meiðsli eru til þess að maður endurskoði áætlanir.
Gamlir hlaupafélagar voru að hvetja mig í sumar og snemma í haust að æfa fyrir Norðurlandamót öldunga innanhúss sem fram fer um mánaðamótin feb/mars í Reykjavík. Var farinn að velta því alvarlega fyrir mér þegar skokkurinn byrjaði að gefa sig. Nú er tíminn orðinn ansi stuttur að mínu mati og því skynsamlegra að setja sér annað markmið. Þar sem ætlunin er að bæta golfið á næsta ári ætti ég því miklu frekar að fara í þriggja mánaða styrktarprógramm inni áður en útiæfingar byrja í mars/apríl. Þarf hins vegar að ná þessari bölvuðu mjaðmahreyfingu en það er hægara sagt en gert fyrir gamlan og stirðan langhlaupara. Það skal þó hafast því það er þó eitt sem við langhlauparanir höfum - nóg af þrjósku og þrautseigju.