Annáll 4 - Ársbesta svipað og árið áður

birt 04. janúar 2008

Í heildina tekið var ársbesta í maraþoni og hálfmaraþoni svipað árið 2007 og árið 2006. Þó var breiddin í maraþoni karla meiri árið 2006 en þá fóru 16 manns undir 3:00 klst. sem er metfjöldi eftir því sem ég best veit, en einungis 9 manns á síðasta ári. Meðaltími fyrstu 10 var um 2:53:30 en var um 2:49:30 árið 2006. Valur Þórsson bætti sinn fyrri árangur og gaman að sjá að hinn 52 ára Sigurjón Sigurbjörnsson náði næstbesta tímanum. Stendur sig vel karlinn. Í maraþoni kvenna var meðaltal 10 fyrstu í fyrra heldur betra en árið 2006 eða um 3:26:30 á móti um 3:27:30. Sigurbjörg Eðvarðsdóttir stórbætti fyrri árangur sinn frá árinu 2005 og Björg Árnadóttir kom sterk inn. Meðalaldur 10 fyrstu karlanna var 43,6 ár en kvennanna 42,5 ár. Árið 2006 var meðalaldur karlanna 40,4 ár en 41,5 ár hjá konunum. Þetta er mjög hár meðalaldur efstu 10 á afrekaskrá í samanburði við önnur lönd. Það heyrir raunar til undantekninga ef einhver innan við þrítugt reynir sig við maraþonvegalengdina. Þess vegna er  árangur Söndru Birgisdóttur, 21 árs, í Kaupmannahöfn (3:34:27) mjög athyglisverður.

Ég sakna þess að sjá ekki fleiri af bestu brautarhlaupurunum reyna við hálfmaraþonið. Það mun koma að því og þá fylgja aðrir á eftir. Besti karlinn hljóp á 1:14:07 en ég minnist þess að árið 1986 var sá sem var í 6. sæti með 1:12:30. Greinilega meiri breidd í þá daga. Stefán Guðmundsson, Jósef Magnússon og Sigurður Hansen komu nýir inn með ágætan árangur og gaman var að sjá Rannveigu Oddsdóttur og Mörthu Ernstsdóttur aftur í efstu sætum kvenna. Meðalaldur fyrstu 10 karlanna var 35,7 ár og kvennanna 40,3 ár. Árið 2006 var meðalaldur hjá körlum 37,5 ár en 38,5 ár hjá konum.

Í 10 km götuhlaupi karla náði Kári Steinn Karlsson langbesta tímanum og var ánægjulegt að fimm af fyrstu tíu eru fæddir árið 1980 og síðar. Breiddin virðist heldur vera að aukast og sá 15. í röðinni með 36:21, en fleiri og fleiri eldri hlaupara hafa verið að stimpla sig inn á 35 og 36 mínútum sem bendir til þess að menn eru farnir að leggja meiri rækt við hraðaæfingar en áður. Hjá konunum fóru Íris Anna Skúladóttir, Jóhanna Skúladóttir og Fríða Rún Þórðardóttir allar undir 38 mín. Breiddin jókst hins vegar ekki, en það munaði um að Martha og Bryndís Ernstsdætur hlupu ekki þessa vegalengd í fyrra sem þær höfðu gert árið 2006.

Hverjar skyldu svo vera horfurnar árið 2008? Með hliðsjón af stöðugt aukinni þátttöku Íslendinga í maraþonhlaupum erlendis kæmi mér ekki á óvart að meðaltalsárangur í maraþoni muni batna og breiddin aukast jafnframt. Nýliðunin mætti þó vera meiri, en rétt er þó að hafa í huga að uppbygging maraþonhlaupara í fremstu röð tekur langan tíma. Árangurinn í hálfmaraþoni karla hlýtur hins vegar að batna töluvert en hann hefur verið með slakasta móti undanfarin tvö ár, einungis 4-5 undir 1:20. Hjá konunum hefur viðmið þeirra bestu undanfarið verið að fara undir 1:30. Ég myndi gjarnan vilja sjá Fríðu Rún Þórðardóttir, sem bætti sig verulega í 10.000 m á braut (36:23) reyna sig við hálfmaraþonið. Enginn vafi á því að hún myndi bæta sinn fyrri árangur á þessari vegalengd sem kominn er til ára sinna (1:26:21 árið 1993).

Gleðilegt hlaupár og gangi ykkur sem best að takast á við markmið ykkar á árinu.